18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

23. mál, umferðarlög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég er sama sinnis og síðasti ræðumaður, að ég kom ekki auga á þann sparnað sem frv. átti að boða á sínum tíma. Það getur vel verið að með endurskipulagningu á húsakosti Bifreiðaeftirlits ríkisins og ýmsu fleiru í því sambandi hafi mátt sannfæra menn um að það takist, en það kom aldrei skýrt fram að það lægi fyrir. Nú er það vitað mál að Bifreiðaeftirlit ríkisins fær betri húsakost, a.m.k. á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þó einkum í Reykjavík, og kann það að leiða af sér sparnað í rekstri og einnig einhver þægindi fyrir bifreiðaeigendur við umskráningu og skipti á bifreiðum. En það, sem mig langaði til, herra forseti, var að beina fsp. til hæstv. dómsmrh. hvaða fyrirkomulag verður endanlega, — ég er ekki alveg öruggur um að skilja það rétt, — hvaða fyrirkomulag verður þá með bifreiðar er veðsetning hvílir á og ekki má ráðstafa nema hafa veðleyfi. Ég tel að það hljóti að verða hjá bæjarfógetum, ella hlýtur það að verða mjög umsvifamikið fyrir einstaklinga úti um land að selja bifreiðar sínar. Ég átta mig ekki alveg á því að breytingin geti verið önnur heldur en Bifreiðaeftirlit ríkisins taki meira til sin en verið hefur um skráningar og allt öryggissvið. En hinn þátturinn hlýtur að vera hjá bæjarfógetanum, eða ég skil það þannig. Ef þessi skilningur er rangur, þá þætti mér gott að fá að vita það strax.