17.11.1976
Neðri deild: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

70. mál, endurhæfing

Flm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Á þinginu 1969–1970 var samþ. hér breyting á lögum um stjórnarráð. Meginatriði þeirrar breytingar var það, að komið var upp tveim nýjum ráðuneytum, heilbr.- og trmrn. og iðnrn. Í framhaldi af þessari lagabreytingu var svo sett ný reglugerð um skipan starfa á milli rn. Hún var þannig unnin að forseti Íslands var látinn skrifa undir hana, og hún er prentuð í lagasafni, þannig að hún hefur hliðstætt gildi og lög. Það var vafalaust nokkur vandi að kveða á um breytingar á reglugerðinni í sambandi við þá breytingu sem gerð var á ráðuneytum, enda hygg ég að fram hafi komið ýmsar veilur á þessari reglugerð.

Það hittist þannig á, þegar ég varð ráðh. 1971, að ég starfaði í þeim tveim nýju rn. sem komið var á laggirnar 1970, og mér fannst ég reka mig á að reglugerðin væri ekki fullkomlega rökvís. Ég veitti því t.a.m. athygli í iðnrn. að ýmsar greinar iðnaðar, sem voru ótvíræður iðnaður, voru flokkaðar undir sjútvrn. annars vegar og landbrn. hins vegar. Þar var um að ræða iðnað sem var tengdur sjávarafla annars vegar og hins vegar landbúnaðarstörfum. T.a.m. var dæmigerður efnaiðnaður eins og áburðarverksmiðja flokkuð undir landbrn., en ekki iðnrn.

Ég tel að þarna hafi ekki verið rétt á málum haldið. Við vitum það afar vel, að hér á Íslandi er metingur á milli atvinnugreina, oft ákaflega vanhugsaður, og svona skipting eins og ég var að ræða um áðan stuðlar að því að viðhalda þeim metingi í staðinn fyrir að þurrka hann út, eins og við verðum að gera ef við eigum að hafa skynsamlega atvinnuþróun á Íslandi.

Í heilbr.- og trmrn. rak ég mig á það, að einn veigamikill þáttur í heilbrigðiskerfinu, þ.e.a.s. endurhæfing og störf vegna fatlaðra, hafði verið skilinn eftir í félmrn. og heyrði ekki undir heilbr.- og trmrn. Þarna virtist það viðhorf hafa ríkt að lita á fötlun og endurhæfingu sem vandamál sem tengd væru vinnumarkaðinum, en ekki því fólki sem þyrfti á slíkri aðstoð að halda. Mér var þetta ljóst fljótlega eftir að ég tók til starfa, og það má segja að ég hefði átt að beita mér fyrir því að breytingar yrðu gerðar á þessu þá. En ég verð að segja það eins og er, að það er æðimikil vinna að gegna ráðherrastörfum ef maður reynir að rækja þau af samviskusemi, og maður hefur ekki nema takmarkaðan áhuga á því að toga til sín fleiri verkefni en kveðið er á um í lögum.

Það kom hins vegar fyrir mig, að ég kynntist hlutskipti fatlaðra eftir að ég hætti ráðherrastörfum, og ég hef venjulega haft þann hátt á, ef ég lendi í einhverjum slíkum vanda, að skoða hann í félagslegu samhengi og kanna slík mál í heild. Ég gerði það þegar ég lenti í þessum vanda sjálfur, las mér æðimikið til um endurhæfingu og vandamál fatlaðra, og ég komst þá að raun um að þessi vandi er miklu stærri en ég hafði gert mér nokkra grein fyrir áður.

Ég birti í grg. með frv. mínar tölur frá Svíþjóð sem sýna hversu stórfelldur þessi vandi er. Þar lenda í fötlun 500 þús. manna á vinnufærum aldri, en það mun vera nærri 10%, tíundi hver maður sem lendir í fötlun og þarf á endurhæfingu að halda á starfsaldri sínum. Á því er enginn vafi að tölur hér á landi eru hlíðstæðar. Þær kunna að skiptast eitthvað á aðra lund en í Svíþjóð vegna annarra atvinnuhátta hér. M.a. er sjómennska mjög hættulegt starf og henni fylgja oft slys sem leiða til alvarlegrar fötlunar. En ég hygg að heildartalan sé rétt, hér sé um vanda að ræða sem nái til tíunda hvers manns eða meira.

