23.11.1976
Sameinað þing: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

Umræður utan dagskrár

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Fyrsta málið á dagskrá þessa fundar er fyrirspurn sem ég bar fram í upphafi þessa þings um símakostnað aldraðs fólks og öryrkja. Þetta er 17. mál Sþ. 2. mál á dagskránni er hins vegar 46. mál og allt upp í 82. mál er á dagskrá þessa fundar. Fyrirspurn minni, sem ég bar fram í þingbyrjun, hefur ekki fengist svarað enn þá og hefur hæstv. ráðh. borið ýmsu víð. Hann var viðstaddur hér á einum tveimur eða þremur fyrstu fundunum og taldi sig ekki tilbúinn til að svara, en síðan hefur hann ýmist verið erlendis eða boðað fjarvistarleyfi. Ég vil beina því til hæstv. forseta, sem er oddviti okkar þm., að hann reyni að tryggja það að hæstv. ráðh. gegni skyldustörfum sínum hér á þingi. Ég óska þess mjög eindregið að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að ráðh. símamála komi hér og svari þessari fyrirspurn, og raunar virðist mér að það megi beina því til hæstv. ráðh. almennt að þeir gegni störfum sínum hér á þingi. Þeir ráðherrastólar, sem næstir mér eru, eru allir tómir og var þó aðeins einn ráðh. sem bað um fjarvistarleyfi. Ég sé ekki stólana þarna hinum megin, en ég hygg að þeir séu ekki fullir heldur. Þess ber að vænta að hæstv. forseti beini því til hæstv. ráðh. að þeir gegni skyldustörfum sínum hér á hinu háa Alþingi.