18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Jón Helgason:

Herra forseti. Að undanförnu hafa skattamál mjög verið til umr. og munu sennilega verða það áfram næstu mánuði. Ein krafan, sem kemur fram í slíkum umr., er krafan um lækkun skatta, og mun hún byggjast á þeirri hugsun að lágir skattar séu hagur skattgreiðenda. Grundvöllur allrar skattheimtu er sá, að við erum að leggja í sameiginlegan sjóð til að standa undir kostnaði við margvísleg verkefni sem við hvert og eitt ráðum alls ekki við og verðum því að vinna saman að. Það er óhætt að fullyrða að dæmið um hagkvæmni lágra skatta er a.m.k. ekki eins einfalt og sumir virðast álíta.

Eitt þessara sameiginlegu verkefna, sem unnið er að, er vegagerð. Við heyrum oft býsnast yfir þeim mörgu og háu sköttum sem við bifreiðaeigendur verðum að greiða, og þarf ekki að telja þá upp. En þrátt fyrir það get ég fullyrt af minni reynslu að það eru holurnar í vondu vegunum sem innheimta langhæsta skatt inn af mér og þar er ég að greiða í óseðjandi hít.

Það er m.a. út frá þessu sjónarmiði sem ég hef ásamt hv. 5. þm. Reykn., Ólafi G. Einarssyni, leyft mér að flytja hér till. þá til þál. um lagningu bundins slitlags á þjóðvegi sem hér er til umr. Það má segja að möguleikar til að fá fjármagn til þess séu þrír: Í fyrsta lagi að draga úr öðrum vegaframkvæmdum, í öðru lagi að fá meira lánsfé og í þriðja lagi hærri fjárveitingar.

Það virðist bera nokkuð á þeirri skoðun að þessari till. sé stefnt gegn öðrum vegaframkvæmdum, þ.e. uppbyggingu veganna, sem sannarlega er víða þörf á. En ég vil fullyrða það og taka undir með síðasta ræðumanni, að það vakir ekki fyrir okkur flm. þessarar þáltill. að fara þá leið, heldur verður að leita hinna síðari.

Nú hefur að vísu um sinn verið talið óhjákvæmilegt vegna erfiðleika í efnahagsmálum að stilla fjárveitingum til fjárfestingar nokkuð í hóf, og ef ekki eru önnur ráð til að draga úr skuldasöfnun og viðskiptahalla síðustu ára verður ekki hjá því komist. En slíkt má ekki verða framtíðarstefna okkar, heldur aðeins smáhvíld til að safna frekari kröftum til stærri átaka, því framundan bíða okkar svo mörg verkefni, sem þjóðin þarf í sameiningu að leysa, að með of miklum samdrætti á framkvæmd þeirra værum við sennilega í enn þá ríkari mæli að varpa byrðum yfir á framtíðina heldur en nokkurn tíma með lántökum til þess að framkvæma þær. Og áætlun sú, sem þessi þáltill. fjallar um, undirstrikar það, að við megum ekki til lengdar sætta okkur við slíkan samdrátt, heldur verður markvisst að stefna að örari framkvæmdum sem sívaxandi tækni gerir okkur auðveldara að inna af hendi.

En betri vegir eru ekki aðeins fjárhagslegt atriði heldur einnig félags- og byggðamál. Langferðir okkar miðast mest við ferðalög til og frá Reykjavík, og ég býst við að öllum sé ljóst hversu mikil breyting varð á aðstöðu byggðarlaganna á Suðurnesjum og fyrir austan Hellisheiði þegar bundið slitlag kom á vegina þangað. Og þannig mun það einnig verða fyrir hvert það byggðarlag sem slíkra vega getur notið. Mér er að vísu ljóst að aðstaða þeirra, sem geta notað þægilegar og tiltölulegar öruggar flugsamgöngur, er nokkuð önnur en þeirra sem eingöngu verða að nota bifreiðar til ferðalaga. En allir ferðast þó mikið á þann hátt, og till. gerir ráð fyrir framkvæmdum um allt land. Og þar sem víða eru þegar fyrir hendi vegir sem lítilla lagfæringa þurfa áður en bundið slitlag er á þá sett, þá virðist sjálfsagt að þeir séu að mestu leyti látnir sitja fyrir, jafnframt því sem tekið verður tillit til umferðarþunga og viðhaldsþarfar svo að framkvæmdirnar verði einnig sem hagkvæmastar fyrir Vegagerðina.

Ég tel að þau rök, sem mæla með þeirri stefnu sem sett er fram í þessari þáltill., séu svo sterk að allir ættu að geta fallist á hana. Ég vænti því þess að till. verði tekin til ítarlegrar athugunar og hún nái sem fyrst fram að ganga.