23.11.1976
Sameinað þing: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

35. mál, útbreiðsla atvinnusjúkdóma

FIm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 7. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðssyni, leyft mér að flytja till. til þál. um skipun n. til að kanna eðli útbreiðslu atvinnusjúkdóma. Till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. sérfróðra manna til að gera ítarlega könnun á eðli og útbreiðslu atvinnusjúkdóma hérlendis, svo sem vegna vinnuálags og langs vinnudags, hraða eða sjálfvirkni vinnunnar, umgengni við hættuleg efni, mengað andrúmsloft, hávaða, kulda eða vegna annars, sem snertir aðbúnað starfsfólks á vinnustað.“

Það er óhætt að fullyrða að skipulag á rannsóknum og eftirliti með atvinnusjúkdómum er ekki fullnægjandi hér á landi. Samkvæmt lögum heyra þessi mál undir Öryggiseftirlit ríkisins, en í reynd er framkvæmd þeirra í höndum Heilbrigðiseftirlits og er þannig hluti af almennri heilsugæslu. Ég hygg að það sé full ástæða til þess að endurskoða þessi mál frá grunni og nauðsyn að setja sérstaka löggjöf um atvinnusjúkdóma eða vinnuvernd sem tæki mið af nýjum viðhorfum í rannsókn þessara mála. Það er líka vert að velta því fyrir sér hvort ekki sé þörf á að endurskoða framkvæmd eftirlitsins. Minni ég á í þessu sambandi að í Svíþjóð t.d. er starfandi sérstök stofnun sem hefur eftirlit með atvinnusjúkdómum og vinnuvernd, og er sá þáttur heilbrigðismála þannig í raun tekinn sérstaklega út úr hinu almenna heilsugæslukerfi. Það sýnir að Svíar taka þessi mál mjög alvarlega og taka á þeim mjög myndarlega þar eð við þessa stofnun starfa 600–800 manns.

Þessi till. okkar hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar fjallar þó ekki um breytingu á skipulagi né lögum. Hún fjallar um könnun á eðli og útbreiðslu atvinnusjúkdóma. Nú hafa vissulega verið gerðar nokkrar rannsóknir á atvinnusjúkdómum, en þær hafa einkum verið bundnar sérstökum vinnustöðum og beinst að afmörkuðum þáttum. Þessar rannsóknir þyrftu að vera fleiri og samfelldari athugun þyrfti að vera fyrir hendi eftir síbreytilegum aðstæðum á vinnustað. Mér er kunnugt um að þeir, sem að þessum störfum vinna, landlæknir, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins svo og verkalýðsfélög, hafa fullan hug á þessu, en það skortir fjármagn og það skortir mannafla og aðstæður, og hér held ég að Alþ. verði að koma til liðs við þetta fólk.

Í till. okkar er fyrst og fremst tekið fram að athugaðir verði atvinnusjúkdómar af völdum of langs vinnutíma eða óhæfilegs vinnuálags. Það er hverjum manni augljóst að allur þorri verkafólks, allur þorri launafólks vinnur óhóflega langan vinnudag. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að hvergi í nágrannalöndum okkar þekkist jafnlangur vinnudagur og hér á Íslandi. Þetta á sér vitanlega margþættar orsakir, sumar séríslenskar. En ég held að það sé kominn tími til að við horfumst í augu við að þessi óhóflega langi vinnudagur stórspillir heilsu manna, skaðar menningar- og félagslíf.

Sumir vilja hliðra sér hjá því að ræða af hreinskilni afleiðingar þessa og undirrót. Menn yppta öxlum og segja að við séum fámenn þjóð í harðbýlu landi, við búum í hálfgerðu veiðimannaþjóðfélagi, og vissulega er það rétt að vissu marki. Þessu veldur einnig að störf sjómanna, bænda og stórs hluta verkamanna og iðnaðarstétta t.d. eru mjög árstíðabundin. Það er komið undir árstíma og veðurfari hvort vinnuálag er mikið eða vinnutími er langur eða skammur. En þetta er samt engan veginn fullnægjandi skýring. Höfuðorsök þess, hversu algengt þetta er orðið, má að mínu viti rekja til þess stéttaþjóðfélags sem við búum í. Verkafólk og annað launafólk hefur einfaldlega ekki þau laun, sem duga til lífsviðurværis, með dagvinnu einni saman.

