18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

48. mál, litasjónvarp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þessarar þáltill. Mér fannst að hv. 9. landsk. þm. væri a.m.k. kominn í hálfhring í þeim málflutningi sem hún hafði uppi annars vegar í sambandi við það mál sem var til umr. á undan þessu, þ.e.a.s. bundið slitlag á vegi, þar sem hún lýsti yfir að hún felldi sig illa við að stjórnarþm. væru að flytja hér þáltill. eða frv. sem fælu í sér að það væri verulega verið að auka á erlendar lántökur og þar með að stuðla að versnandi stöðu ríkisins í gjaldeyrismálum, en síðan talar hún um þetta mál og segist samþykkja það á þeim forsendum að það sé eytt það miklum gjaldeyri til kaupa á sjónvarpstækjum í lit að hún geti samþykkt það á þeim grundvelli. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta nú stangast heldur betur á í málflutningnum. En það er auðvitað hennar mál, og sjálfsagt leiðréttir hún ef ég hef misskilið þetta. En í mínum eyrum var þetta svona.

Þáltill., sem hér er til umr., felur það í sér að hv. flm., þm. Ellert Schram, telur að það nauðsynlegasta, sem nú þurfi að gera í sambandi við sjónvarpsmál, sé að opna allar flóðgáttir til þess að hægt sé að flytja inn litasjónvarpstæki. Ekki mundi ég hafa á móti því undir eðlilegum kringumstæðum að slíkt væri gert, svo sannarlega ekki. En ég er þeirrar skoðunar að það sé ýmislegt sem knýr frekar á og nauðsynlegra sé í sambandi við sjónvarpsmálín heldur en að taka nú um það ákvörðun að opna þessa flóðgátt.

Það segir í grg. með þessari þáltill., með leyfi forseta:

„Íslenska sjónvarpið átti 10 ára afmæli í sept. s.l. Af því tilefni beindist athygli manna að aðbúnaði sjónvarpsins, starfsemi þess og þörfum. Í viðtölum við yfirmenn sjónvarpsdeildar kom hvað eftir annað fram, að þeir álitu næsta og brýnasta áfanga i starfi sjónvarpsins vera útsendingar í lit. Það var sú afmælisgjöf sem þeir óskuðu helst af hálfu stjórnvalda til þjóðarinnar.“

Hér er sett fram sú ósk starfsmanna sjónvarpsins sem þeir hafa fyrsta fram að færa á 10 ára afmælinu, en burt kastað óskum allra væntanlegra, segi ég, notenda sjónvarpsins ef ráðstafanir verða gerðar til þess að þeir fjöldamörgu einstaklingar í landinu geti notið sjónvarpsútsendinga á næstu árum eins og nokkuð stór hluti þjóðarinnar hefur gert nú á undanförnum 10 árum. Það er ekki tekið undir það sjónarmið þessa fólks að gera ráðstafanir til þess að auðvelda því að njóta þessa fjölmiðils.

Ég er þeirrar skoðunar að það séu önnur verkefni brýnni í sambandi við sjónvarpið heldur en að opna nú fyrir innflutning á litasjónvarpstækjum. Ég held að afmælisgjöf — ekki til sjónvarpsins endilega á 10 ára afmælinu, heldur fyrst og fremst til þeirra sem hafa ekki notið sjónvarpsins í þessi 10 ár, ætti að vera sú, að gerðar verði ráðstafanir til þess að þetta fólk geti notið sjónvarps sem allra fyrst.

Ég er alveg sammála hæstv. utanrrh. um rökstuðninginn, þegar menn eru að tala um að nota fjármagn, sem kæmi til vegna innflutnings á litasjónvarpstækjum, til að endurbæta dreifikerfið. Rökstuðningurinn í grg. með þessari þáltill. er allur í þá átt að það þurfi að endurnýja tækin til þess að halda við svarthvítu sjónvarpi, þannig að það verða litlar tekjur umfram það þó að breytt yrði í litasjónvarp. Auk þess er alveg augljóst mál að verði þetta gert, farið að senda út í einhverjum mæli í litum, þá þýðir það auðvitað stórkostlega aukinn rekstrarkostnað fyrir stofnunina sem slíka. Bendir því allt til þess að hér sé haft að yfirvarpi að það eigi að fá tekjur til þess að endurbæta dreifikerfið til þeirra sem ekki hafa notið sjónvarps hingað til, — það sé haft að yfirvarpi, reyndin verði sú, að kostnaður kemur til með að fylgja útsendingum í lit og tækjabúnaði í sambandi við það og fjármagnið verði fyrst og fremst notað til þess að endurbæta það á því svæði sem þessi hv. þm. ber fyrst og fremst fyrir brjósti, þ.e. hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég sé að hv. þm. Albert Guðmundsson brosir. Hann veit að þetta er rétt.

Eins og ég sagði, ég er ekki andvígur því, ef allt í einu er orðin sú batnandi gjaldeyrisstaða hjá ríkinu að hægt sé að fara út í fyrirtæki af þessu tagi, þá hef ég ekki á móti því í sjálfu sér. En allt tal hæstv. ráðh. og stjórnarþm. margra — ekki allra að vísu — hefur beinst að því að hér væri um að ræða mjög svo slæma fjárhagsstöðu ríkissjóðs, gjaldeyrisstaðan væri slæm. Það er því ekki að ætla að það séu möguleikar í reynd á slíku sem þessu, auk þess sem aðalatriðið í mínum huga er það, að það á fremur að stuðla að því að þeir, sem ekki njóta sjónvarps nú, geti gert það sem allra fyrst. Ég hefði því vænst þess að þeir, sem bera fyrst og fremst fyrir brjósti þá einstaklinga sem ekki hafa notið sjónvarps, tækju saman höndum við mig um að styðja það frv., sem hér var mælt fyrir í gær og kostar þó ekki meira en 20 millj. kr., til þess að skapa 400–500 sjómönnum úti á miðunum aðstöðu til þess að horfa á svarthvítt sjónvarp, — þeir hefðu látið í sér heyra við þær umr. En þá var þagað. Og það er svo, þó að sagt hafi verið að þögn sé sama og samþykki, að mín reynsla hér á hv. Alþ. er meir í þá átt að það beri mjög að gjalda varhuga við því ef mikil þögn ræður ríkjum í sambandi við mál sem flutt eru hér á þinginu, það sé kannske líklegasta leiðin til þess að ætla að slík mál verði drepin. Ég vona að sú verði ekki raunin í sambandi við mál sem ég var hér um að tala, frv. frá því í gær. En ég ítreka það: Ég held að það sé ýmislegt annað brýnna nú í sambandi við sjónvarpsmál heldur en að taka nú upp stórkostlegan innflutning á litasjónvarpstækjum.