18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

23. mál, umferðarlög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh, að við umr. um þetta mál í fyrra kom það fram að einstakir nm. í allshn. töldu æskilegt að málið yrði flutt á ný í sinni upprunalegu mynd og þá aftur tekið upp það ákvæði, að bifreiðar héldu númeri sínu þó að eigendaskipti yrðu. Ég lýsti því þá yfir að ég væri andvígur því að gera þá breyt. sem upphaflega var þar ráð fyrir gert og er nú tekin inn í þetta frv. Ég sannfærðist ekki á nefndarfundum allshn. á síðasta þingi um að hér væri um sparnaðaratriði að ræða þegar allt kæmi til alls. Ég sannfærðist ekki um hvernig ætti að framkvæma það ef ætti að halda áfram því að nokkru leyti alíslenska fyrirbrigði um veðsetningu á bifreiðum, eins og er hér á landi, og erfitt og kostnaðarsamt gæti verið að koma á sérstakri stofnun sem hefði að geyma allar slíkar heimildir um veðbönd sem nú er hægt að sækja til hvers lögsagnarumdæmis fyrir sig. Það er svo mál út af fyrir sig hvort menn eru persónulega viðkvæmir fyrir sínum eigin númerum. Um það skal ég láta ósagt á þessu stigi. Ég er það sjálfur, en það er ekki kjarni málsins. Ég hef ekki, herra forseti, fengið enn sannfæringu fyrir því að þetta sé til þess sparnaðar sem ýmsir vilja vera láta, og það er kjarni málsins. Þess vegna er ég enn á ný sömu skoðunar og ég var við afgreiðslu málsins í þessari hv. d. á síðasta þingi, og ég er andvigur því að þetta ákvæði komi inn.