11.11.1976
Sameinað þing: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

34. mál, öflun upplýsinga um þjóðartekjur á mann og kaupmátt launa

Flm:

(Gylfi Þ. Gíslason): Herra forseti. Í þessari till. er lagt til að Alþ. feli hæstv. ríkisstj. að afla nýjustu fáanlegra upplýsinga, sem séu sambærilegar, um þjóðartekjur á mann á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. En jafnframt er ríkisstj. falið að afla upplýsinga um gildandi kaupgjald helstu starfsstétta, um tímakaup, vikukaup eða mánaðarkaup, sem og nýjustu sambærilegar upplýsingar um raunverulegar tekjur þeirra fyrir og eftir skattgreiðslu og um vinnutíma. Og að síðustu er gert ráð fyrir því, að reynt verði að áætla kaupmátt launanna miðað við verðlag í hverju landi og Alþ. síðan gefin skýrsla um niðurstöðu þessarar upplýsingasöfnunar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á næsta ári munu fara fram samningar um laun nær allra launþega á Íslandi: verkalýðsfélaga innan Alþýðusambandsins, opinberra starfsmanna og háskólamanna. Það hefur komið skýrt og greinilega fram af hálfu málsvara allra þessara launþegasamtaka, að þeir telja kaupmátt launa sinna hafa rýrnað óeðlilega mikið að undanförnu og mismunandi mikið. Almennar staðhæfingar hafa og heyrst um það, að laun séu nú orðin hjá mörgum mikilvægum starfsstéttum miklu lægri en þau gerast í nálægum löndum og miklu meiri en mismunurinn er á þjóðartekjum á mann á Íslandi og í nálægum löndum samkv. alþjóðlegum skýrslum sem um það eru birtar. Af þessum sökum er nauðsynlegt að fyrir liggi sem gleggst vitneskja um þetta mál.

Nú er mér fullvel ljóst, eins og raunar áreiðanlega öllum starfsbræðrum mínum í hagfræðingastétt, hversu mikil vandkvæði eru á því að bera saman laun almennt og laun einstakra stétta í einstökum löndum, jafnvel hver vandkvæði eru á því að bera saman útreikninga á þjóðartekjum á mann í einstökum löndum, að ég tali ekki um samanburð á kaupmætti tekna þegnanna í einstökum löndum. En jafnvel þó að það sé fúslega játað að slíkur samanburður er miklum erfiðleikum bundinn, mikill vandi að gera hann og taka verður tillit til þess að um óvissuatriði er að ræða, þá gæti engu að síður komið í ljós að mismunurinn væri meiri en svo á þjóðartekjum á mann, á kaupupphæð og kaupmætti, að ekki væri hægt að skýra hann með vandkvæðum í skýrslugerð einni saman. Þess vegna tel ég rétt að efnt sé til upplýsingasöfnunar sem þessi till. fjallar um, þó að ég skuli fyrir fram viðurkenna að niðurstöðu hennar verður að taka með vissum fyrirvara, en gagnleg gæti hún engu að siður alveg tvímælalaust orðið. Sannleikurinn er sá, að mjög lausleg athugun á vissum meginþáttum þessara mála bendir til þess að það sé orðið um að ræða miklu meira bil á milli kaupgjalds hér og t.d. á hinum Norðurlöndunum en hægt er að skýra með mismun þjóðarteknanna.

Svo sem kunnugt er eru þjóðartekjur á mann mjög svipaðar hér á Íslandi og hafa verið um nokkur undanfarin ár yfirleitt á hinum Norðurlöndunum. Svíar eru þar að vísu áberandi hæstir, en þjóðartekjur á mann á Íslandi eru ekki fjarri því sem gerist í hinum Norðurlöndunum.

Ég hef aflað mér upplýsinga um kaupgjald ófaglærðra verkamanna og iðnverkamanna í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, sem og um kaupgjald fjölmennustu stéttar opinberra starfsmanna þar og hér, þ.e.a.s. um kaup barnakennara. Þessi samanburður, sem ég skal nú gera mjög stuttlega grein fyrir, er sterkasta röksemdin fyrir því að ástæða sé til þess að gera þennan samanburð, sem till. fjallar um, á miklu víðtækari og nákvæmari grundvelli en hægt er fyrir einstaka þm. að gera með lauslegri athugun.

