16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

250. mál, aðgerðir vegna langvarandi neyðarástands í atvinnumálum á Bíldudal

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki bæta mörgum orðum við fyrri orð mín í þessu sambandi. Ég held fast við þá skoðun mína, eins og nú háttar til á Bíldudal, að þá hafi þeir ekki tök á því að komast yfir skuttogara og gera hann út. Ég tala þar af miklu meiri kunnugleika en hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Stefán Jónsson, 5. þm. Norðurl. e., því að hann þekkir ekkert til þess arna, ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut, ekkert atriði í þessu sambandi er honum kunnugt um og hann hefur aldrei spurt um þau. Ef hann væri nú liðsmaður svona bágindastaðar eins og nú er ástatt með Bíldudal, þá hlyti hann að hafa spurst fyrir um ástæður þarna og reynt að kynna sér þetta, í staðinn fyrir að standa hér upp og gapa og gleypa vind.