23.11.1976
Sameinað þing: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

63. mál, grunnskólar

Eyjólfur Sigurðsson:

Forseti. Mér fannst ég ekki geta látið hjá líða að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa þáltill. sem hér er komin fram. Ég fagna þeim áhuga sem nú kemur fram á Alþ. og hefur sérstaklega verið áberandi nú í haust fyrir málefnum minnihlutahópa sem allt of lengi hafa orðið út undan í umr. hér á þingi um betra fyrirkomulag á málefnum þeirra, og ég vitna t.d. til dagskrár á 23. og 24. fundi Alþingis sem haldnir eru hér í dag, þar sem um er að ræða a.m.k. fjórar fsp. og eitt mál um þessa minnihlutahópa, sem bendir til þess að nú sé kominn tími að áliti alþm. til að beina kröftum sínum meira inn á vettvang þessa fólks.

Ég minnist þess, þegar ég sat á þingi stuttan tíma í árslok 1974, að ég flutti nokkrar brtt. við fjárl. sem voru á þann veg að meira fjárframlag kæmi úr ríkissjóði til einstakra hópa, m.a. vangefinna, þroskaheftra og fleiri slíkra hópa, og ég man hvað ég varð undrandi þegar ég horfði á meiri hluta Alþ. fella allar þessar till. við atkvgr. Ég hugsaði þá á eftir að mikið þyrfti að skýra betur út fyrir þeim mönnum, sem á Alþ. sætu, hve gífurleg vandamál hér væri um að ræða og hvað það væru margir einstaklingar sem færu varhluta og stæðu illa í lífsbaráttu sinni fyrir það að hér á Alþ. væri lítill skilningur á málefnum þeirra.

Það hefur allt of lengi ríkt á Íslandi áhugaleysi um þá sem eru sjúkir eða hafa á einn eða annan veg verri möguleika til lífsafkomu heldur en þeir sem heilbrigðir eru. Það speglast oft í ræðum manna og riti barátta fyrir þeirri stétt sem við köllum millistétt og ræður ríkjum á hinum almenna vinnumarkaði, en um leið gleymast málefni þeirra sem hafa ekki þennan sama möguleika og eru jafnvel sjúkir, komnir um aldur fram, hafa skilað sínum vinnudegi eða eru ungir og þurfa á ýmissi aðstoð að halda til þess að ná því markmiði í lífinu að geta orðið nýtir þjóðfélagsþegnar þegar þeir hafa aldur til.

Ég minnist þess líka á þessum haustdögum þegar ég var hér á þingi, að það kom til mín ung kona, sem átti þroskaheft barn, hér niðri í þingi og bað mig í guðs bænum að koma því á framfæri að sá hópur, sem tilheyrði þroskaheftum, væri í svo miklum vandræðum að það þyrfti endilega að reyna að koma því í gegnum fjárl. að þeir fengju meira fé úr ríkissjóði til sinna starfa, hæði til þess að auka möguleika þessa fólks til frekara náms og einnig til að aðstoða þá, sem að þeim standa, til að geta gert betur fyrir þessa einstaklinga sem sjúkir eru. Hún vitnaði til stjórnarskrárinnar og sagði: Það gerist hvergi nema á Alþ. að breyting verður á högum þessara einstaklinga, því það eruð þið sem eruð ábyrgir fyrir því að svo er ástatt í þessu þjóðfélagi að þetta fólk er meira og minna út undan og það gleymist, það er ekkert fyrir það gert eða mjög takmarkað. Þar verður að verða breyting á og hún verður að koma frá Alþingi. — Þetta var rétt, því að á Alþ. fara fram atkvgr. og ákvarðanir eru teknar um það hvernig þessu fólki á að liða í framtíðinni og hvernig verður að því búið. Ég vitna til heimsóknar þessarar konu til að leggja áherslu á að hún var fulltrúi margra sem þurfa sannarlega á þessari aðstoð að halda. Hún er nú komin í fremstu röð baráttufólks fyrir hag þessa fólks, og ég vonast til þess að núna í framhaldi af þeim áhuga sem nú ríkir á Alþ., sjái þetta fólk fram á bjartari daga þar sem alþm. sýni þessu fólki meiri skilning og séu tilbúnir að takast á við þann vanda sem þetta fólk býr við.

Ég fagna þessari till. og ég vonast til að við sjáum fleiri slíkar áður en langt um liður og allt fari í þann farveg að byggja betur í haginn fyrir þetta ágæta fólk.