16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég mun fara aðeins örfáum orðum um þá fsp. sem hér liggur fyrir. Fyrirspyrjandi, hv. 4. þm. Vestf., skýrði málið frá flestum hliðum. Þetta er, eins og hann gat um, eitt með erfiðari málum sem ég hygg að hafi komið upp í atvinnumálum landsmanna. Það var talað hér um slæmt atvinnuástand á Ólafsvík, og síst vil ég draga úr erfiðleikum þar né þörf á að koma þar til aðstoðar. En ég vil benda á að á Bíldudal hafa nú undanfarið hálft annað ár verið 70-80 manns atvinnulausir nokkurn veginn stöðugt, en íbúafjöldi staðarins er milli 300 og 400.

Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að það hefur verið veitt mjög góð fyrirgreiðsla til þessa staðar að undanförnu sem því miður hefur ekki nýst sem skyldi. Hefur þar komið til bæði óheppni, sem stundum er fyllilega réttlætanleg, og í annan stað e.t.v. ekki nógu mikil samstaða heimamanna, það verður að viðurkennast.

Hæstv. forsrh. gat þess, að Framkvæmdastofnunin hefði málið til umsagnar. Ég skil satt að segja ekki að Framkvæmdastofnunin þurfi lengi að velta vöngum yfir því að útbúa þá umsögn, því að svo lengi er hún búin að hafa þetta mál til meðferðar, og bað, sem á ríður núna, er að eitthvað sé gert strax. Ég hef aldrei einblínt á skuttogara sem einu lausnina fyrir bílddælinga. Það er gefið mál, að það er ekki stætt á því að fjölga skuttogurum okkar á meðan við liggjum undir ámæli fyrir að ofnýta fiskstofna okkar. Það, sem verður að gera nú þegar hraðfrystihúsið er loksins u.þ.b. búið til vinnslu og fiskibáturinn, sá eini sem til er til hráefnisöflunar, er nú frá í gær líklega loksins orðinn eign bílddælinga, er að koma þessum rekstri í gang. Mér skilst að til þess vanti um 15–20 millj. kr. Það liggur fyrir lánsloforð nú þegar um nokkurn hluta þess láns. Hins hlutans verður að afla ef Bíldudalur á ekki að leggjast niður sem byggðarlag. Þar hefur fækkað fólki um 17–18% á s.l. ári, og bað væri dapurlegt og einkennileg hagfræði um leið að henda tugmilljónum í uppbyggingu staðar, ef ekki á svo að hjálpa til að þær framkvæmdir komi að gagni þegar loksins vantar aðeins herslumuninn. Það hafa líka verið byggðar einar 30 íbúðir á Bíldudal að undanförnu, og sýnt er að eigendur þeirra munu ekki geta staðið við skuldbindingar sínar nema atvinnuástand á staðnum batni. Því legg ég áherslu á, að það þarf kannske ekki mjög mikla fyrirgreiðslu til viðbótar við það sem þegar hefur verið látið í té til Bíldudals, en sú fyrirgreiðsla þarf að koma strax.