16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að svara fyrir hæstv. sjútvrh. Ég held að síðasti hv. ræðumaður hafi misskilíð hann. Hæstv. sjútvrh, lagði einmitt á það megináherslu að menn mættu ekki hverfa frá útgerð fiskibáta og hverfa að útgerð skuttogara. En ég vildi aðeins undir lok þessarar umr. leggja áherslu á það, að eins og fram hefur komið í þeim upplýsingum, sem veittar hafa verið sem svar við fsp., hefur margvísleg aðstoð verið veitt til úrbóta í atvinnumálum, eins og eðlilegt er og m.a. er verkefni Byggðasjóðs.

Það er eðlilegt að hv. alþm. kveðji sér hljóðs hér á Alþ. og flytji mál umbjóðenda sinna heima í héraði. En ég vil leyfa mér að vonast til þess að þessir hv. alþm. flytji einnig mál Alþ., fjárveitingavaldsins og mál ríkissjóðs við umbjóðendur sína þegar heim er komið. Við skulum átta okkur á því, að það má ekki vera einstefnuakstur í kröfugerð á hendur hinu opinbera í þessum efnum frekar en öðrum. Öllum er hollt að standa á eigin fótum eins og unnt er, og þá fyrst er heimamönnum gerður greiði ef þeim er hjálpað til sjálfshjálpar. Á þetta vil ég leggja áherslu, vegna þess að brýna verður fyrir heimamönnum, hvar sem er á landinu, að standa ábyrgir fyrir eigin atvinnurekstri, að þeir geri sér ljóst að þá fyrst tryggja þeir sjálfstæði byggðarlagsins og atvinnuöryggi ef þannig er staðið að málum, en kröfugerð megi ekki einhliða stefna að hinu opinbera. Jafnhliða undirstrika ég það, að hlutverk Byggðasjóðs og hlutverk hins opinbera hlýtur að vera að rétta hjálparhönd þar sem sérstakir og afbrigðilegir erfiðleikar eru á ferðinni