18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér er vissulega flutt athyglisvert mál og ekki nema eðlilegt að margir taki til máls um það. En ekki hefði mér fundist óeðlilegt í sambandi við þessar umr. að hér hefði nú verið staddur í salnum samgrh., svo mjög sem þetta varðar þann málaflokk sem hann hefur með að gera, og ekki hefði heldur farið illa á því að mínum dómi að fjmrh. hefði verið einhvers staðar staddur hérna í námunda líka, því ekki sýnist mér þetta mál varða síður hann.

Ég get sagt eins og fleiri sem hér hafa talað, að ekki er ég á móti því að leggja bundið slitlag á sem flesta vegi í landinu, það geta víst allir sagt, og ég tel mig enda hafa talsverðan áhuga á því að reyna að þoka því máli eitthvað áfram. Að sjálfsögðu segi ég það líka, að ég hef mikinn áhuga á því að endurbyggðir séu þeir vegir sem nú eru mestu þröskuldarnir víða í umferð á landinu og eru okkur í rauninni til vansæmdar. Í þetta vantar allt saman peninga.

En það, sem gerði það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs, er sérstaklega það, að flm. þessarar till. minntist í málflutningi sínum nokkuð á fjárhagshlið þessa máls. Þeir höfðu greinilega gert sér það ljóst að hér er um mjög fjárfrekar framkvæmdir að ræða, — framkvæmdir sem kosta milljarða — marga milljarða króna. Ég tók eftir því að hv. 1. flm. till. nefndi í þessu sambandi að ef lítið væri á þá skattlagningu sem ætti sér stað á umferðina í landinu nú um þriggja ára skeið, þ.e.a.s. á árinu 1975, á árinu 1976 og skv. áætlun á árinu 1977, þá mætti segja að skattar væru lagðir á umferðina í landinu umfram það sem gengi til vegagerðarmála, umfram það sem rynni til Vegasjóðs, sem næmi 15.5 milljörðum kr. Þarna er auðvitað um álitlega fjárhæð að ræða og gæti dugað til talsverðra verka. En þá er komið, að mér sýnist, að þætti fjmrh. í þessu dæmi því að það er hann sem hefur ætlað þessa upphæð til allt annarra mála. Spurningin stóra er auðvitað sú í þessum efnum, ef á að reyna að taka á því verkefni sem hér er verið að ræða um, hvernig er hægt að afla fjár til þessara framkvæmda? Eigum við að taka jafngildi þessarar upphæðar, þessara 15.5 millj., þessa umframskattlagningu sem rennur í ríkissjóð, — eigum við að taka hana alveg eða hluta eða finnum við einhverja aðra leið?

Ég tók eftir því að báðir hv. flm. sögðu að þeir ætluðust ekki til þess að það yrði ráðist í þessa framkvæmd á kostnað annarra vegagerðarmála í landinu, og það hugsa ég að sé mjög almenn skoðun hér á Alþ. að þannig verði að standa að þessum málum. En hvernig er þá umhorfs þar? Þannig er ástatt, að það liggur fyrir okkur að fjárveitingar til almennrar vegagerðar hafa verið að dragast saman, hafa minnkað að verðgildi um 46%, eftir því sem við höfum verið upplýstir um hér á Alþ. Og svo er ástatt í þeim málum, að þegar átti að afgr. vegáætlun skv. lögum á síðast þingi, þá var bent á að hér væri slíkur fjárskortur til allra nauðsynlegustu framkvæmda í vegagerðarmálum að það væri útilokað að afgr. vegáætlun á þeim grundveili sem hæstv. ríkisstj. lagði þá fyrir Alþ. Og þó að lögin gerðu ráð fyrir að það ætti að afgr. vegáætlun til næstu fjögurra ára, þá var hæstv. samgrh. rekinn öfugur heim með till. sínar og fékk enga vegáætlun samþ. á þeim grundvelli sem hann hafði hér lagt fram. Það var blátt áfram alveg neitað að fallast á þennan grundvöll. Ég man eftir því að ég sagði þá í umr. um málið að ég sem einn af þeim sem væru í stjórnarandstöðu væri reiðubúinn til þess að setjast niður með hæstv. ríkisstj. og leita að nýjum tekjustofnum til að greiða úr þessum vanda, vegna þess að svo væri komið að það væri engin leið að halda áfram að afgr. vegáætlun á þann hátt sem gert hefur verið.

