18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

23. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt, á umferðarlögum fjallar um að hætt verði að umskrá ökutæki vegna flutninga milli lögsagnarumdæma og að Bifreiðaeftirliti ríkisins verði falið að annast skráningu ökutækja í stað lögreglustjóra. Þær till., sem í þessu frv. felast, komu fram sem þáttur í frv. sem lagt var fyrir hv. síðasta Alþ. Í Nd. var hins vegar þessum þætti kippt út úr frv., en frv. um breyt. á umferðarlögunum, sem þá lá fyrir, að öðru leyti afgr. Í þessari hv. d., en frv. var lagt fram í Nd., hlaut frv. sömu afgreiðslu. En í nál. frá hv. allshn. þessarar d. kom fram að það var óskað eftir því af hálfu a.m.k. sumra nm. að frv. um þetta efni sérstaklega, umskráninguna, yrði lagt fram á þessu þingi. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að vitna til og lesa upp nál. allshn. sem er svo hljóðandi:

Allshn. hefur rætt frv. þetta á nokkrum fundum og kynnt sér umsagnir þær sem borist hafa allshn. Nd. Þá kallaði n. til fundar við sig þá Ólaf Walter Stefánsson skrifstofustjóra og Sigurð Jóhannsson vegamálastjóra, sem unnið höfðu að samningu frv., og Guðna Karlsson forstöðumann Bifreiðaeftirlitsins. Enn fremur barst n. skrifleg umsögn Ólafs Walters Stefánssonar um veðsetningu bifreiða.

N. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd., en sú skoðun kom fram hjá sumum nm. að nauðsynlegt væri að frv. um skráningu bifreiða yrði flutt á næsta þingi og þar yrði gert ráð fyrir sams konar fyrirkomulagi og í upphaflegri gerð frv.“

Það er í samræmi við þessar óskir, sem komu fram í þessari hv. d., að þetta frv. er hér lagt fram nú og í þeim búningi sem það er í, þ.e.a.s. það fjallar eingöngu um þetta atriði, skráningu ökutækja. Efni þess ætti að vera hv. dm. það kunnugt frá síðasta þingi að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það né heldur um þær ástæður sem eru til þess að lagt hefur verið til að það væri horfið frá því skipulagi, sem ríkir nú í þessum efnum, og tekið upp það skipulag sem lagt er til í þessu frv. og er í samræmi við það sem viða tíðkast annars staðar. En meginætlunin er að með því skipulagi sé hægt að stefna að sparnaði og hagræðingu.

Það geta verið skiptar skoðanir um það, hversu mikill sá sparnaður sé eða hagræðing sem í því felst. Enn fremur er vitað mál að það eru skiptar skoðanir um hvort eigi að hverfa að því fyrirkomulagi, sem í frv. greinir, eða ekki. Ég fyrir mitt leyti tel sjálfsagt fyrir hv. Alþ. að leitast við, þar sem það er hægt, að koma við sparnaði og hagræðingu. En ég tel nauðsynlegt að Alþ. taki alveg af skarið í þessum efnum. Ef það sýnir sig nú að þetta frv. fær ekki hljómgrunn, þá verður sjálfsagt ekki á næstunni átt við það að reyna að hverfa frá því fyrirkomulagi sem nú ríkir.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, af því að frv. eða efni þess er gamalkunnugt hér, að vera að rekja það nánar, en leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.