18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

48. mál, litasjónvarp

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Nú um nokkurt skeið hafa sést í íslenska sjónvarpinu myndir og útsendingar í lit. Að vísu er allur meginþorri þeirra tækja, sem landsmenn eiga, þannig úr garði gerður að hann er ekki móttækilegur fyrir litaútsendingar. En þar sem þau tæki eru fyrir hendi hefur komið í ljós að litmyndir hafa sést.

Íslenska sjónvarpið hefur allan sinn starfstíma fengið mikið efni erlendis frá, og í vaxandi mæli á undanförnum árum hefur þetta efni verið útbúið í lit. Með tiltölulega einföldum tæknibreytingum reyndist kleift að senda þessar myndir og þetta efni þannig út að liturinn kæmi fram þar sem móttökuskilyrði væru fyrir hendi. Þegar þetta fréttist fyrr á þessu ári, að lítur sæist á ýmsum stöðum og í ýmsum tækjum, þá hljóp mikill kippur í sölu á litasjónvarpstækjum og innflutning á þeim, og það varð til þess að ríkisstj. tók þá ákvörðun að stöðva innflutning slíkra tækja, og síðan hefur þessi innflutningur verið mjög takmarkaður. Ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun hæstv. ríkisstj. munu aðallega hafa verið þær, að talið var að ekki væri rétt að landsmenn eyddu gjaldeyri til þess að kaupa slík tæki. Eins heyrðust þær röksemdir að litaútsendingar sæjust aðeins í Reykjavík og nágrenni og ekki væri sanngjarnt að þessi byggðarlög nytu litaútsendingar í sjónvarpi meðan enn væri svo að sjónvarp væri ekki komið á alla byggða staði á Íslandi.

Þetta leiddi til þess að menn reyndu aðrar aðferðir til þess að komast yfir litasjónvarpstæki, m.a. ýmsar ólöglegar aðferðir, svo sem smygl. Við höfum haft fregnir af því nú síðustu daga og vikur að uppvíst hefur orðið um mjög stórtækt smygl í þessum efnum.

Bæði þessar uppljóstranir og mikill áhugi hjá almenningi hafa leitt í ljós að það er mikill áhugi á því almennt að fá möguleika á því að njóta sjónvarps í lit. Ég held að það sé alveg ljóst að við íslendingar getum ekki og viljum auðvitað ekki stöðva þessa þróun, að sjónvarp þróist í þá átt að myndir og efni séu send út í lit, og það auðvitað heldur áfram að þróast hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Sjónvarpsefni er nú í vaxandi mæli og aðallega framleitt í lít erlendis, og öll tæki og tækjabúnaður eru sniðin fyrir litasjónvarp. Þess má líka geta, að stöðugt reynist erfiðara fyrir íslenska sjónvarpið að selja myndefni sitt til útlanda þar sem hinar íslensku myndir eru framleiddar í svarthvítu, en áhugi er tiltölulega takmarkaður fyrir því vegna þess hversu almennt litasjónvarpið er orðið erlendis. Þetta er auðvitað skaðlegt fyrir okkur íslendinga vegna þess að margvíslegar myndir, fræðslumyndir og aðrar til upplýsinga um menn og málefni, íslensk, hafa haft sitt að segja þegar þessar myndir eru sýndar í erlendum stöðvum.

Það kann að þykja hégómlegt og fánýtt að vera að leggja fram till. til þál. um litasjónvarp, og ég tek fram að það er mér persónulega ekki sérstakt kappsmál að litasjónvarp sem slíkt skuli koma þegar í stað. En þetta er lífsins gangur, tækniþróun og nýjungar, og við það verður ekki ráðið og við verðum auðvitað að fylgjast með í þessum efnum eins og í öðru. Hins vegar, hversu hégómlegt sem mönnum kann að finnast þetta, þá er margt sem mælir óneitanlega með því að litasjónvarp sé tekið upp á Íslandi.

