23.11.1976
Sameinað þing: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

35. mál, útbreiðsla atvinnusjúkdóma

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að hér er vakin athygli á mjög miklu vandamáli og vandamáli sem fer vaxandi ef ekki er gert að í tíma. Ég vil aðeins lýsa strax stuðningi mínum við þessa hugmynd og þessa till. og að hér verði brugðist rétt við og málið athugað gaumgæfilega. Það vantar í sjálfu sér ekki reglugerðir og samninga um aðbúnað fyrir verkafólk, en það vantar miklu meira, að framfylgt sé reglugerðum og samningum. Og það er nauðsynlegt að þetta mál sé allt athugað, eins og flm. og formælandi benti á áðan. Ég vil undirstrika sérstaklega einn þátt sem mér fannst ekki koma fram nægilega í framsögunni. Það er ekki síður mikilvægt, eins og tekið er fram í grg., að verkafólkið og aðrir launþegar geti haft tómstundir og taki þátt í félagslífi. Það er einnig eðlilegt að fólkið hafi möguleika til að hvílast heima og hafa heimilislíf, en vinnudagur sé ekki svo langur að þegar menn koma heim séu þeir örþreyttir vegna vinnuálags.

Það er athyglisvert við íslenskt atvinnulíf að fjöldi smáatvinnufyrirtækja er mjög mikill, og einmitt viða á þessum smáu stöðum er aðbúnaður lélegur.

Það segir í grg., og ég ætla ekki að fara að deila um það, en ég er ekki alveg sammála um það, — þar segir að almennt standi íslenskir atvinnuvegir langt að baki erlendum hvað snertir aðbúnað á vinnustöðum. Þetta á alls ekki við í sumum greinum. Ég get fullyrt, miðað við það sem ég hef séð erlendis og hér heima, að víða er aðbúnaður sem betur fer mjög góður og jafnvel miklu betri en er víða í hliðstæðum greinum erlendis. Það er rétt að vekja athygli á því að það er hægt að gera hér vel og margir hafa gert vel. En það er sama, samt sem áður er víða illa að fólki búið og nær ekki nokkurri átt hvernig fólk sættir sig við þann aðbúnað. Grundvallaratriði eftir svona rannsókn eru fyrirbyggjandi aðgerðir svo að komið verði í veg fyrir atvinnusjúkdóma.

Frsm. minntist á stofnun í Svíþjóð. Ég þekki vegna kunningsskapar við einn mann þar í forustusveit nokkuð til þessarar stofnunar. Einnig er mér kunnugt um að í Svíþjóð eru sérstakir þjálfunarskólar þar sem verkstjórar og aðrir forsvarsmenn fyrirtækja eru sérstaklega þjálfaðir til að koma í veg fyrir að atvinnusjúkdómar eigi sér stað, með sérstökum athugunum og sérstakri þjálfun. Í þeim skólum er lögð áhersla á að heilsa manna sé það mikilvægasta sem manninum er gefið, heilbrigði, full afköst og lífsánægja, þetta haldist allt í hendur. Þeir hafa gert sér grein fyrir því að hér er stórmál á ferðinni.

Ég vil að lokum undirstrika stuðning minn við þessa till. og einnig vekja athygli á því, að hún er mjög mikilvæg og ætti að fá hér góða og skjóta afgreiðslu, en alls ekki að lognast út af í nefnd.