22.11.1976
Efri deild: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

62. mál, biskupsembætti

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekkert við því að segja þó að skiptar skoðanir séu um þetta mál eins og önnur. Og það er nú með það eins og yfirleitt er um mál sem kosta einhverja fjármuni, að það er lengi hægt að deila um hvort þeim fjármunum mundi ekki verða betur varið til einhvers annars. En það verður auðvitað undir mati komið, og ég veit að það er ákaflega auðvelt verk t.d. að benda á ýmsar þarfir á Norðurlandi sem æskilegt væri að geta fullnægt. En ef menn hugsa þannig, þá getur það lengi orðið fjötur um fót góðum málum, af því það má lengi finna einhver önnur mál sem gætu verið eins góð eða kannske betri að mati ýmissa. En það er í sjálfu sér ekkert við þessu að segja, þó að menn leggi á þetta mismunandi mat og hafi á því mismunandi skoðanir.

Það, sem ég vildi aðeins aftur undirstrika, er að það er í raun og veru ekki verið að fara fram á með þessu frv. að það sé stofnað til útgjalda, heldur kemur það þá aftur til kasta Alþ. og verður því aðeins horfið að þeirri skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, að fjárveitingavaldið, að Alþ. fallist á að það sé réttmætt og eðlilegt að verja fjármunum til þessa. Hér er því ekki hrapað að neinni eyðslu í þessu frv., heldur eru þarna að vísu að segja má opnaðar dyr, en hv. alþm., hverjir svo sem þeir verða, ráða því síðar hvort þeir ganga inn um þær dyr eða velja sér einhverjar aðrar.

Ég leiðrétti að nokkru með framígripi þann misskilning sem kom fram hjá hv. þm. varðandi kostnað sem af þessu hlýst þegar og ef að því ráði verður horfið. Það, sem ég sagði, varðaði aðeins laun biskupsins, að þau jafna síg í raun og veru á móti því sem vígslubiskupum er nú greitt. Hins vegar er ég alveg sammála því og það þýðir ekkert annað en að horfast í augu við þá staðreynd, að auðvitað hlýtur stofnun biskupsembættis að fylgja ýmis annar kostnaður en bara laun handa biskupi og það er fjarri mér að vilja blekkja nokkuð að því leyti til að það er óhjákvæmilegt. En það mundi verða Alþingis og fjárveitingavaldsins að meta á sínum tíma, þegar lægi fyrir að það ætti í raun að hverfa að þessari skipan, að meta hverjar þær fjárveitingar þyrftu að vera.

Þetta vildi ég aðeins taka fram. Ég held að það sé ekki hægt að segja að það sé lítil alvara á bak við frv. Það er alls ekki ótítt að slíkur háttur sem þessi sé á hafður, að það sé flutt frv. og lögákveðin skipan sem menn þó eru í þann svipinn ekki alveg tilbúnir til þess að leggja í kostnað við að koma á fót. Í samþykkt frv. sem þessa felst a.m.k. ákveðin stefnumörkun, stefnuyfirlýsing Alþ. og löggjafans um að það skuli stefnt að þessu, að biskupsembættin verði tvö og verkaskipting þeirra sú er þar greinir, enda þótt ekki sé talið rétt að leggja strax í þann kostnað sem því hlýtur að vera samfara, heldur gefist meira ráðrúm til þess að íhuga það efni og að það komi til löggjafans síðar, áður en horfið verður að þessu ráði.

Ég hef ekki látið að því liggja að siðferði manna norðanlands væri neitt slakara heldur en sunnanlands. En ég hefði haldið að menn gætu orðið sammála um að uppbygging menningarmiðstöðva, kristilegra menningarmiðstöðva gæti haft heppileg áhrif í þjóðfélaginu. Það veldur auðvitað hver á heldur. En ef menn líta til sögunnar, þá verða menn að játa að það voru ekki lítil áhrif sem streymdu til þjóðlífsins frá þeim höfuðskörungum sem lengi vel sátu á biskupsstóli á Hólum. (Gripið fram í: Þeir voru misjafnir.) Þeir voru misjafnir, eins og við erum allir, og þannig verður það alltaf, að í slík embætti veljast eitthvað misjafnir menn. En þó hygg ég að það verði að segjast um þá flesta að þeir hafi hugsað nokkuð vel um þá stofnun sem þeim var falið að veita forstöðu.

Tímarnir eru auðvitað breyttir frá því sem þá var, og ríkisvaldið hefur nú tekið í sínar hendur beinlínis ýmis þau verkefni sem kirkjunni þá voru ætluð. Þess vegna yrði hlutverk biskups og kirkju ekki hið sama nú eins og þá. En eigi að síður getur það haft sína þýðingu. Og það er einmitt skemmtilegt að hugsa til þess, að það hefur verið talsvert vakandi líf og kirkjulegt starf á Norðurlandi, eins og ég veit að hv. þm. veit vel um. Það hafa verið áhugasamir prestar þar sem hafa gengist fyrir sumarbúðum og skólum og námskeiðum og öðru þvílíku og haldið uppi æskulýðsstarfsemi með myndarbrag, að ég ætla, og allt þetta hefur sina þýðingu.

En sem sagt, þetta er mál sem er ekki mál stundarinnar, heldur er eðlilegt að menn þurfi nokkurn tíma til þess að átta sig á og hugsa sig um. Ég hef ekki hugsað mér að reyna að koma þessu máli fram hér með neinu sérstöku offorsi, heldur hef ég farið fram á það við menntmn., sem fær málið til meðferðar, að hún leiti umsagnar Kirkjuþings, og sjálfsagt verða frekari umr. — og er ekki nema heppilegt að frekari umr. á opinberum vettvangi fari fram um málið til þess að það sýni sig betur en ella hver hugur fylgir máli hjá almenningi um þetta. Ég hef síst á móti því.

Auðvitað hefði ég verið glaður yfir því ef hv. síðasti ræðumaður hefði frelsast í sumar og komist á aðra skoðun í þessu máli en hann var í fyrra. En við því er ekkert að segja, þetta getur alltaf komið síðar.