Í síðasta Fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar, sem kom út í okt. 1976, — ég held að það sé síðasta bréfið fremur en næstsíðasta, — eru töflur sem sýna hlutfallslega skiptingu vinnutíma verkafólks og iðnaðarmanna á öðrum ársfjórðungi á árabilinu frá 1966–1976. Á slíkar niðurstöður verður auðvitað að líta í ljósi þess atvinnuástands sem ríkir á hverjum tíma. Það hefur auðvitað sín áhrif hvort eftirspurn eftir vinnuafli er mikil eða lítil. En niðurstöður, sem af slíkum rannsóknum fást, hljóta líka að markast af því hver kaupmáttur dagvinnutaxtans er. Ef hann er lágur, þá freistast menn til að bæta sér hann upp með æ meiri eftirvinnu. Í þessum töflum Kjararannsóknarnefndar sést að það er greinileg aukning á þessu ári á hlutfalli eftirvinnu verkamanna í heildarvinnutíma frá árinu á undan, árinu 1975. Á öðrum ársfjórðungi 1976 er hlutfall dagvinnu 72.1% af heildarvinnutímanum, en á öðrum ársfjórðungi á árinu 1975 er það 75.5%. Ef við förum aftur til ársins 1974, þá er það 68.4%. Þar kemur líka fram að á öðrum ársfjórðungi 1976 vinna verkamenn að meðaltali 54 stundir á viku, iðnaðarmenn 52 stundir. Dagvinnutími verkakvenna er hins vegar 90.8% að meðaltali af heildarvinnutímanum, en það er vitað mál að þeim býðst ekki eftirvinna í þeim mæli sem karlmönnum stendur nú til boða. En það er svo sannarlega ekki þar með sagt að þær geti lifað af dagvinnu fremur en aðrir eða að þær vinni minna þegar á heildina er litið.

Ég vil í þessu sambandi taka fram að það eru fleiri launastéttir en verkafólk sem verður að vinna myrkranna á milli, en tölur um það er ekki alltaf svo auðvelt að fá því margir stunda mikla aukavinnu og eru því á launum hjá fleiri en einum atvinnurekanda. Í þessu Fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar er tekið fram að verið sé að rannsaka laun og vinnutíma afgreiðslufólks í matvöruverslunum, og er vel að þessari rannsókn sé haldið áfram til þess að við fáum heildarmynd, því að hér er sannarlega um fróðlegar og gagnlegar upplýsingar að ræða.

Reyndar hefur það verið vitað að vinnutími er óhóflega langur hér á Íslandi og hefur verið svo allt frá stríðsárunum. Íslenskt verkafólk og launafólk almennt hefur orðið að treysta á eftirvinnu til þess að standa undir heimili, og í þessum efnum hefur kostnaður við íbúðarbyggingin eða búsnæði örugglega vegið þyngst. Þegar litið er aftur til þessa tímabils í heild, þá hafa íhaldsstjórnir að mestu ráðið ferðinni, og þau fáu ár, sem vinstri stjórnir hafa verið við völd, hafa ekki dugað til þess að nein umtalsverð formbreyting hafi átt sér stað hvað þetta snertir. Ungt fólk hefur verið bundið á klafa húsnæðisskulda mörg bestu og viðkvæmustu ár ævi sinnar, þau ár sem hefði þurft að nota til að treysta félagsleg tengsl og tilfinningatengsl í sambúð. En þessi ár hafa orðið að fara í vinnu, meiri vinnu og endalausa vinnu, til þess eins að geta haldið húsnæðinu. Þetta er afar óeðlilegt og einsdæmi á Norðurlöndum.