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að íslenska sjónvarpið hefur notið góðs af innflutningi sjónvarpstækja. Ákveðinn hluti af innflutningsgjöldum hefur runnið beint til stofnunarinnar og þannig hefur verið hægt að standa undir vöxtum og afborgunum af fyrri skuldum og jafnframt fjármagna endurnýjun og viðbætur. Nú liggja fyrir margháttuð verkefni og mjög mikilvæg hjá íslenska sjónvarpinu um endurnýjun á tækjum, um fullkomnun á dreifikerfinu og að setja upp og endurbæta sendi- og móttökustöðvar víðs vegar um land. Mjög erfiðlega hefur gengið að framkvæma þessa endurnýjun og þessa viðbót vegna fjármagnsskorts vegna þess að innflutningur hefur dregist allverulega saman undanfarin 2–3 ár og gerir nú ekki meira en að standa undir vöxtum og afborgunum.

Í öðru lagi er þess að geta, að efni í lit er nú orðið svo almennt og algengt að ekki þarf að greiða fyrir slíkt efni neitt aukagjald þó að það sé keypt hingað til lands. Mundi það eitt út af fyrir sig ekki leiða til sérstaks kostnaðar fyrir íslenska sjónvarpið þó að nú yrði leitað alfarið eftir litaefni til kaups eða leigu erlendis frá. Þess má líka geta í þessu sambandi, að óneitanlega mundi það auka mjög fjölbreytni í dagskrá okkar sjónvarps ef litur sæist þar.

Í þriðja lagi er nú svo komið að langflest sjónvarpstæki í eigu landsmanna eru 7–8 ára og eldri og það er talinn mjög eðlilegur endingartími á einu og sama tækinu að það sé notað þennan tíma, í tæplega áratug. Ljóst er því að allur meginþorri íslendinga þarf nú á næstu mánuðum og allra næstu árum að endurnýja sín tæki. Og þá er auðvitað bagalegt framtíðarinnar vegna ef landsmenn þurfa að kaupa tæki

fyrir svarthvítt efni, tæki sem endast næsta áratuginn og ekki eru hæf til þess að taka á móti litaútsendingum. Því væri æskilegt einmitt á þessum tíma, þegar endurnýjun þarf að eiga sér stað á almennum tækjakosti landsmanna, að þeim sé gert kleift að kaupa litasjónvarpstæki og vera viðbúnir þeirri breytingu sem auðvitað kemur frekar fyrr en síðar.

Í fjórða lagi skapast væntanlega mikill markaður sem ætti að gefa drjúgan skilding bæði í ríkiskassann og beint til sjónvarpsins. Þarna ættu að skapast möguleikar á því að leggja fé sérstaklega í að endurbæta dreifikerfið um allt land. Það eru fjölmörg verkefni sem blasa við, ekki aðeins að bæta dreifikerfið, heldur þarf Ríkisútvarpið líka, ef ekki á því verr að fara, að leggja í margvíslegan annan stofnkostnað. Má þar nefna fyrst og fremst nýja húsbyggingu fyrir starfsemi hljóðvarps og sjónvarps svo og endurbætur á Vatnsendastöðinni sem nú er að syngja sítt síðasta og ætti raunverulega að vera fyrir löngu úr sér gengin og niður fallin, í bókstaflegum skilningi.

Það er alveg sama hvaða forgangsröð verður ákveðin á þessum verkefnum, einhvern veginn þarf að fjármagna þessar framkvæmdir. Og meðan við erum ekki tilbúnir til þess að hækka beinlínis fjárframlög til Ríkisútvarpsins á fjárlögum og meðan tregða er mikil á því að hækka afnotagjöld, þá sýnist vera nokkuð ljóst og nokkuð sjálfsagt að reyna þessa leið, þ.e.a.s. að heimila litasjónvarp og innflutning sjónvarpstækja og afla þannig tekna til þeirra óumflýjanlegu og óhjákvæmilegu framkvæmda sem nú blasa við.

Mér hefur verið tjáð og ég segi það að gefnu tilefni, vegna þess að nokkuð hafa verið bornar brigður á að litasjónvarp sæist nema hér í Reykjavík og þéttbýli, — þá hefur mér verið tjáð að litur sjáist vel um allt Vesturland og víðast hvar á Vestfjörðum, hann sjáist í Vestmannaeyjum og allvel á Suðurlandi og allt til Hornafjarðar og ágætlega á Norðurlandi, einkum í Eyjafirði og Skagafirði. Aftur á móti munu erfiðleikar vera á þessu á Norðausturlandi, og á Austfjörðum sést enginn litur enn sem komið er. En það stafar eingöngu af því að Gagnheiðarstöðin er illa á sig komin og þarf endurbóta við, hvort heldur við erum að tala um lit eða ekki.