Þetta er vandi sem fylgt hefur mannkyninu frá upphafi vega vafalaust. Hann hefur breyst með breytilegum atvinnuháttum, en í meginatriðum hefur hann fylgt mannkyninu frá upphafi vega. En það er ekki fyrr en tiltölulega nýlega að farið er að takast á við þennan vanda á skipulegan hátt í sambandi við heilbrigðisþjónustu. Það voru að vísu til félög til þess að aðstoða fatlað fólk á ýmsum sviðum, ekki síst blínda og heyrnarlausa og aðra fatlaða. En það voru fyrst og fremst félög sem aðstoðuðu við framfærslu slíks fólks, en ekki við læknisfræðilega endurhæfingu.

Það má segja að skipuleg læknisfræðileg endurhæfing hefjist ekki fyrr en í síðustu heimsstyrjöld. Styrjaldir valda því ævinlega að menn verða fyrir miklum líkamlegum áföllum, og í síðasta stríði gerðist það. að farið var að taka á því skipulega hvernig hægt væri að endurhæfa fólk sem yrði fyrir meiri háttar slysum í styrjöldum, og gera því fært að gegna störfum í þjóðfélaginu.

Þessi þróun hefur haldið áfram eftir að stríði lauk og þróast ákaflega mikið í þeim löndum sem fremst standa á sviði læknisvísinda, t.a.m. á Norðurlöndum, ekki síst í Svíþjóð, og í Bandaríkjunum, þar sem læknisvísindi eru á háu stigi þótt ekki sé þar um félagslega heilsugæslu að ræða.

Þarna hefur orðið ákaflega mikill árangur, og við höfum kynnst þessum árangri á ýmsum sviðum hér á Íslandi. Ég vil t.a.m. minna á þær nýjungar sem orðið hafa í sambandi við bæklunarlækningar sem geta aðstoðað fólk í miklu, miklu ríkari mæli en áður var. Þær hafa verið teknar upp hér á Landsspítala, en því miður hefur verið haldið þannig á málum að þar hafa í sífellu lengst biðlistar. Það hefur ekki verið tryggð aðstaða til þess að hægt væri að sinna þessum aðgerðum gegn brýnum mannameinum á þann hátt sem vert hefði verið.

Ég legg til í þessu frv. að endurhæfing, læknisfræðileg og starfsleg, vegna skertrar starfshæfni, endurhæfingarstöðvar og styrktarsjóðir vangefinna, fatlaðra og blindra svo og erfðafjársjóður verði flutt frá félmrn. til heilbrrn., vegna þess að það eru aðgerðir sjúkrahúsa og lækna og annarra heilbrigðisstétta sem þarna eru grundvöllurinn. Að vísu er þar farið dálítið út fyrir svið hinnar hefðbundnu læknisfræði, því að hún var við það miðuð að vinna bug á sjúkdómum eða gera að sárum og annað slíkt, en ekki við það að aðstoða menn við að endurhæfa sig eða komast út í atvinnulífið á nýjan leik. Það var ekki talið verkefni hinna hreinu læknavísinda. En þetta hefur breyst. Það hafa komið nýjar starfsstéttir sem hafa þetta verkefni, og t.a.m. í Svíþjóð er svo komið að allt heilsugæslukerfið er byggt þannig upp, að það geti stundað aðgerðir í þágu fatlaðra, öll deildaskipt sjúkrahús eru með slíkar deildir og árangurinn á þessu sviði er, eins og ég sagði áðan, ákaflega mikill. Þarna er um að ræða, eins og ég sagði áðan, tíunda hvern einstakling, svo að aðeins sé rætt um líkamlegar fatlanir. Andlegar fatlanir eru ákaflega algengar líka. Þarna er því um að ræða ákaflega viðtækt svið, og ég er þeirrar skoðunar að þarna séu brýnustu verkefni okkar á sviði heilbrigðismála, að takast á við þessi mál á skipulegan hátt.

