25.11.1976
Sameinað þing: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á því, þó að það komi ekki þessu máli við, að þakka hæstv. forseta þær skýringar sem hann gaf hér á fjarveru minni s.l. þriðjudag. Jafnframt vona ég að frá því verði skýrt eins og hinu, að ég var þá að gegna skyldustörfum, en ekki fjarverandi að ástæðulausu. Ég vil líka segja það, að það gleður mig stórum að það skuli vekja athygli að ég skuli hafa eytt 5 dögum á þessu ári í utanlandsferðir í embættiserindagjörðum, það sé með mér fylgst og mín saknað ef ég er ekki við.

Út af till. þeirri á þskj. 40, sem hér er til umr., vil ég að sjálfsögðu koma að nokkrum skýringum og umr. í sambandi við þetta mál. Í þessu sambandi vil ég minna á það, að stuttu eftir að ég tók við starfi samgrh., eða í sept. 1974, lagði ég fyrir vegamálastjóra að gera athugun á því hvaða vegir eða vegkaflar væru um landið almennt sem hægt væri að leggja á varanlegt slitlag án þess að þeim væri breytt frá því sem nú er. Það sem ég lagði áherslu á í þeirri athugun var vegurinn frá Hvolsvelli vestur um land til Akureyrar. Þetta kemur fram í ræðu sem ég hélt 11. des. 1974 og er í 6. hefti þingtíðinda frá því ári, nánar tiltekið í 664. dálki og þar áfram til 671. Í þessari ræðu minni kemur fram að það séu þá þegar þó nokkrir vegakaflar sem sé hægt að leggja varanlegt slitlag á án þess að gera nokkuð frekar til undirbúnings þeim vegum sem þar er um að ræða.

Ég get jafnframt getið þess, að í þessari till. minni til vegamálastjóra um beiðni um athugun á vegum var einnig tekið fram að athuga um gerð góðra vega á leiðinni frá Hvolsvelli austur um land, og þar var nefnt Mýrdalssandur, Eldhraun, Breiðamerkursandur, Hvalnes og Þvottárskriður.

Skýrsla kom frá vegamálastjóra um það, hvað mikið væri af vegum og vegaspottum sem mætti leggja á varanlegt slitlag eins og þeir þá voru, og enn fremur kostnaður við að gera þessa vegi með varanlegu slitlagi frá Hvolsvelli vestur um land alla leið til Akureyrar og enn fremur við vegagerðina austur með þeim hætti sem þar var talað um.

Hér er því ekki á ferðinni nýtt mál, heldur áframhald af þessu, og satt að segja er það mín skoðun að það sé rétt að farið að leita eftir vilja Alþ. um ákvörðun í þessu máli.

Ég vil líka taka það fram — og skal þó koma betur að því síðar — að frá mínum bæjardyrum séð er ekki um það að ræða að þessi till. stangist á við till. á þskj. 62, nema síður sé. Skal ég víkja nokkru nánar að þessu.

En það sem mér finnst mestu máli skipta og mestu máli skiptir er hinn almenni áhugi hv. þm. á vegagerð í landinu. Það er mín skoðun, eins og ég hef oft lýst yfir áður, að við séum lengra á eftir í vegaframkvæmdum, samanborið við aðrar þjóðir, heldur en við erum í öðrum almennum framkvæmdum, og við þurfum að gera þar stærra átak en gert hefur verið, þó að því megi ekki gleyma að mikið hefur verið gert, því að við búum í strjálbýlu landi og okkur hefur tekist að vega það með nokkuð verulegum hætti, þó betur megi ef duga skal.

Í sambandi við varanlegt slitlag á vegum vil ég geta þess, að enda þótt það lægi fyrir árið 1974 hvaða vegakaflar það væru sem væri hægt að leggja á varanlegt slitlag, þá hafa þeir aukist og lengst síðan þá. Þess vegna eru möguleikar til að leggja það nú á fleiri staði en þá var fyrir hendi.

Í þeirri athugun, sem gerð var 1974 og miðaðist fyrst og fremst við hringveginn, kemur í ljós að það var þá hægt að leggja varanlegt slitlag á 640 km, en þá var eingöngu miðað við vegakafla sem voru 5 km eða lengri, þeir einstakir vegakaflar, sem voru styttri en það, voru ekki taldir með. En ef þeir hefðu verið taldir með, þá hefði verið um 750 km að ræða.

Þessum tölum til hækkunar eru svo hliðarvegir sem teknir eru með. Má nefna dæmi að á Vestfjörðum eru kaflar um 100 km samanlagt sem hægt væri að leggja slitlag á án endurbyggingar frekar en orðið er.