Ég hef leyft mér, herra forseti, að flytja hér till. til þál. um litasjónvarp, 48. mál, og í þeirri þáltill. er skorað á ríkisstj. að stuðla að því að íslenska sjónvarpið geti hafið reglulegar litaútsendingar og það skuli gert með því að samþykkja áætlun sjónvarpsins sem liggur fyrir og kveður á um hvernig að því skuli staðið í áföngum, í öðru lagi með því að gefa frjálsan innflutning á litasjónvarpstækjum og í þriðja lagi með því að ákveða að tolltekjur af innflutningi slíkra tækja skuli varið til endurbóta á tækjum og dreifikerfi sjónvarpsins.

Áætlun sú. sem ég minnist hér á um að litaútsendingar geti hafist. hefur verið gerð af yfirmönnum sjónvarpsdeildar og send ráðuneyti. Hún hefur ekki verið birt enn þá, en ég hef haft aðstöðu til að kynna mér hana, og mér sýnist hún vera mjög skynsamleg og hagsýn. Þar er gert ráð fyrir því að þessu verði komið á í áföngum á nokkrum árum og kostnaði af því verði dreift á þau ár.

Í þessari till. er gert ráð fyrir því að innflutningur sé gefinn frjáls á litasjónvarpstækjum. Ég hef nú þegar rökstutt ástæðurnar fyrir því að gerð er till. um þann innflutning.

Í þriðja lagi er beinlínis tekið fram í till. minni að tekjum, sem af innflutningnum fást, skuli beinlínis varið til endurbóta á tækjum sjónvarpsins og dreifikerfi um allt land, þannig að tryggt sé að þeir sjónvarpsáhorfendur, sem enn búa við slök skilyrði, og það fólk, sem reyndar hefur enn ekki fengið sjónvarp til síns heima, fái notið þess í beinu framhaldi af þessum ákvörðunum.

Hér var í gær í hv. Nd. hreyft frv. til l. sem fól í sér að sjónvarpssendingar sæjust á nálægum miðum í kringum landið, sérstaklega á Vestfjörðum. Þess var getið í framsögu með þessu frv. að reiknað væri með að kostnaður af því að lagfæra stöðvar vestur á fjörðum til þess að þetta tækist væri um 20 millj. kr. Nú skulum við láta það liggja á milli hluta hvort rétt sé að samþ. þetta frv. eða ekki. En hitt er vist, að ef menn hafa áhuga á slíkum útsendingum og að sjónvarpið sjáist af sjómönnum á heimamiðum, þá verður það ekki mögulegt nema til komi einhverjar tekjur. Og skoðun mín er sú, að með samþykkt þessarar till., sem hér er á dagskrá, mundi m.a. vera mögulegt að fjármagna slíkar framkvæmdir sem eru forsendur fyrir því frv. sem ég gat um.

Herra forseti. Það er ekki ástæða fyrir mig til þess að fjölyrða frekar um þessa till. að sinni, ég hef gert grein fyrir forsendum hennar í öllum aðalatriðum. En ég vil aðeins að lokum minna á að á þessu ári átti íslenska sjónvarpið 70 ára afmæli og á þessum áratug hefur sjónvarpíð náð meiri áhrifum og meiri útbreiðslu á Íslandi heldur en nokkurn grunaði í upphafi. Það er orðið mjög mikilvægur þáttur í fjölskyldulífi allra landsmanna, ekki aðeins sem afþreyingartæki, heldur líka sem menningartæki. Því er mjög áríðandi fyrir alla þá, sem eru hugsandi um menningu og um tómstundaiðju íslendinga, að þeir hugleiði vandamál sjónvarpsins og framtíð þess, átti sig á því að ekki verður þróunin stöðvuð og að skynsamlegt sé bæði af tæknilegum ástæðum og dagskrárlegum og fjárhagslegum að styðja þessa till. og sjá svo um að efni hennar verði samþ. og hrundið í framkvæmd

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. þá verði þessari till. vísað til allshn.