18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

48. mál, litasjónvarp

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að leiðrétta og leiðrétta rækilega missagnir í ræðu hv. þm. Ellerts Schram áðan, að ég hafi sagt að allt sjónvarp væri plága. Ég undanskildi einmitt íslenska sjónvarpið. Ég talaði um sjónvarp í löndum þar sem þetta dynur á fólki frá morgni til kvölds og jafnvel allan sólarhringinn, þar er þetta orðið mjög alvarleg plága, það vitum við öll. Ég taldi það einmitt til kosta á íslenska sjónvarpinu hve útsendingartíminn væri stuttur og þess vegna væri það ekki plága. Ég var að vara við þeirri plágu sem íslenska sjónvarpið gæti orðið ef við færum að apa þetta eins og allt annað eftir útlendingum.

Það er svo efni í heilan fyrirlestur, tilhneiging okkar íslendinga að apa alla skapaða hluti eftir útlendingum. Það er ekki nóg með að menn keppi hver við annan í alls konar hégóma og fordild, einn keppir við þennan hégómann hjá nágranna sínum o.s.frv., heldur er nú farið að keppa við aðrar þjóðir í hégóma. Af því að aðrar þjóðir hafa litasjónvarp, þá hlýtur það að koma yfir okkur. Hv. flm. þessarar till. segir ekki að það skuli koma yfir okkur, heldur að það hlýtur að koma yfir okkur. Það hlýtur að koma yfir okkur, ég skal taka undir það. Mér sýnist allt benda til þess. En ég skal a.m.k. gera allt það sem í mínu valdi stendur til þess að fresta þeim ósköpum, bæði að þetta hvimleiða litasjónvarp, sem ég tel vera eftir því sem ég hef kynnst því í útlöndum, komi yfir okkur, og einnig að sjónvarpsdagskrá verði lengd til samræmis við það sem tíðkast í öðrum löndum.

Svo vil ég aðeins skjóta að mönnum hér þeirri athyglisverðu niðurstöðu í ræðu hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur áðan, að hún ætlar heldur en ekki að setja tolla á litasjónvarpstækin. Þessi tæki eiga engir að geta keypt nema þeir ríku. Þannig ætlar hún reyndar að bæta skilyrðin fyrir svarthvíta sjónvarpið úti um landsbyggðina. Það er ekki meiningin hjá henni að landsbyggðin fái að njóta litasjónvarps, hún skal sitja uppi með sitt gamla svarthvíta sjónvarp. Ég get að vissu leyti tekið undir þetta. En ég get ekki tekið undir það á þeirri forsendu að það lýsi meiri skilningi á raunverulegum verðmætum að sækjast eftir litasjónvarpi en svarthvítu sjónvarpi. Ég mundi taka undir þetta á þeim forsendum að margur verður af aurum api, og þess vegna þarf hann endilega, ef hann er orðinn ríkur, að kaupa sér litasjónvarp. Ég vona í lengstu lög að þess háttar verðmætamati verði forðað frá íslenskri alþýðu, vestfirðingum eins og öðru fólki.