16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

245. mál, úrbætur í atvinnumálu á Snæfellsnesi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta mál hefur ekkert verið að veikjast á milli rn. Það, sem hefur skeð í þessu máli og kom fram í upplýsingum forsrh., er að Alþ. sendi málið í rn. þar sem það átti ekki heima. Ég segi fyrir mitt leyti, að um leið og þessi fyrirspurn kom fram kannaði ég í sjútvrn. hvar málið stæði. Þá hafði það aldrei komið þangað. Ég brá strax við og setti menn til að framkvæma þessa athugun. Hér er um mistök að ræða frá hendi Alþ. og þá kannske einnig frá hendi þess rn. sem fékk þál., en átti auðvitað ekki um hana að fjalla.

Hins vegar þykir mér gott að heyra það hjá hv. síðasta ræðumanni, að hann veki athygli mína á loðnuveiðum og á Norglobal. Ég ætla nú að segja þessum hv. þm. það, að ég hef haft töluvert mikið fyrir loðnuleitinni og fjáröflun til þess að finna þennan óvænta happdrættisvinning, loðnuna. Sömuleiðis fékk ég að heyra töluvert í sambandi við þá ákvörðun mína, þegar leyfi var veitt til þess að Norglobal yrði hér starfrækt, sem hefur bjargað flotanum undanfarin ár og verið mjög happadrjúgt fyrir íslenskan þjóðarbúskap, að ekki sé meira sagt. Þá komu mótmæli fram og það frá ýmsum aðilum og ekki síst frá Alþýðusambandi Íslands sem taldi þetta einhverja mestu bölvun sem væri hægt að gera verkalýð á Norðausturlandi og á Austfjörðum, að bjarga þannig loðnuflotanum. Það er gott að það er áhugi núna í þessum herbúðum fyrir Norglobal. þótt seint sé.