24.11.1976
Neðri deild: 14. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það er fjarri mér að hafa nokkuð á móti því að þetta frv. fái að ganga fram hér í okkar hv. d., og ég mun verða stuðningsmaður þess að svo geti orðið. En ég get ekki orða bundist, þegar þetta mál er á dagskrá hér, eins og það hefur verið mikið á dagskrá í okkar þjóðlífi að undanförnu, að ekki skuli vera minnst á það sem ég hef leyft mér að kalla hér heima, hjá okkur á Fróni dagvistunarheimili aldraðra. Ég fæ ekki séð annað en öll þau rök, sem koma fram í sambandi við dagvistunarheimili barna, eigi við dagvistunarheimili fyrir aldraða sem ekki hafa þekkst nema í litlum mæli hér hjá okkur á Íslandi. Það má segja að það séu tvö sveitarfélög sem þar hafa nokkuð haft forgöngu um, þ.e. Reykja víkurborg og Kópavogur, og nú það nýjasta, sjómannasamtökin, sem eru að koma upp fullkomnu slíku heimili, byggðu á því nýjasta sem þekktist í Vestur-Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum, sem er og verður staðsett í Hafnarfirði og þá fyrir fleiri en eitt sveitarfélag, mörg sveitarfélög.

Ég geri ráð fyrir því, að ef við ekki. miðum við einstæða foreldra, þá sé oft og tíðum verra að koma frá sér til dvalar yfir daginn, jafnvel þegar fólk vill hafa gamalt fólk heima hjá sér, foreldra, afa og ömmur, þá sé verra að koma því til umönnunar hjá nágrönnum eða tengdafólki heldur en ungum börnum. Ég geri ráð fyrir því að allir, sem til þekkja, viðurkenni þessa staðreynd. Ef við hins vegar gætum komið því til leiðar að slík dagheimill yrðu líka til, ekki aðeins hér í þéttbýlinu, heldur um allt land, þá mundum við vinna nákvæmlega það sama og við erum að reyna að vinna og teljum að sé röksemd með dagvistunarheimilum fyrir börn, að ef á þarf að halda getum við komið okkar aldraða fólki fyrir á slíkum heimilum frá morgni til kvölds. Það fær alla þá þjónustu, hvíld, læknismeðferð og annað, sem á þarf að halda, meðan það dvelur þar. Og það fólk, sem vill þá fara og vinna að beinum framleiðslustörfum, fer til þeirra starfa að morgni og tekur svo gamla fólkið að kvöldi þegar það kemur heim.

Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa haft nærri tveggja áratuga reynslu af byggingu húsrýmis yfir gamalt fólk, og meðan ég hef verið formaður í þeim samtökum, sem ég er í, hefur okkur tekist að taka í notkun yfir 300 rými fyrir aldraða sem koma að morgni, en fara heim að 87–90 til viðbótar, auk þess sem við ætlum að vera þar með rými fyrir 60–70 jafnvel 80 aldraða sem koma að morgni, en fara heim að kvöldi, og fá alla þjónustu. Ég hef lengi haft þá staðföstu skoðun, eftir að ég kynnti mér þetta bæði austan hafs og vestan, að þetta gæti kannske verið stærri og meiri hjálp fyrir ýmsa staði úti um land heldur en jafnvel að fara út í byggingu elliheimila sem eru ákaflega dýr í rekstri. En þarna mundi tvennt verða unnið: Það er séð fyrir gamla fólkinu. Það fær alla þá þjónustu sem það þarf að fá yfir daginn. Fólkið, sem vill hafa það heima hjá sér, börn og jafnvel barnabörn eða annað skyldfólk, sér um að koma fólkinu á morgnana, veit að það hefur örugga og góða aðstoð á þessum heimilum og nær í það að kvöldi, og það nýtur þá heimilisánægjunnar þegar heim kemur að kvöldi og að sjálfsögðu yfir helgar.

Ég las fyrir nokkrum dögum ákaflega frambærilega og vel unna grg. frá einu stærsta verkakvennafélagi hér á Íslandi, Verkakvennafélaginu Framsókn, sem það félag ætlar að leggja fyrir næsta Alþýðusambandsþing og fjallar eingöngu um dagvistunarmál barna. Og auðvitað að því gefna tilefni vil ekki vera að blanda þessum skoðunum mínum inn í það. Ég tel um bæði þetta frv. hér og skoðanir þeirra kvenna og manna, sem telja t.d. til einstæðra foreldra, að það beri að stuðla að hinu besta fyrir þá og því vil ég ekki blanda hinu málinu inn í. Ég vil samt sem áður hér á Alþ. nú vekja athygli á þessu máli og vænti þess að það verði möguleiki á að fá þm. úr öllum flokkum til þess að sameinast um þetta nauðsynjamál sem ég tel vera og er ekki aðeins til hags fyrir okkar aldraða fólk, heldur líka til hagsbóta fyrir sveitarfélög, fyrir heimili sem vilja hafa sitt gamla fólk hjá sér, og að við getum komið þessu máli á einhvern hátt inn í íslenska löggjöf til hjálpar sveitarfélögum og öðrum sem vilja standa að þessu fyrir gamla fólkið, að við getum þá ætlast til og fengið einhvern stuðning frá hinu opinbera til þess. En auk þess, virðulegi forseti, mæli ég persónulega með þessu frv., að það nái fram að ganga, en vænti þess hins vegar að hv. þm. fáist til þess að lita á hitt vandamálið einnig á næstu vikum.