16.11.1976
Sameinað þing: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

Mræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Við erum hér á Alþ. fremur fáliðaðir sem viljum reyna að takast á við þann mikla vanda sem fylgir neyslu áfengis. Þó reikna ég með að það væri hægt að sameina þá krafta betur og tryggja meiri fjárveitingu í þessu efni. Sú ráðstefna, sem haldin var hér fyrir skömmu, er áreiðanlega góður vettvangur til að halda áfram á og taka þetta mikla vandamál nýjum tökum og líta á það sem sjúkdóm, ekki sem slæman vana, að neyta áfengis. Þetta er sjúkdómur hjá því fólki sem fyrir þessu fellur. Þannig líta margar þjóðir á vandamálið í dag. Og ef það verður viðurkennt hér á Alþ. einnig að þetta sé sjúkdómur sem þarf að fást við, þá er ekki hægt annað en veita nægilegt fjármagn til að berjast gegn þessum sjúkdómi, alveg eins og við gerum á öðrum sviðum heilbrigðísþjónustunnar. Það er gott og blessað út af fyrir sig að reisa sérstök hæli, en miklu betra er að hafa fyrirbyggjandi ráðstafanir, eins og við margir teljum að sé of lítið gert að í dag.

Ég vil eindregið hvetja til þess, að við lítum á þetta vandamál sem stórt vandamál, en ekki einangruð atriði þess, að menn hafi fallið fyrir einhverju sem er slæmt, einhverjum sérstökum vímugjafa. Menn, sem verða drykkjusjúklingar, eru hreinir sjúklingar og það á að líta á þá sem slíka. Endurhæfing er auðvitað mjög mikilvæg og mjög ánægjulegt að það skuli takast að koma mönnum á rétta leið aftur. En Alþ. verður að líta á þetta í miklu víðara ljósi. Það er ekki hægt annað. Og við verðum að rétta því fólki hjálparhönd sem enn berst við þetta mikla vandamál. Böl í heiminum er svo yfirþyrmandi, þar sem þetta kemur upp, að það tekur engu tali og ekki hægt að skýra frá því hér. Það vita allmargir alþm. sem hafa fengið að kljást við þennan vanda eða verið beðnir að liðsinna í því efni, að það verður aldrei of mikið gert. Ríkissjóður hefur nú um 10% af sínum tekjum í gegnum áfengið, að því er séð verður, a.m.k. á pappírunum. Áfengisbölið kostar þjóðfélagið óhemjumikið fjármagn beint í löggæslu og margs konar afbrotum. Við verðum að rísa gegn þessu vandamáli, og það er ekki hægt annað en takast á við þetta með rausnarlegri fjárveitingum en verið hefur. Fastur tekjustofn getur veríð góður út af fyrir sig, en við verðum að sýna meiri rausn í sambandi við afgreiðslu fjárlaga til þess að mæta þessu vaxandi vandamáli í þjóðfélaginu.