16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

245. mál, úrbætur í atvinnumálu á Snæfellsnesi

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Hinn 16. maí 1975 var samþ. svo hljóðandi þál.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta kanna hvort hagkvæmt sé að byggja og starfrækja verksmiðju á Snæfellsnesi er unnið geti feitan fisk og fiskúrgang.“

FIm. þáltill., sem að vísu var samþ. nokkuð breytt, voru allir þm. Vesturlandskjördæmis. Þetta er sameiginlegt áhugamál okkar og baráttumál okkar allra. Með feitum fiski og fiskúrgangi er að sjálfsögðu átt við loðnu, síld og karfa. Í grg., sem fylgdi till., gerði 1. flm., hv. 1. þm. Vesturl., rækilega grein fyrir nauðsyn þess að verksmiðju af þessu tagi yrði komið upp á Snæfellsnesi. Í grg. var bent á það, að á svæðinu frá Snæfellsnesi til Patreksfjarðar er engin fiskvinnsluverksmiðja af þessu tagi og mjölverksmiðjurnar þar á nesinu eru orðnar lélegar, flestar úr sér gengnar og þurfa endurnýjunar við. Virðist eðlilegast að sú endurnýjun fari fram með þeim hætti sem þarna var lagt til, að reist verði ein stór eða tvær smærri verksmiðjur.

Um þjóðhagslega nauðsyn slíkrar verksmiðju er líka getið í grg. og bent á það t.d., að drjúgur hluti loðnuaflans veiðist við Snæfellsnes og á Breiðafirði. En sökum skorts á verksmiðju af þessu tagi er ekki aðeins að það er ekki hægt að bræða þennan afla, heldur geta hraðfrystihúsin á Snæfellsnesi ekki heldur hraðfryst loðnuna til útflutnings. Slík verksmiðja mundi því skapa möguleika á aukinni framleiðslu á loðnu til manneldis og þar með aukinni verðmætisöflun og um leið skapa hraðfrystihúsunum á Snæfellsnesi bættan rekstrargrundvöll.

Að sjálfsögðu, eins og ég hef þegar sagt, er mikið áhugamál okkar þm. Vesturl. og snæfellinga allra að þetta mál nái fram að ganga. Því hef ég leyft mér að beina til hæstv. forsrh. á þskj. 47 svo hljóðandi fyrirspurn:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 16. maí 1975 um að ríkisstj. láti kanna hvort hagkvæmt sé að byggja og starfrækja verksmiðju á Snæfells.nesi er unnið geti feitan fisk og fiskúrgang.“