Þó skal það tekið fram, að því lengur sem dregst að leggja slíkt slitlag á vegina verður undirbúningurinn hlutfallslega meiri þar sem árlega eyðist mölin á yfirborði þeirra. Þess vegna held ég að hv. þm. verði að hafa það í huga, að það er ekki beinn hagnaður að því að draga það að leggja varanlegt slitlag á vegi sem búið er að undirbyggja með þeim hætti að það væri hægt að gera. Með hverju ári sem líður og umferðin er jafnmikil og nú er orðið, þá hlýtur að fara svo að það verður ekki hægt að hagnýta sér þessa möguleika, heldur verður að betrumbæta vegina áður en slitlagið er lagt.

Ég vil líka segja það sem mína skoðun, að ég lit svo á að það sé ekki hægt að hugsa sér að fjölförnustu vegunum sé hægt að halda við án þess að leggja þá varanlegu slitlagi. Það var orðið svo hér í kringum Reykjavík, áður en það var gert, að þeir vegir voru að mátti heita ókeyrandi. Það var ekki hægt að halda veginum í Mosfellssveit við sem malarvegi eða veginum austur fyrir fjall vegna þess hvað umferðin var orðin mikil, og hefur þó umferðin aukist geysilega mikið síðan og sérstaklega það, að bílarnir hafa stækkað mjög verulega.

Það er því skoðun mín að nauðsyn beri til að koma þessu máli í framkvæmd sem hér er verið að ræða um. Það er ekki mitt mat að það eigi að þýða það að draga þurfi úr öðrum vegaframkvæmdum heldur þýðir það aukið fjármagn, því eins og nú er um fjármagn til vegaframkvæmda verður ekki mikið slitlag lagt á vegi, það er ljóst. En það er líka ljóst að ef ekkert er frekar fyrir þessa miklu umferðarvegi gert, þá hlýtur það að leiða til þess að viðhald á þeim vegum verður gífurlega mikið. Og okkur er það ljóst, hv. þm., að við getum ekki haldið vegaviðhaldinu í jafnlágri tölu fjárhagslega og við höfum gert undanfarandi ár, vegna þess að vegirnir þola ekki svo lítið viðhald.

Ég vil þá víkja að því, eins og ég gat um áðan, að ég lit ekki svo á að till. á þskj. 62 sé andstæða þessarar till. Hún gengur síður en svo í berhögg við hana, að mínu mati, heldur er hér um tvo hætti að ræða í vegagerð landsmanna. Annars vegar er varanlegt slitlag á þá vegi sem mest umferð er á og ekki verður hægt að halda við með venjulegum malarvegum. Hins vegar er um það að ræða að endurbyggja þá vegi þar sem um mikinn snjóþunga er að ræða og ekki er hægt að halda opnum leiðum nema byggja vegina upp þannig að þeir séu ekki eins snjósæknir og þeir eru nú.

Ég álít að með þeim framkvæmdum, sem gerðar hafa verið á s.l. sumri á Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði að einhverju leyti, hafi einmitt þessari stefnu verið fylgt. Þar er verið að vinna að því að ná upp þeim köflum sem liggja undir mestum snjó á veturna og það er mat okkar þm. og þeirrar n., sem vinnur að framkvæmd þess máls, að það séu ákveðnir kaflar sem þar séu verstir, og það hefur verulega áunnist í því að hækka þá á yfirstandandi sumri. Og ég vonast til þess að það muni sýna sig á þessum vetri. Að vísu vil ég vonast til þess að hann verði snjóléttur, það væri nú það besta, almennt um landið séð. En að hann verði svo snjóléttur að það reyni ekkert á Holtavörðuheiði, því hef ég ekki mikla trú á. En þá held ég að þegar á fyrsta ári muni sýna sig árangur af þessari viðleitni.

Hins vegar er það ljóst að áfram verður að halda á þeim stað og viðar til þess að ná þeim árangri sem þarna er stefnt að, eins og ég tel að till. á þskj. 62 stefni að, og hún þurfi því ekki að vera í andstöðu við þá till. sem hér er um að ræða. Það, sem um er að ræða í þessu sambandi, er að fjármagn þarf til að leysa hvora tveggja þættina í vegamálum sem hér um ræðir.

