16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að ræða Bíldudalsmál á þessari stundu. Það er geysilega viðamikla sögu af þeim að segja. En ég hjó eftir því, að í máli þeirra hv. 5. þm. Vestf. og hv. 9. landsk. virtist sem þeir teldu að ekki þyrfti að standa á Byggðasjóði um afgreiðslu mála vegna Bíldudals eða tillögugerð um hvernig skyldi að úrbótum staðið. Það hefur vissulega ekki staðið á Byggðasjóði í sambandi við fyrirgreiðslu við Bíldudal, eins og fram hefur komið. En fyrir mjög skömmu kom beiðni frá ríkisstj, til Byggðasjóðs eða Framkvæmdastofnunar um skýrslu vegna erindis sem atvinnumálanefnd og fjölmargir íbúar Bíldudals höfðu sent til ríkisstj. Það er örskammur tími liðinn síðan, og sá tími hefur verið notaður til að setja saman skýrslu um alla þessa löngu og viðamiklu sögu. Ég vænti þess að sú skýrsla verði tilbúin í þessari viku og verði þá send réttum aðilum.

Ég verð að játa það, að ég fæ ekki fangs á þeirri hugmynd að leigja skuttogara til að gera út fyrir einn einstakan stað úti á landi né heldur að bílddælingar séu í færum um að kaupa og gera út skuttogara. Þeir hafa nú eftir miklar þrautir náð í þetta skip sem þeir gerðu bráðabirgðasamning um á liðnum vetri, þótt þeir ættu þess ekki kost að verka afla skipsins. Og ég held að einna helst komi til greina að athuga um álíka skip og það, fiskiskip af millistærðinni, 200 smálesta skip eða þar um bil.

Það er augljóst, að eftir að þetta frystihús hefur risið af grunni fyrir forgöngu Byggðasjóðs frá upphafi til enda, þá verður ekki neinn rekstrargrundvöllur fenginn fyrir húsið nema auka hráefnisöflunina. Og ég held að skynsamlegast sé og það, sem þeir einna helst fengju við ráðið á staðnum, að athuga um kaup á álíka skipi eins og Hafrún er. Það mundi að mörgu leyti vera hagkvæmt að gera það út jafnhliða, t.d. varðandi kostnað við veiðarfæri, mannahald og annað þess háttar, útgerðin yrði sem eðlislíkust á þessum stærri skipum.