17.11.1976
Efri deild: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki hefja deilur um þetta mál almennt hér, því að út af fyrir sig er ekki ástæða til þess að lýsa neinni andstöðu við frv. sem slíkt. Fyrirvari minn varðandi frv. er vitanlega af einni ástæðu aðeins. Þetta frv. er til komið beint í framhaldi af bandorminum fræga sem var hér á ferðinni fyrir jólafríið í fyrra og ég lýsti þá algjörri andstöðu við. Þar var verið að færa ýmis verkefni á milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Þá var því haldið mjög fram að jafnvel væri fylgi Sambands ísl. sveitarfélaga við þessar breyt. og sambandið væri tiltölulega ánægt með þær. Það hefur nú sannast, eins og margir spáðu þá, að menn væru þar að kaupa köttinn í sekknum að miklu leyti, og við sjáum það núna best, að hvar sem sveitarstjórnarmenn koma saman, þá hafa þeir lýst yfir óánægju með ýmislegt af því, sem þarna var gert, og sumir jafnvel alfarið með óánægju yfir þessari breytingu, nema þá kannske með einstök, tiltekin smærri atriði.

Ég viðurkenni að það ríkir alltaf svolítil spurning um þennan líð, dagvistarheimilin. Menn hafa bent á að þetta væri verkefni sem væri kannske eðlilegast að sveitarfélögin væru með, af þeirri ástæðu að það væru svo mörg sveitarfélög sem ekki kæmu inn í þessa mynd. En þá verður auðvitað að gæta þess, að svo er með miklu fleira en dagvistarheimilin.

En frv. er sem sagt sjálfsögð afleiðing af þessari breytingu í fyrra og við það hef ég ekkert að athuga. Það er sjálfsagt að sveitarfélögin komi inn í reksturinn að þeim hluta sem ríkið var undan honum losað með síðustu lagabreytingu hér um. Ég get hins vegar ekki stutt þetta frv., heldur mun ég sitja hjá um það. Ég sé ekki ástæðu til þess að gefa á því frekari skýringar.

Það var uppi hreyfing um að fella þarna niður í fyrra einnig ríkishlutdeildina í stofnkostnaðinum, og það voru mörg rök færð fyrir því í þeim umr., vissi ég. Það er rétt að lögin frá 1973 breyttu mjög miklu. Þau gerbreyttu í raun og veru aðstöðu manna mjög víða úti á landsbyggðinni sem höfðu árum saman verið að berjast fyrir því að fá þessar stofnanir. Um leið og þessi lög komu fengu þessir aðilar byr undir báða vængi og börðust fyrir því innan sinna sveitarstjórna og í sínum sveitarfélögum að þessi dagvistarheimill kæmust sem fyrst í gagnið og vitnuðu þar til þessarar ríkisaðstoðar. Þeim gekk auðveldar að fá sínu máli framgengt. Hugðu því margir til hreyfings, og vegna vanrækslu margra ára eða jafnvel áratuga fóru margir af stað. Síðan hafa þessi lög að miklu leyti verið gerð að litlu gagni fyrir sveitarfélögin og í mörgum tilfellum verkað sem hemill — ekki vegna laganna sjálfra, heldur vegna fjárveitinganna sem hafa verið ákvarðaðar á fjárlögum hverju sinni. Ekki vil ég segja að þarna sé um viljandi aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins að ræða, erfiðir tímar hafa eflaust valdið því, og allra síst trúi ég því á þann hæstv. ráðh. sem með þessi mál fer, hæstv. menntmrh., að hann vilji með þeim fjárveitingum, sem til þessa liðar hafa verið undanfarin ár, stöðva í raun og veru að miklu leyti byggingu á dagvistarstofnunum úti á landi, svo sem ég veit að hefur verið t.d. á þessu ári, — stöðvun nýrra dagvistarstofnana.

Þetta verður sem sagt að athuga mjög vel í sambandi við fjárveitingarnar. Auðvitað má ekki hleypa öllum af stað og ekki eiga allir að fá þarna sama rétt. Mismunandi þörf er fyrir þessi heimili. En ég bendi á þetta hér vegna þess, að ég veit núna t.d. um tvo staði á Austurlandi, tvo helstu vaxtarstaði Austurlands, sem þurfa alveg sérstaklega á þessu að halda, en með óbreyttri fjárveitingu eru engar horfur á að þær nái því að mega fara af stað á næsta ári. Ég vara sem sagt við því þegar lög eru þannig að engu eða litlu gerð og þau notuð sem beinn hemill, þ.e. fjárveitingarnar notaðar sem beinn hemill, til þess svo líklega aftur að sanna það á móti, að einmitt þessi lög séu óþörf og kannske til ills eins.