Hér á Íslandi hafa risið upp mörg áhugamannafélög sem vinna að þessum verkefnum. Þar ber hæst að mínu mati Samband ísl. berklasjúklinga, vegna þess að það braut ísinn og það vann starf sem var á þeim tíma forustustarf, jafnvel á heimsmælikvarða. En hér hafa risið upp ákaflega mörg félög önnur og unnið mjög mikið gagn. En því miður hefur þessi starfsemi orðið of tilviljanakennd. Hún hefur mótast af því að áhugamenn hafa risið upp vegna persónulegs vanda, sem þeir kunna að hafa lent í sjálfir eða aðstandendur þeirra, og beitt sér fyrir félagsstofnunum á þessu sviði. Sumar hafa verið starfræktar með miklum myndarskap, aðrar miður vel. En þetta hefur verið bundið við duglega einstaklinga fyrst og fremst, og reynslan hefur orðið sú, að mörg slík samtök hafa leitað til ríkisins um vaxandi aðstoð til þess að geta haldið starfseminni áfram. Ríkið hefur raunar lagt til tekjustofna fyrir mörg þessi samtök svo að þau gætu haldið starfsemi sinni áfram.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að koma heildarskipulagi á þessi mál með því að tengja þessa starfsemi áhugamannafélaga við heilbrigðiskerfið í landinu. Ég er ekki að tala um að heilbrigðiskerfið í landinu eigi að koma í staðinn fyrir starfsemi áhugamanna. Ég tel að hún sé ákaflega mikilvæg og það þurfi að ýta undir hana frekar en hitt, en að það þurfi að fella hana að skynsamlegu kerfi svo að ekki sé tvíverknaður, svo að þau framlög, sem þarna eru innt af hendi, nýtist sem allra best. Þarna tel ég að verði að vera um stórátak að ræða á næstunni. Það þarf kannske ekki að bæta við ýkjamörgum legustofnunum af þessu tilefni, en ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að koma upp opnum göngudeildum í miklu ríkari mæli en nú er, þannig að fatlaðir t.a.m. geti dvalist heima hjá sér, er farið til aðgerða á sjúkrahús. Þetta er mjög miklum vandkvæðum bundið nú vegna þess að göngudeildir sjúkrahúsanna eru allt of litlar og einnig vegna hins, að þannig er haldið á málum að það er auðveldara fyrri sjúklinga að leggjast á sjúkrahús en að dvelja heima hjá sér og fara á göngudeildir sér til aðstoðar. T.a.m. voru ákveðnar í tíð fyrrv. ríkisstj. aðgerðir í sambandi við lyfjakostnað og áttu að tryggja það að fólk, sem fengi læknisþjónustu á göngudeildum, byggi við sömu skilyrði að því er lyfjakostnað varðar og fólk sem er á sjúkrahúsum. Þessu hefur því miður verið breytt þannig að fólk, sem er utan sjúkrahúsanna, verður þar að leggja á sig æðimiklar byrðar. Og mér er mjög vel kunnugt um það, að læknar leggja fólk á sjúkrahús m.a. af peningaástæðum, til þess að fólk þurfi ekki að lenda í fjárhagslegum vanda. Það liggur á sjúkrahúsum fólk sem gæti dvalist heima ef þessi vandi kæmi ekki til. Ég tel að þarna verðum við að efla opnar göngudeildir ákaflega stórlega og gera stórátak á þessu sviði.

Ég vil taka það skýrt fram að þegar ég tala um stórátak á þessu sviði, þá á ég við stórauknar fjárveitingar einnig. Ég heyrði það í útvarpsfréttum í gær að hæstv. forsrh. hafði haldið ræðu í gær yfir einhverjum samtökum, sem ég man nú ekki hver voru, og hann taldi það vera stefnu núv. ríkisstj. að draga úr samneyslu til þess að auka einkaneyslu. Mér þótti þetta afar merkileg yfirlýsing og raunar í fyrsta skipti sem þessi ríkisstj. skýrir frá grundvallarhugmyndum sínum. Hvað er samneysla? Það er auðvelt að slá fram slíku orði. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir hvað í því felst. En samneysla er t.a.m. heilbrigðis- og tryggingamál, það er til að mynda skólamál, það er t.d. vegamál, — það er þetta sem á að skera niður að mati hæstv. forsrh. Og að búa til andstöðu á milli samneyslu og einkaneyslu á þann hátt sem hæstv. ráðh. gerði er alger fölsun, því að það er samneyslan sem fyrst og fremst stuðlar að jöfnuði á milli manna, — dregur úr þeirri mismunun, sem fram kemur í launakjörum, og stuðlar að jöfnuði á milli manna.

