18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

23. mál, umferðarlög

Jón Árnason:

Herra forseti. Sú stofnun, sem hefur með höndum framkvæmd þeirra laga sem hér um ræðir, umferðarlaganna, Bifreiðaeftirlitið, er ein af þeim stofnunum sem hafa aukið starfsemi sína allverulega á undanförnum árum og sérstaklega nú upp á siðkastið. Fyrir þessu er sjálfsagt ástæða með tilliti til þess aukna bifreiðafjölda sem nú er í landinu og hefur aukist verulega á s.I. árum. Eigi að síður er ekki óeðlilegt þegar verið er að gera slíkar breytingar sem hér er lagt til varðandi rekstur á þessari stofnun og Bifreiðaeftirlitinu í heild, að það séu athugaðir sérstaklega ýmsir liðir í starfseminni og þá um leið hvort ekki muni vera hægt að koma þeim fyrir á hagkvæmari hátt en nú á sér stað og eins og gert er ráð fyrir að verði gert með þeim breytingum sem felast í því frv. til l. sem þér liggur fyrir.

Undirnefnd fjvn. raddi þetta mál sérstaklega á fundum sínum í sumar og kallaði þá á fund sinn forstöðumann Bifreiðaeftirlitsins, fulltrúa úr dómsmrn., Ólaf Walter, auk þess ræddi n. við fulltrúa frá Bílgreinasambandinu um þessi mál, til þess að fá álit þeirra og tillögur um hvort ekki væru fyrir hendi einhver þau fyrirkomulagsatriði sem gætu haft sparnað í för með sér, en eftir sem áður tryggt að hér væri staðið þannig að þessum öryggismálum sem best verður á kosið. Það, sem við ræddum um sérstaklega í því sambandi, var það sem kom fram í ræðu áðan, hvort ekki væri rétt að láta bifreiðaverkstæðin taka virkari þátt í bifreiðaskoðuninni og þá að löggilda viss bifreiðaverkstæði til þess að gefa vottorð sem síðan yrði framvísað hjá Bifreiðaeftirlitinu, þannig að það mundi sparast verulega sá tími sem bifreiðaeftirlitsmenn þyrftu að eyða til þess að skoða bifreiðarnar og með því komast þá af með minna starfslið en ella. Öll bifreiðaverkstæði koma náttúrlega ekki til greina með að geta tekið þetta að sér vegna þess að það þarf á sérstökum tækjaútbúnaði að halda hjá þeim verkstæðum sem taka þetta að sér og kosta nokkuð mikið. Það er í sambandi við hemla og ýmislegt fleira sem Bílgreinasambandið eða forstöðumenn þess héldu fram að ekki væri hægt að breyta yfir í þetta fyrirvaralítið. Þeir töldu að þyrfti e.t.v. að taka 2–3–4 ár að það væri hægt að fara inn á þessa leið, sem við héldum að væri alveg upplagt, að yfirfæra þetta til bifreiðaverkstæðanna.

En hvernig þetta verður tel ég að þurfi að athuga gaumgæfilega áður en farið verður úti um allt land að leggja í dýran tækjabúnað og annað þess háttar og byggja upp aðstöðu með hús og annað þess háttar. Við vitum að þessi könnun á öryggisbúnaði tækjanna fer yfirleitt fram einu sinni á ári og það yrði mjög léleg nýting. Þó að það þurfi auðvitað öðru hverju í einstaka tilfellum að skoða og kanna bifreiðar úfi í dreifbýlinu líka, þá er það tiltölulega miklu minna en hér í höfuðborginni. Hér verður ekki komist hjá því að leggja í nokkuð fjárfrekan kostnað til þess að byggja upp eina allsherjareftirlitsstöð, — það tel ég að verði óhjákvæmilegt að gera, — sem hefur aðstöðu til þess að fylgjast með þessum málum, enda þótt bifreiðaverkstæði yrðu löggilt til þess að taka vissa þætti að sér í sambandi við einstaka þætti öryggisútbúnaðar.

Ég sé á þessu stigi málsins ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta mál. En ég fel sjálfsagt að sú n., sem fær þetta frv., kanni rækilega hinar ýmsu hliðar á þessu sem ég tel að séu fyrir hendi. Sérstaklega verður að athuga, áður en ákvarðanir verða teknar um fjárfrekan kostnað úfi í dreifbýlinu, hvort ekki væri að verulegu leyti hægt að styðjast við löggilt bifreiðaverkstæði til þess að taka að sér eftirlit með öryggisútbúnaði bifreiðanna og síðan verði það aðeins á hendi Bifreiðaeftirlitsins að kanna þetta í vissum tilfellum, en það ætti að vera óhætt að treysta fullkomnum og góðum bifreiðaverkstæðum til að taka þarna að sér vissa þætti og spara með því fé.