Algengasti eða mest notaði taxti Dagsbrúnar hér, 7. taxtinn, er þannig að tímakaup samkv. honum er nú 1. nóv. 408.70 kr. Meðaltímakaup verkamanna í dagvinnu var á öðrum ársfjórðungi 1976 nokkru hærra, 440.89 kr., en nú 1. nóv. mundi það vera 524.40 kr. En hvað skyldi kaup ófaglærðra verkamanna vera í Danmörku? Það er um 30 danskar kr., þ.e.a.s. 962 ísl. kr. Í Noregi er meðaltímakaup iðnverkamanna í dagvinnu. — það er e.t.v. ekki alveg sambærileg tala við Dagsbrúnarkaupið hér eða kaup ófaglærðra verkamanna í Danmörku, það er slíkt sem veldur vandkvæðum á samanburðinum, — en meðaltímakaup iðnverkamanna í dagvinnu er nú í Noregi norskar kr. 28.55, sem svarar til 1024 kr. samkv. gengi. Í Svíþjóð er meðalkaup iðnverkamanna nú 24.40 kr. sænskar, sem svarar til 1 086 ísl. kr. samkv. gengi. Það er langhæst, meira en helmingi hærra en meðaltímakaup verkamanna í Reykjavík er í dag samkv. opinberum skýrslum.

Ef litíð er til fjölmennustu stéttar opinberra starfsmanna, þ.e. barnakennaranna, þá voru nú 1. nóv. byrjunarlaun barnakennara yngri en 32 ára 92 069 kr. Kaup kennara eldri en 32 ára er 101415 kr., en hámarkslaun barnakennara eru 115 926 kr. Þetta á við barnakennara samkv. gamla kerfinu, ekki þá kennara sem útskrifaðir eru frá kennaraháskóla. Byrjunarlaun þeirra eru 95182 kr., þ.e. nokkru hærri er byrjunarlaun hinna, en hámarkslaun eru þau sömu og hinna kennaranna, þ.e.a.s. 115 926 kr. Byrjunarlaun barnakennara í Kaupmannahöfn eru 6 885 danskar kr., sem svarar til 220 733 ísl. kr., þ.e. helmingi hærri en á sér hér stað. Úti á landi eru launin hins vegar nokkru lægri. Þar er um að ræða þrjá launaflokka. Hinn lægsti þeirra er 195 886 kr., en hinn hæsti er 204190 kr. Byrjunarlaun barnakennara í Noregi eru mun lægri en í Danmörku, þau eru 143 050 kr., en hins vegar mun hærri heldur en hér. Kennarar í Svíþjóð hafa mismunandi há laun eftir því hvort þeir kenna 7, 8 og 9 ára börnum annars vegar eða hvort þeir kenna 10, 11 og 12 ára börnum hins vegar. Byrjunarlaun kennara, sem kenna 7, 8 og 9 ára börnum, eru 164 681 kr., en hámarkslaun þessara kennara eru 180 965 kr. Þeir kennarar, sem kenna 10, 11 og 12 ára börnum, skiptast hins vegar í þrjá launaflokka. Hinn lægsti þeirra hefur 175 851 kr. í laun, en hinn hæsti 197 923 kr. Hámarkslaun kennaranna eru upp undir það sem hámarkslaun kennaranna í Danmörk eru, sem eru þannig best launaðir af öllum kennurum á Norðurlöndum, en íslenskir barnakennarar hins vegar langverst launaðir.

Ég nefndi ekki fleiri dæmi um þetta, en vildi þó ekki mæla fyrir þessari till. nema geta bent á skýr og ótvíræð dæmi um að það er um að ræða stórfelldan launamismun hjá fjölmennum starfsstéttum hér á Íslandi annars vegar og á hinum Norðurlöndunum hins vegar. (Gripið fram í: Vinnutími kennara, er hann sambærilegur?) Það kannaði ég ekki. Ég spurði eingöngu um launin. Ég veit ekki hvort tímaskyldan er sú sama. Það er eitt af þeim atriðum sem auðvitað þyrfti að kanna í áframhaldi af þessu, enda er ætlunin með till. að athuga einnig vinnutímann. En sem sagt, ég vildi ekki mæla fyrir þessari till. nema geta bent á dæmi þess að það er um að ræða nú óeðlilegan mun á kaupi fjölmennra starfsstétta, bæði innan Alþýðusambandsins og meðal opinberra starfsmanna, á Íslandi annars vegar og á þessum þremur Norðurlöndum hins vegar. Þetta ættu að vera alveg nægileg rök fyrir því, að ástæða sé til að efna til eins nákvæmrar samanburðarrannsóknar í þessum efnum og mögulegt er. Þessi launamunur verður ekki skýrður með mismun á þjóðartekjum á mann, eins og ég gat Um áðan. Það liggja til hans einhverjar aðrar orsakir sem auðveldara verður að skilja og vonandi verða talin rök fyrir breytingum þegar athugunin hefur farið fram. En frumskilyrði þess að hægt sé að gera nauðsynlegar og skynsamlegar breyt. er að þekkja og skilja rétta málavexti.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.