Ég man eftir afskaplega skemmtilegu dæmi um árangur samneyslu sem varð fyrir augum mínum. Ég fór 1946 í ferðalag um Austur-Skaftafellssýslu. Þá var samgöngum þannig háttað þar að ég þurfti að ferðast um gangandi og riðandi, og ég þarf ekki að lýsa því að ég hafði mikla ánægju af þessu ferðalagi. Svo gerðist það 1973, að ég hygg, að ég ferðaðist aftur um Austur-Skaftafellssýslu, hafði ekki komið þar í millitíðinni, og ferðaðist um sömu slóðir og ég fór gangandi og ríðandi áður, en að vísu á miklu skemmri tíma því að nú eru komnir góðir vegir. Ég veitti því athygli hversu miklar breytingar höfðu orðið á efnahag manna og aðbúnaði í þessari sýslu, og þessar breytingar voru fyrst og fremst afleiðing af samgöngubótum. Þessi samneysla, sem birtist í samgöngubótum þarna, hafði orðið til þess að bæta til muna efnahag og getu íbúa þessa svæðis.

Þannig er það á öllum sviðum samneyslu, ef hún er lýðræðisleg að segja, ef hún er miðuð við þegnana í heild, þá stuðlar hún að jöfnun, að auknu réttlæti í þjóðfélaginu. En þá verður samneyslan einnig að vera skipulögð á lýðræðislegan hátt. Og það er styrkurinn við heilbrigðiskerfi það sem við höfum t.a.m. á Norðurlöndum, að það er þannig skipulagt, það er skipulagt á lýðræðislegan hátt. Ég held að ég gleymi því seint hvað mér fundust ógnarlegar fréttir, sem voru mikið í útvarpi fyrir nokkrum árum, um lækni einn í Suður-Afríku sem stundaði að græða hjörtu í menn og aðra líkamshluta, og þetta var mikið fréttaefni. Mér fundust þetta ákaflega ógeðfelldar fréttir. Það var af mörgum ástæðum sem mér fannst það, en fyrst og fremst af því að þetta átti sér stað í ríki þar sem engin heilsugæsla er til vegna almennings, þar sem allur almenningur verður að búa við það að fá enga aðstoð við sjúkdómum eða öðrum líkamlegum vandræðum sem menn lenda í. Þar var peningunum eytt í svona aðgerðir sem aðeins forréttindamenn gátu notið, en allur almenningur fékk enga aðstoð í sambandi við hversdagslegustu mannamein.

Það er styrkur heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi að hún er lýðræðisleg, og hún þarf að halda áfram að vera það. Þess vegna þurfum við að taka á meinsemdum þeim sem algengastar eru, og sú meinsemd, sem nú er algengust, er fötlun af ýmsum ástæðum, af ýmsu tagi, en fötlun. Og þarna getum við náð ákaflega miklum árangri eftir þeirri reynslu sem komin er upp, bæði hér á landi og í enn ríkara mæli þar sem meiri áhersla hefur verið lögð á þessi mál í nágrannalöndum okkar.

Ég sagði að til þess arna þyrfti að verja meiri fjármunum, og ég er þeirrar skoðunar. Það er svo hægt að reikna það út að fjárframlög í þessu skyni skila sér aftur eftir öðrum leiðum. Ég er að vísu mjög fráhverfur þeim mælikvarða að meta alla hluti út frá peningum. Mér finnst sá mælikvarði ganga viðurstyggilega langt í mörgum tilvikum. Í sambandi við mál eins og þessi er það jafnrétti og bræðralag og samhjálp sem eiga að vera mælikvarðar okkar. Ef menn vilja beita peningasjónarmiðinu, þá gefur það einnig jákvæða útkomu, vegna þess að tilgangur endurhæfingar er að gera fólki kleift að komast aftur út í þjóðlífið og taka þátt í störfum. Þetta tekst í ákaflega mörgum tilvikum þar sem áhersla er lögð á þessa starfsemi, að þetta fólk getur tekið þátt í framleiðslustörfum og tekið þátt í að skila þar auknum árangri fyrir þjóðarbúið. Hitt er þó miklu meira í mínum huga, að þetta fólk kemst þó í eðlileg samskipti við nágrenni sitt. Það er ekkert ömurlegra en hlutskipti fatlaðra sem verða einangraðir, komast ekki í samband við umhverfi sítt og verða að lífa á tekjum sem eru vægast sagt smánarlegar. Þetta er að minni hyggju langstærsta heilbrigðis- og félagsvandamál á Íslandi, og ég tel að sómi okkar liggi við að taka á þessu verkefni á myndarlegan hátt.

