22.11.1976
Efri deild: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

62. mál, biskupsembætti

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram til kynningar á síðasta hv. Alþ. og í þessari hv. d. og reyndar fór þá fram framsaga um það og nokkrar umr. án þess þó að til þess væri ætlast né við því búist, að það yrði afgr. á því þingi. Það er nú lagt fram hér aftur.

Þetta er frv. um biskupsembætti hinnar íslensku þjóðkirkju og skv. því er gert ráð fyrir að biskupsdæmi skulu vera tvö: Skálholtsbiskupsdæmi og Hólabiskupsdæmi. Það er hins vegar gert ráð fyrir því að sú skipan, sem gert er ráð fyrir í frv., komi eigi til framkvæmda fyrr en fé hefur verið veitt til þess á fjári. Ég leyfi mér að undirstrika það, að það er sem sagt ekki gert ráð fyrir því að þessi nýja skipan, sem þarna er um að ræða, komi til framkvæmda fyrr en fjárveitingavaldið hefur um það fjallað sérstaklega og lagt yfir það blessun sina, þannig að samþykkt þessa frv. út af fyrir sig hefur ekki í för með sér nein útgjöld.

Þetta frv. er samið af dr. Ármanni Snævarr hæstaréttardómara skv. beiðni dóms- og kirkjumrn., og hann hefur tekið saman þá ítarlegu grg. sem fylgir með frv. Hún er þannig úr garði gerð, að það nægir í raun og veru að mörgu leyti að vísa til hennar, án þess að ég fari að endurtaka hér í framsögu það sem þar er sagt.

Það er rétt að taka það fram, að gert er ráð fyrir því að um leið og hin nýja skipan komist á eftir þessu frv. skuli embætti vígslubiskupa lögð niður. Það út af fyrir sig jafngildir biskupslaunum þar eð vígslubiskupar njóta nú hálfra launa, þannig að út af fyrir sig yrði ekki kostnaðarauki við sjálft biskupsstarfið nýja.

Sú skoðun, að það skuli sett hér upp tvö biskupsembætti, virðist njóta nokkurs fylgis. Sú skoðun er að einhverju leyti reist á því að það sé ofviða einum biskupi að inna af hendi öll þau störf sem honum eru lögð á herðar, og kannske að einhverju leyti vegna þess að hv. Alþ. og fjárveitingavald hefur verið heldur naumt á fjárveitingar til aðstoðar við embætti biskups. En e.t.v. er þetta álit, sem hefur komið í ljós um það að hér ættu að vera tvö biskupsdæmi svo sem að fornu, byggt fyrst og fremst á sögulegri hefð.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér sögu, en minni aðeins á það, að í öndverðu voru sett á fót þessi tvö biskupsdæmi hér, í Skálholti og að Hólum, og í kjölfar þess að biskupsstólar voru settir á þessum stöðum risu þar upp menningarsetur svo sem alkunnugt er. En á myrkasta tíma Íslandssögunnar, á ofanverðri 18. öld, var biskupssetur fyrst flutt frá Skálholti til Reykjavíkur og biskupsstóll á Hólum síðan lagður niður. Má segja að það hafi gerst með sérlega hljóðlátum hætti að biskupsstóll og skóli voru fluttir frá Hólum, frá Norðurlandi, og að norðlendingar hafi tekið þeirri breytingu með undarlega mikilli þögn. Að vísu voru þá erfiðir tímar hér á landi, og fleiri breytingar áttu sér stað um sama leyti, þar sem Alþ. var þá einnig niður lagt, en það var þá, eins og menn vita, í raun og veru ekki orðið annað en dómstóll. Þess vegna var sú breyting, sem þá átti sér stað, í sjálfu sér ekki ýkjamikil, þó að sá æðsti dómstóll, sem var í landinu, væri fluttur frá Þingvöllum og til Reykjavíkur og að vísu gerð nokkur breyting í því sambandi.

Alþingi var svo endurreist, eins og menn þekkja, fyrst sem ráðgjafarþing og seinna sem löggjafarþing, en biskupsstólarnir hafa hins vegar ekki verið endurreistir á hinum fornu stöðum. Hvorki Skálholt né Hólar hafa orðið biskupssetur og við það situr enn í dag.

Á síðari árum hefur hins vegar verið gert margt til þess að hefja Skálholt til vegs og virðingar á ný, fyrst og fremst með endurbyggingu fornrar dómkirkju á staðnum, en síðan með stofnun sérstaks skóla lýðháskóla eða lýðskóla á staðnum, þannig að segja má að Skálholt sé nú tvímælalaust komið í hóp menningarsetra hér á landi, og er það vel.

Um Hóla er það hins vegar að segja að saga þeirra varð að vísu nokkuð á annan veg en Skálholts, þannig að Hólar sukku aldrei eins djúpt niður og Skálholt og niðurlæging þeirra var aldrei eins alger og Skálholts. Þar stóð hin forna dómkirkja og varð m.a. til þess að halda staðnum uppi. Seinna, á síðari hluta síðustu aldar, var svo reistur þar bændaskóli sem síðan hefur staðið þar og starfað með myndarbrag lengst af, og þess vegna hafa Hólar að vísu verið menningarsetur. Svo var prestssetur flutt þangað, en það hafði verið flutt burt frá Hólum um langa hríð. Vegur Hóla er því eins og er vissulega mikill. En í hugum norðlendinga og þá ekki hvað síst skagfirðinga hefur sá skóli, sem byggður var á Hólum ekki verið endurreistur þar, heldur var hann endurreistur á Akureyri, eins og kunnugt er, Menntaskóli Norðurlands. Og biskupsstóll hefur ekki enn komið til Hóla.

