18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

24. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er einnig um breyt. á umferðarlögunum, en það þótti samt rétt að hafa efni þess í öðru frv. og blanda því ekki saman við efni þess frv. sem var rætt um áðan.

Það var 1970 sem voru lögfest ákvæði um Umferðarráð sem hafði raunar verið sett á stofn nokkru áður, eða í ársbyrjun 1969. En í því lagaákvæði, sem fjallaði um Umferðarráð voru ekki nein sérstök ákvæði um fjármögnun þess. Fjármögnun þess hefur svo farið fram með þeim hætti, eins og hv. þm. vita, að það hefur verið veitt fé á fjárlögum hverju sinni til starfsemi Umferðarráðs.

Eins og verkefni Umferðarráðs eru greind í þessu lagaákvæði sem um það fjallar, þá eru þau mjög mörg og margvísleg, Í framsöguræðu minni í fyrra um þetta mál gerði ég nokkuð ítarlega grein fyrir starfsemi Umferðarráðs og ég ætla að leyfa mér að vísa til hennar. Það er auðvitað stórt verkefni, sem það hefur fyrst og fremst með höndum, þ.e.a.s. að reyna að koma í veg fyrir það að slys eigi sér stað í umferðinni, og það hefur beitt ýmsum úrræðum til þess að bæta umferðarmenningu og afstýra slysum.

En allt frá því að Umferðarráð hóf göngu sína, þá má segja að starfsemi þess hefur verið þröngu.r stakkur skorinn vegna þess að það hefur haft takmörkuð fjárráð til umráða. Það er af þessum ástæðum sem þetta frv. er flutt. Því er ætlað að bæta úr fjárþörf Umferðarráðs með því að ætla því ákveðinn tekjustofn, þ.e.a.s. að það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að hluti, 11/2%, af iðgjaldatekjum vegna lögboðinnar ábyrgðartryggingar ökutækja, þ.e. brúttóiðgjöld að frádregnum bónus, skuli renna til Umferðarráðs í þessu skyni. Ef þessi breyt. væri gerð og Umferðarráð héldi eitthvað svipuðum fjárveitingum á fjárlögum og það hefur haft, þá mundi mjög verða bættur fjárhagur Umferðarráðs.

Eins og segir í grg. með þessu frv., þá námu heildariðgjöld ábyrgðartrygginga tilheyrandi árinu 1975, sem er síðasta árið sem tölur liggja fyrir um, 797 millj. kr. Ef þessi ákvæði hefðu þá verið í gildi, ef þau hefðu verið í gildi á yfirstandandi ári, hefðu því nær 12 millj. gengið til Umferðarráðs og þar með umferðarslysavarna á þessu ári auk þess framlags sem á fjárlögum er, en það eru rúmar 10 millj.

Það verður ekki talið óeðlilegt að vátryggingafélögin leggi með þessum hætti nokkuð til rekstrar Umferðarráðs, vegna þess að það má gera ráð fyrir því að starfsemi Umferðarráðs komi tryggingafélögunum einmitt til góða með þeim hætti að það verði minni tjón, sem þau þurfa að bæta, eftir því sem starfsemi að umferðarslysavörnum og starfsemi Umferðarráðs getur verið öflugri.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta einfalda mál sem hér liggur fyrir, því að hér er um það að ræða að menn verða annaðhvort að vera með því að leggja þetta gjald á eða ekki. Þetta er ekki flókið mál og menn geta að sjálfsögðu áttað sig á því án þess að ég hafi um þetta fleiri orð. En ég endurtek, að ég vísa til orða minna frá í fyrra um starfsemi Umferðarráðs, þar sem gerð var allrækileg grein fyrir henni.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og hv, allshn.