Ég vil líka segja það í sambandi við slitlagið á fjölförnustu vegina, að það er mjög erfitt að halda þeim við sem malarvegum svo viðunandi sé og það mundi spara stórfé á rekstri bifreiða að leggja þá slitlagi. Auðvitað gildir það sama hvar sem er á landinu, að sparnaður er fyrir bifreiðaeigendur að aka á bundnu slitlagi. En eflir því sem umferðin eykst verður þessi sparnaður þýðingarmeiri. Reynslan hefur sýnt að sparnaður við að aka á varanlegu slitlagi er um 20% miðað við malarslitlag. Samsvarar það kr. 6.40 á ekinn km fyrir venjulega fólksbifreið sé miðað við kostnað sem bíla- og vélanefnd reiknar út og er ekki ofreiknað. Þetta samsvarar því að á vegi, sem um 1000 bílar fara um á dag, mundu bifreiðaeigendur samtals spara á einu ári 2.4 millj. kr. á hvern km þessa vegar ef á hann væri lagt slitlag.

Hér er því um svo mikið hagsmunamál að ræða að ekki verður hjá því komist að gefa því gaum. Ég vil því segja það, að ég tel að nokkuð þurfi á sig að leggja til þess að leysa úr vegamálunum í þessum þáttum báðum og sé réttlætanlegt að gera það með lántöku og erlendu fé, þar sem um beinan gjaldeyrissparnað er að ræða í sambandi við eyðslu á bílunum. Það orkar ekki tvímælis að það má alveg eins réttlæta það eins og að taka lán til gatnagerðar í þéttbýlisstöðum, svo sem gert hefur verið. Hvort tveggja þjónar sama tilgangi, að bæta aðstöðuna og spara gjaldeyri í sambandi við umferðina.

Það er því ekkert álitamál af minni hendi að framkvæmdir í vegagerð á þann veg, sem till, á þskj. 40 gerir ráð fyrir, eru nauðsynjamál sem ber að styðja að.

Nú skal ég ekki í þessari ræðu minni fara út í það hversu öruggar þær tölur eru sem hv. fyrri flm. nefndi hér, því ég hef ekki átt þess kost að fá þær athugaðar á stofnunum sem ég hef leitað til. En ég er ekki alveg öruggur með útreikninga hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, þó að vel megi vera að þær tölur séu nokkuð nálægt lagi. En það er líka matsatriði hvernig með slíkt skal farið.

Út af þátttöku ríkissjóðs í vegagerðinni er það að segja, að lengi vel vann ríkissjóður einn að því að leggja fé til vegagerðar vegna þess að þá voru ekki komnar til tekjur af umferðinni sem nokkru nam, fyrr en nú á síðustu árum og áratugum. Hins vegar finnst mér að það sé alltaf álitamál þegar talað er um tekjur af umferðinni. Ég tel að ég hafi þegar ég var í stjórnarandstöðu, haldið mig við að það, sem miða ætti við, væru þær tekjur sem væru sérstaklega teknar af bifreiðaumferð, ekki almennir skattar eða tollar, heldur sértekjurnar. Það er bensíngjaldið, sem er sérgjald, þungaskatturinn, og það má einnig segja að það sé leyfisgjald af bifreiðum, að þar sé um sérskatta að ræða. Hins vegar skal á það bent, að þegar leyfisgjaldið var upp tekið aftur, þá var tekin upp sú stefna að láta ríkissjóð greiða almennt afborganir og vexti af lánum sem tilheyrðu vegamálunum, en Vegasjóður hafði áður greitt. Þessi fjárhæð mun verða á árinu 1977, að því ég best velt, um 1100 millj, kr. Á þetta ber að sjálfsögðu að líta þegar út í þennan samanburð er farið.

Ég vil hins vegar taka það fram, að mér er alveg fullkomlega ljóst að brýna nauðsyn ber til að útvega aukið fé til vegagerðar frá því sem nú er ætlast til og raunverulega ekki nokkur leið að komast af með þá fjárhæð sem er inn í fjárlagafrv. Það er alveg vonlaust að minni hyggju.

Það mun því verða athugað nú, áður en gengið verður frá þessum málum, hvernig hægt er að mæta þeim þörfum sem þarna eru á ferðinni. Mér finnst að það sé eðlilegt að tekin verði inn í vegáætlunina sjálfa áætlun um þá sérstöku þætti vegamálanna sem hér hafa verið sérstakar till. bornar fram.

Hitt er svo alveg ljóst, að það verður ekki hjá því komist að auka verulega framlag til viðhalds á þjóðvegum frá því sem verið hefur. Það verður ekki hægt að ganga á liðinn til nýbygginga eða til að betrumbæta þjóðvegina frá því sem þeir eru nú. Þess vegna verður nýtt fé þar til að koma.