Till. mín er um að þessi atriði, sem ég taldi upp áðan, verði flutt frá félmrn. til heilbrmrn. og einnig að skipuð verði n., skipuð sérfræðingum og fötluðum, til þess að endurskoða öll lög sem í gildi eru um þessi mál. Við höfum allviðtæka löggjöf um endurhæfingu. En breytingar á þessu sviði hafa verið svo örar seinustu árin að það þarf að endurskoða þessa löggjöf frá grunni og bæta þar við mörgum nýjum þáttum.

Ég sagði áðan að ég teldi að við ættum að auka framlög til heilbrigðismála, m.a. í sambandi við þetta. Við veitum nú til trygginga- og heilbrigðismála um það bit 7–8% af þjóðartekjunum. Í Svíþjóð, þar sem einna mest áhersla er lögð á heilbrigðis- og tryggingamál, þar eru þjóðartekjur á mann hærri en hér á Íslandi. Engu að síður veita þeir um 11% af þjóðartekjunum til þessara verkefna. Ef við ætlum okkur að ná þessu sænska stigi, þá getum við aukið fjárframlög okkar til heilbrigðis- og tryggingamála um 50%, þannig að þarna er æðimikið svigrúm ef menn vilja taka á þessum málum frá sjónarmiði félagslegra sjónarmiða og jafnréttissjónarmiða. Ég er þeirrar skoðunar að þetta eigum við að gera. Og þetta er einnig kjaraatriði. Það er engin eðlileg andstæða á milli samneyslu og einkaneyslu, engin andstæða þar á milli. Við þurfum vissulega að gera stórátak í sambandi við einkaneyslu, en það er ekki á kostnað samneyslu, það er á kostnað þeirrar rangsleitni sem tíðkast í þjóðfélagi okkar að því er einkatekjur varðar. Við vitum það ákaflega vel. að hér á landi eru hundruð gróðafyrirtækja sem losna við að greiða nokkra skatta til sameiginlegra þarfa. Við vitum það ákaflega vel að hér er ákaflega mikill fjöldi einstaklinga sem líðst að halda þannig á sínum málum að þeir sleppa við að borga nokkra umtalsverða skatta til hins opinbera. Við vitum að hér á Íslandi er stolið undan ákaflega háum fjárhæðum í sambandi við söluskatt og þessi þjófnaður hefur aukist til mikilla muna eftir að söluskatturinn var hækkaður, svo sem dæmin sanna. Við höfum fengið fréttir um það nú að undanförnu hversu umfangsmikill þjófnaður er stundaður í sambandi við heildsölu á Íslandi. Þar er stolið undan bæði gjaldeyri og hlaðið upp þannig að álagning verði miklu hærri en nokkur þörf er á. Það eru margar matarholur í þessu sambandi, og það þarf ekki að setja á svið þá kenningu. eins og hæstv. forsrh. virðist hafa gert í gær, að það þurfi að skerða samneyslu á Íslandi til þess að fá viðunandi lífskjör. Það er röng kenning, algerlega röng kenning og kenning sem ber að berjast gegn af alefli. Samneyslan er, eins og ég sagði áðan, grundvöllur einkaneyslunnar, og það er samneysla sem stuðlar að jöfnuði á þessu sviði.

Ég hef reynt að skýra í grg. og birti þar einnig ályktanir frá landssambandi fatlaðra um þrjú afmörkuð svið, t.d. um það á hverju þurfi að taka í sambandi við endurskoðun á löggjöf. Ég fer ekki að endurtaka það hér í þessari ræðu, en vænti þess að menn hugleiði þetta mjög alvarlega.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni umr. hér í hv. Nd. vísað til heilbr: og trn.