16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Sennilega hefði ég nú ekki þrengt mér inn í kór þeirra Vestfjarðaþm. til þess að ræða málefni Bíldudals ef ekki hefði komið til hv. þm. Sverrir Hermannsson sem sté í þennan ræðustól með landsföðurlegu yfirbragði, að því er virtist einna helst til þess að láta í ljós það álit sitt að bílddælingar gætu ekki gert út togara. Um leið og þessi orð skruppu af vörum hans kviknaði hjá mér svolítill vonarneisti þess, að hann mundi telja upp fleiri aðila sem ekki gætu gert út skuttogara. Það varð ekki. Bíldudalirnir eru nokkrir hér á landi í þeirri veru. Og ég undraðist það satt að segja að hlusta á hv. þm. Vestf., sem fyrir um það bíl ári samþykktu hér á hv. Alþ. að veita fiskafla af Íslandsmiðum sem nægði til útgerðar 20 skuttogara til tveggja ára handa vestur-þjóðverjum, að heyra þá nú barma sér yfir því að þannig skuli vera ástatt á fiskislóðinni okkar að ekki megi láta bílddælinga og íbúa annarra sjávarplássa, sem ég hygg nú þegar til kastanna kemur að kunni fullt eins vel að gera út skuttogara og sumir aðrir, — að ekki sé hægt að láta þá hafa skuttogara vegna þess hvernig ástatt sé á miðunum. Og maður bíður þess með nokkurri eftirvæntingu að vita hvernig þeir sömu þm. sem samþykktu fiskafla handa sem næst 15 skuttogurum okkar til handa bretum á s.l. sumri muni bregðast við kröfunni um framlengingu á þeim samningam. Vitaskuld getum við látið þá hafa skuttogara, og það er eðlilegt að hjálpa þeim á Bíldudal, á Ólafsvík og annars staðar þar sem atvinnutæki vantar, — hjálpa þeim með því að láta þá fá tækin til þess að afla þeirra verðmæta og þeirra peninga sem þarf. Þessir menn, sem styðja núv. hallærisríkisstj., hv. þm. Framsfl. m.a., sem hefur dregið stjórnmál landsins ofan á það plan, raunar gert sali hv. Alþ. að slíku „hallærisplani“ að þeir sjálfir eigra þar um og segja eins og börnin: Við erum hérna af því að við vitum ekki hvað annað við eigum að gera.