Menn sem sagt hnigu að því ráði að draga þessa till. ríkisstj. um vegáætlun til baka, og síðan átti að taka til óspilltra málanna og samþ. vegáætlun þegar þing kæmi aftur saman nú á þessu hausti. En hvernig standa málin nú? Nú er komin 18. nóvember, rétt rúmlega einn mánuður til jólaleyfis, og á þeim eina mánuði, sem eftir er, á eftir að afgr. fjárl. með allri þeirri vinnu sem er í kringum það. Till. um nýja vegáætlun er ekki einu sinni komin á þingborðin enn þá, — engin. Það er allt útlit til þess að um næstu áramót verði engin vegáætlun til í landinu, þá verði sem sagt engin heimild til neinna fjárveitinga í sambandi við nein vegamál, — engin vegáætlun til þó að lög mæli fyrir um að það skuli gerð áætlun til fjögurra ára í einu. Frammi fyrir þessu stöndum víð. Við höfum verið að bíða eftir því og spyrja hver annan: Skyldi till. um vegáætlun ekki fara að koma fram? En hún kemur ekki og það bólar ekkert á henni. Öll vitum við sem sagt um þetta öngþveiti.

Þá gerist það að tveir hv. þm. úr stjórnarliðinu koma hér fram með till. um milljarðaútgjöld í nýjan þátt vegamála sem virkilega þarf að sinna, um nýjan þátt vegamála, benda svona í framhjáhlaupi á að það væri nú kannske hægt að taka af ríkissjóði nokkra milljarða af tekjum hans og nota í þessu skyni. Mér er spurn: Hvert eru menn að fara? Ég vil segja við þá hv. þm. sem flytja þessa till., ef þeir virkilega meina það að þeir séu til viðtals um að taka þennan tekjulið af ríkissjóði sem hér hefur verið aðeins minnst á, þá er sjálfsagt að athuga um það. Ég er til viðtals um það fyrir mitt leyti. En það verður að vera einhver ábyrgð á bak við það sem menn gera. Er ætlunin e.t.v. eingöngu sú, sem maður þekkir svo mikið af, að á morgun birtist í Morgunblaðinu falleg mynd af Ólafi G. Einarssyni, sem leggur til að plötuleggja vegi víða um land, og önnur í Tímanum af hv. þm. Jóni Helgasyni, hann vill líka láta plötuleggja vegi, og síðan nái málið ekki lengra? Og almenningur í landinu slær því líklega föstu á eftir: Ja, þeir eru laglegir þessir alþm. Ekki vilja þeir taka undir svona gott mál.

Svona er vitanlega ekki hægt að halda á jafnalvarlegum málum og hér er um að ræða. Við vitum að það vantar stórkostlega mikið fjármagn til þess að sinna forgangsverkefnum í sambandi við vegagerðarmál. Við vitum að það er ekki búið, menn hafa ekki komist yfir það að afgr. vegáætlun fyrir næsta ár. Raunverulega verður líklega að moka snjó af einhverjum vegum í janúarmánuði utan allra lagaheimilda af því að það er engin vegáætlun til. (Gripið fram í: Það snjóar ekkert.) Engin fjárveiting, en það getur snjóað, eins og þar stendur. En hvað sem því liður, þá sýnist mér að hér sé um svo alvarlegt og stórt mál að ræða að það sé óhjákvæmilegt að draga þá báða fram hér, hæstv. samgrh., sem málið varðar, og hæstv. fjmrh., og að flm. þessarar till. og við aðrir þm. fáum að ræða við þá í fullri alvöru um þessi mál. hvernig á fram úr þessu að komast.

Ég held því, að áður en þetta mál verði afgr. til n. væri mjög eðlilegt að því yrði frestað og beðið eftir því a.ð þessir hæstv. ráðh. yrðu með í umr. um málið, ef við ættum að eiga einhverja von á því, að eitthvað gerðist meira en tala almennt um það í léttum tón.