Það, sem stefnt er að með þessu frv., er að endurreisa biskupsstól að Hólum. Ég er viss um að sú ráðstöfun verður fyrst og fremst auðvitað til þess að auka veg Hólastaðar og efla hann á allan hátt, en jafnframt yrði vegur kristninnar aukinn. Það er ekki vafi á því, að á Hólum mundi þá verða miðstöð kirkjulegs starfs og kirkjulegrar menningar og þaðan mundu eins og áður berast hollir straumar út til þjóðlífsins. Ég hygg að það muni flestir vera sammála um að á þeim upplausnartímum í siðferðilegum efnum, sem margir telja að nú séu áberandi hér á landi, sé vissulega þörf á að gera þær ráðstafanir sem hægt er til þess að vega á móti þeirri upplausn. Og ég hygg að það sé óvíst að það verði gert betur með öðrum hætti heldur en að styrkja stoðir kristinnar lífsskoðunar og kristinnar siðaboðunar.

Frv., sem hér liggur fyrir, gerir sem sagt ráð fyrir því að biskupsdæmi þjóðkirkjunnar verði tvö: Skálholtsbiskupsdæmi og Hólabiskupsdæmi. Þessi skipan er mjög áþekk og í frv., sem Magnús heitinn Jónsson prófessor og alþm. flutti á Alþ. árið 1941, og svipað frv. var samþ. af Kirkjuþingi árið 1958. Af fjárhagsástæðum þykir hins vegar ekki fært að leggja til að biskupsembætti eða biskupsdæmi verði nú eins og ráðgert var í frv. sem samþ. var af Kirkjuþingi 1963.

Við landfræðilega afmörkun biskupsdæmanna tveggja hefur verið tekið mið af núverandi skiptingu landsins í prófastsdæmi í stað þess að fylgja hinni fornu skiptingu milli Skálholts- og Hólabiskupsdæma. Þannig er lagt til að Hólastifti nái til Strandasýslu, Norðurlands alls og Austurlands að undanskilinni Austur-Skaftafellssýslu. Tekur það þá til sex prófastsdæma með u.þ.b. 45 þús. íbúum. Undir Skálholtsbiskup heyra þá aftur á móti 9 prófastsdæmi með liðlega 174 þús. íbúum. Umdæmi hans yrði því miklu fjölmennara en Hólabiskupsdæmi, en hins vegar litlu stærra landfræðilega en umdæmi Hólabiskups.

Í frv. er gert ráð fyrir að Skálholtsbiskup sitji í Reykjavík, en Hólabiskup á Hólum, en þó er heimilt að flytja biskupssetur frá þessum stöðum með forsetaúrskurði skv. till. kirkjumrh., enda sé meiri hl. þjónandi presta og safnaðarfulltrúa í viðkomandi biskupsdæmi því meðmæltur.

Önnur efnisatriði þessa frv. lúta m.a. að verkefnum biskupa og verkaskiptingu milli þeirra, vörslu sjóða og annarra kirkjueigna, stöðu biskupa, þ. á m. á Kirkjuþingi og í Kirkjuráði, lögkjörum þeirra og vígslum. Um þessi atriði er ekki ástæða til að fjölyrða hér í framsöguræðu, heldur vísast í þessu sambandi til frv. sjálfs og grg. sem því fylgir. Rétt er þó að vekja á því athygli, að það er ætlunin að endurskoða sérstaklega lög um biskupskosningu og önnur þau lög er biskupsembætti varða, og því er ekki að finna nein ákvæði um kosningu biskupa í þessu frv.

Í fyrra voru drög að þessu frv. lögð fyrir Kirkjuráð. Biskup sendi síðan bréf um frv. og í því fólst jákvæð umsögn. Það bréf var að mestu leyti birt í framsöguræðu minni á Alþ. í fyrra. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa upp hér aftur, en tek fram að í því fólst jákvæð umsögn um frv.

Það hafa borist allmargar samþykktir í rn., bæði áður en frv. var lagt fyrir síðasta Alþ. og eins eftir að það var lagt fram, frá sóknarnefndum og öðrum aðilum á Norðurlandi, sérstaklega á Norðurlandi vestra, þar sem mælt hefur verið með þessu frv. Einnig hefur borist umsögn eða meðmæli frá Prestafélagi hins forna Hólastiftis.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða frekar um frv., þar sem því fylgir, eins og ég hef áður sagt, ítarleg grg., og læt nægja að vísa til hennar. En ég vil leyfa mér að vekja athygli þeirrar n., sem þetta mál fær til meðferðar, á því að einmitt þessa dagana situr Kirkjuþing að starfi hér í Reykjavík. Það situr hins vegar takmarkaðan tíma, aðeins um tveggja vikna skeið. Ég tel sjálfsagt og æskilegt að hv. n. sem fær frv. til meðferðar, sendi það þessu Kirkjuþingi til umsagnar, og þá vildi ég mega vænta þess að hún hefði hraðan á að halda fund um málið, þar sem það væri tekið fyrir og það sent svo tímanlega til Kirkjuþingsins að það fengi tækifæri til þess að láta í ljós álit sitt á málinu.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.