Ég vil líka taka undir það sem fram kom í ræðu hv. fyrri flm. áðan, að það er ekki hyggileg stefna að ganga að þessum tveim verkefnum hvoru í sínu lagi, þannig að ljúka öðrum þættinum alveg fyrr og skilja hinn eftir. Ég held að það væri vafasöm ráðstöfun atvinnulega séð að leggja allt í vegi á snjóasvæðum, þangað til það verkefni væri á enda og söðla þá yfir í varanlegt slitlag. Ég held að þetta mundi koma illa út frá sjónarmiði þeirra sem eiga tæki til vegagerðar, bæði vélar og bila, og þess vegna sé nauðsynlegt að vinna strax að þessum verkefnum báðum. Það er langbesta nýtingin á vélakosti og mannafla að gera þetta jöfnum höndum. Það er líka svo, að það er misjafnt hvað hentar hinum einstöku héruðum. Mér fannst t.d. skynsamleg stefna, sem mörkuð var á Fjórðungsþingi Vestfirðinga á s.l. sumri, þar sem þeir töldu að brýnasta þörf þeirra í vegamálum væri að bæta samgöngukerfið innbyrðis á milli staðanna innan Vestfjarða og þeir yrðu að láta það ganga fyrir vegagerð út úr héraðinu. Ég álit að þessi stefna sé skynsamleg og þess vegna eigi þetta við á einum stað þótt það eigi ekki við á öðrum.

Ég vil líka benda á það í sambandi við malarvegina, að það er viða að verða nokkuð alvarlegt áhyggjuefni hvað malartekja eða malaröflun er að verða dýr og erfið, ekki síst á þeim stöðum þar sem umferðin er mest. Það er farið að leggja geysilega mikla fjármuni í að vinna mölina áður en hún er orðin nothæf í vegi, og það mun vera víða svo, að það verður að keyra alllangt til þess að ná í mölina til að bera megi í vegina. Þetta þarf að hafa í huga. T.d. þarf að aka möl austan frá Eyjafjöllum vestur undir Hvolsvöll, og á Mýrum sunnanverðum er enga nothæfa möl hægt að finna lengur. Þessu held ég að hv. þm. verði að gera sér grein fyrir. Og eftir því sem við höldum lengra á þeirri braut að nota malarvegina eingöngu þar sem umferðin er mest, eftir því lendum við í meiri hættu á að malartekja þrjóti, og þá verður of dýrt fyrir okkur viðhald á þeim vegum sem eðlilegt er að séu malarvegir þegar þannig er komið.

Þess vegna er það von mín að hv, þm. líti á þessi mál í heild, og það er alveg augljóst að við getum ekki gert það átak, sem hér er ætlast til, með þeim peningum sem við höfum nú til vegagerðar. Að því þarf ekki að eyða neinum orðum, það er óframkvæmanlegt. Það sem við verðum því að gera okkur grein fyrir, er hvernig við getum leyst fjárhagsþátt málsins. Það er það sem skiptir meginmáli, því að verkið er nauðsynlegt að vinna og því fyrr því betra. Ég treysti því að hv. nm., sem fá þessa till. til umfjöllunar og þá till. aðra sem hér er vitnað til, muni líta á þetta með fullum rólegheitum og fari ekki í meting á milli héraða, því að það hentar ekki, eitt getur hentað þessum og annað hinum. Hinu má þó ekki gleyma, að hringvegurinn er fyrir okkur alla, og breytir þar afskaplega litlu hvar við erum búsettir, nema þeir sem eru hér á Reykjanessvæðinu, því að vöruflutningarnir fara svo mikið fram með þeim hætti að vegirnir verða að þola þá. Þess vegna er það, sem verður vandamálið í sambandi við þetta mál, með hvaða hætti við getum náð í fjármagn til þess að leysa úr vegamálum okkar almennt, því að til þess ber brýna nauðsyn og það er það sem við þurfum að gera.

Ég vil svo segja það að lokum, að ég hefði talið eðlilegt að árafjöldinn í þessu sambandi væri 1216 ár, miðað við að vegáætlanir giltu í 4 ár, það fylgdi því, enda mun þessi þáttur ganga inn í vegáætlunina ef samþykktur verður, sem ég vona. En ég endurtek það, að ég tel að brýna nauðsyn beri til að leggja varanlegt slitlag á þá vegi og vegarkafla þar sem hægt er að koma því við. Og við eigum að hagnýta okkur það sem orðið er af slíku, sem er viða um landið, — við eigum að hagnýta okkur það að leggja einmitt varanlega slitlagið meðan vegirnir eru í því ástandi að það sé hægt, en ekki að biða eftir að við verðum að fara að byggja þá upp á nýjan leik áður en það verður gert. En jafnhliða þessu vil ég leggja áherslu á það, að brýna nauðsyn ber til að vinna með auknu fjármagni að vegamálum í landinu því að þar eigum við svo mikið ógert að það verður að koma í forgangsröð og hefur eins og raforkan og hitaveitan veruleg áhrif í okkar gjaldeyrismálum.