Um afleiðingar þessa vinnuálags mætti margt segja. Nú er að koma í ljós hve ill áhrif þetta hefur bæði á einstaklinginn og þjóðfélagið, hversu menningar- og félagslíf þjóðarinnar biður tjón af þessum sökum. En okkar meginmarkmið er að það verði kannað sérstaklega hver áhrif þetta hefur á heilsufar þeirra sem hlut eiga að máli. Og eins og vikið er að í grg. er nauðsynlegt að fram fari félagslæknisfræðileg athugun þar sem kvaddir verði til hæði læknar og félagsfræðingar. Slíkar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis, og athuganir af því tagi ná einnig til fjölskyldu viðkomandi aðila og félagslegra aðstæðna, í þeim tilgangi að fá fram hver áhrif starfið og eðli þess hefur á aðstandendur hans og heimilislíf. Það eru slíkar rannsóknir sem við flm. þessarar till. höfum í huga þegar við viljum fá fram afleiðingar óhóflega langs vinnutíma. Það er á grundvelli slíkra félagslæknisfræðilegra athugana sem við hljótum síðan að taka afstöðu til hvaða leiðir við förum til úrbóta.

Eins og ég tók fram áðan, er eftirvinna að vísu miklu minni hjá verkakonum, en í félagslæknisfræðilegri athugun er hægt að komast að því hver heildarvinnutími hverrar konu er. Það er vitað að flestir, og þá einkum konur, eiga öll heimilisverk óunnin að kvöldi, að loknu dagsverki úti á vinnustað. Hér er um að ræða tvöfalt vinnuálag sem er í rauninni óþolandi að þjóðfélagið uni til lengdar. Þetta tvöfalda vinnuálag, hvort sem það er eingöngu úti á vinnustað, einum eða fleirum, eða bæði á vinnustað og heimili, slítur fólki fyrir aldur fram, eyðileggur starfsþrek, heilsufar og almennt félags- og menningarlíf. Það er kominn tími til þess að við tilhögun atvinnulífs tökum við tillit til þess að vinna á heimili er ekki aðskilinn þáttur í mannlegu lífi. Við verðum að finna þær félagslegu leiðir til úrhóta sem gera mönnum kleift að rækja skyldu sina bæði á vinnustað og á heimill án þess að þíða tjón á heilsu sinni. Það mætti kannske segja að það væri þjóðhagslegt atriði ekki síður en annað.

Till. okkar fjallar líka um einstakar rannsóknir varðandi einstaka vinnustaði. Þær hafa sums staðar verið gerðar, en þó ekki nógu markvisst, og hygg ég að það stafi af skorti á fjármagni og sl;orti á vinnuafli. Hér vantar rannsóknir um hættuleg efni á vinnustöðum, um mengun, um áhrif kulda. Það vantar hávaðamælingar. Það má nefna að gerðar voru hávaðamælingar í frystihásum á Vestfjörðum fyrir ári, en þessar hávaðamælingar þarf auðvitað að gera í hverju einasta frystihúsi og hverjum einasta vinnustað þar sem talin er þörf á því.

Mér er kunnugt um að landlæknir eða menn á hans vegum hafa nýlokið við rannsókn í kísilverksmiðjunni og þar er þörf útbóta. Og mér er kunnugt um að það á einnig að rannsaka nánar álverksmiðjuna. Um það ætla ég ekki að hafa mörg orð, en benda á að hvergi munu vera leyfðir opnir ofnar neins staðar nema í álverksmiðjunni hér í Straumsvík. Það er sannarlega full þörf á því að hugað sé að atvinnusjúkdómum í heild sinni og fundnar þær leiðir til úrbóta sem nauðsynlegar eru til þess að launafólk í landinu geti lifað sæmilegu mannlífi enda þótt það haldi að mestu leyti þessu þjóðfélagi gangandi.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til allshn.