18.10.1976
Neðri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

12. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. til I. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála er fylgifrv. með því frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins, sem atkv. voru greidd um áðan. Þetta frv. var einnig lagt fyrir síðasta Alþ. Þá voru í því aðeins þær breyt. á meðferð opinberra mála sem segja mátti að væru óhjákvæmileg afleiðing af frv, um rannsóknarlögreglu. En þetta frv. var ásamt síðast nefndu frv. sent til réttarfarsnefndar. Hefur hún farið yfir það og þær umsagnir sem borist höfðu, og hún hefur valið þann kost að semja þetta frv. upp á nýtt þannig að það hefur bæst nokkuð við efni þessa frv. frá því sem var í fyrra. Má segja að ekki séu teknar í frv. aðeins þær breyt., sem óhjákvæmilega leiðir af samþykkt frv. um rannsóknarlögreglu, heldur einnig aðrar breyt. á l. um meðferð opinberra mála sem réttarfarsnefnd hefur talið að athuguðu máli að horfðu til bóta. Ég bendi á að þeim greinum í þessu frv., sem þannig er ástatt um, er annaðhvort breytt frá því, sem áður var, eða hefur verið skotið inn, t.d. 5. gr., 12. gr., 14. gr., 15. gr., 20. gr., 24. gr. og 29. gr. En það er ekki hægt að fara út í það hér að gera grein fyrir þessum breyt. nema bera þær saman við lögin eins og þau eru nú. Geri ég ráð fyrir að það geri hv. n. sem fær málið til meðferðar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa hér fleiri orð um þetta frv., en leyfi mér að óska eftir að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.