16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er rétt að það komi hér fram út af því sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði áðan, að það var gert ráð fyrir því þegar þetta var sett í gang, bygging frystihússins á Bíldudal, að þar kæmu til tvö skip til hráefnisöflunar. Það hefur verið gert ráð fyrir því alveg frá upphafi.

Ég skal ekkert tjá mig um það hér, hvort æskilegt er að ríkisvaldið grípi til þess ráðs að gera út togara fyrir þennan stað eða einhvern annan. Það geta verið þær forsendur fyrir hendi að það þyki nauðsynlegt að það verði gert. En mér kom einkennilega fyrir eyru ræða hæstv. sjútvrh. áðan, þegar hann var að bera saman annars vegar togaraflotann og hins vegar bátaflotann og tala um fiskleysið í öðru tilfellinu, að það mætti ekki auka svo og svo mikið togaraflotann vegna þess ástands sem væri fyrir varðandi fiskstofnana — það var eins og hæstv. ráðh. gerði ekki ráð fyrir að bátaflotinn aflaði neins fisks. Hann setti þetta bara upp á annan veginn. Ég held, ef á að vera gagn að útgerð flotans, að þá verði að gera ráð fyrir því að hann afli, ella væri það gagnslaust. Mér finnst þetta meinloka sem ég held að hæstv. ráðh. hljóti að hafa mismælt sig um, því að í báðum tilfellunum verðum við að gera ráð fyrir að skipin afli, hvort sem það eru taldir bátar eða togarar. Við getum ekki aðskilið það.

Það er sjálfsagt rétt, að það eru ýmsar blikur á lofti ef einum er hleypt af stað. En ég held að það sé ljóst að ekkert pláss í landinu hefur staðið frammi fyrir og búið við þá örðugleika sem Bíldudalur hefur búið við nú á annað ár, þannig að í mínum huga væri réttlætanlegt þess vegna að gerð væri sérstök undantekning að því er varðar Bíldudal, ef menn treysta sér ekki til þess að auka skipaflotann, sem ég tel að ekkert hættuástand sé komið á að því er varðar togarana og fjölda þeirra.