18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

48. mál, litasjónvarp

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Fordildartillaga var einkunnin sem þetta hv. þingmál fékk hjá hv. 5. þm. Vesturl. Ég hlýt að játa að ég er þessum hv. þm. sammála um mjög margt sem hann sagði, og við erum þó a.m.k. þrír yfirlýstir þm. í hv. Nd. Alþ. sem eigum bágt með að skilja ásókn fólks í litasjónvarp. Það litla sem ég hef séð af litasjónvarpi erlendis hefur mér fundist nákvæmlega eins og hv. þm. Jónas Árnason lýsti því: afskræmdir, ósannir gervilitir sem í mörgum tilfellum geta skemmt myndefnið sem um er að ræða. En hvað um það, ég ætla að hafa um þetta örfá orð og ég ætla að styðja þessa till. Ég ætla að styðja hana, og meginrök mín fyrir því, að ég styð hana, eru þau, að ég tel loksins hilla undir einhverja möguleika á því að sjónvarpinu verði gert fjárhagslega kleift að endurbæta svo dreifikerfi sitt, að því langþráða og sjálfsagða takmarki verði náð að þetta menningartæki — skulum við segja — nái til allra landsmanna.

Hér á hv. Alþ. hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir með framlagningu þingmála í þá átt að gera sjónvarpinu fært fjárhagslega að bæta úr þessu slæma ástandi. En það hefur allt komið fyrir ekki, ekkert hefur komið út úr því. Og enn hnípa þessir 4–5 hundruð sveitabæir víðs vegar um landið án nokkurra sjónvarpsglætu, að ógleymdum íslenskum sjómönnum sem þó væru manna hvað best komnir að því að njóta þeirrar afþreyingar sem sjónvarpið óneitanlega er. Ég tel að þær 200 millj. gjaldeyris, sem til er vitnað sem hugsanlegs gjaldeyriskostnaðar vegna innflutnings á 2500 tækjum á ári, séu ekki það stór hluti af okkar 60 milljörðum að það sé vert að horfa í það. Ég tel líka afleitt að sú þróun, sem hefur komið upp með stórfelldu smygli litasjónvarpstækja, hefur orðið til þess að ríkið hefur misst stórfé í tolltekjum sem sjónvarpið hefði að öðrum kosti átt að fá. Ég vil leggja áherslu á það, að ég tel eðlilegt og sjálfsagt að leggja allþungan toll á þessi litasjónvarpstæki. Fólk, sem á annað borð hefur efni á því að fleygja 300 þús. kr. eða um það bil í eitt sjónvarpstæki, hefur þá örugglega efni á því að borga ríflegan toll af því til viðbótar til þess að stuðla að því að hinir, sem ekkert sjónvarp hafa, fái það nú innan skamms — eða það skulum við a.m.k. vona.

Ég styð þessa till. vegna þess að mér fyndist óraunsætt að standa á móti henni eftir því hvernig mál hafa þróast. Og ég treysti því, að hv. 11. þm. Reykv. standi við þau orð sem hann lét falla í framsögu sinni og túlkuðu greinilega einlægan áhuga á því að þetta takmark okkar dreifbýlismanna náist, að sjónvarpið nái til helst allra á Íslandi sem á annað borð vilja hafa það á heimilum sínum.