25.11.1976
Sameinað þing: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér á ný hljóðs um þá þáltill. sem hér er til umr. í hv. Sþ., er fyrst og fremst sú, að í upphafi ræðu sinnar komst Ólafur G. Einarsson, hv. 5. þm. Reykn., að orði eitthvað á þá lund, að misskilnings hefði gætt í máli mínu hér í hv. Sþ. fyrir nokkrum dögum, þar sem ég hefði rætt um þá till., sem hér er til meðferðar, og aðra till., sem raunar hefur ekki ennþá verið talað fyrir, og ég talið að þær gengju hvor gegn annarri. Þetta sagði ég ekki og er svo heppinn að það er búið að prenta það sem var talað á þessum fundi, en orðrétt sagði ég — með leyfi hæstv. forseta — þessi orð:

„Það hlýtur að vera vottur um mikinn áhuga á vegamálum að á dagskrá þessa fundar eru tvær þáltill. um vegamál sem raunar eru báðar á sinn hátt stefnumarkandi, en ganga nokkuð hvor í sína áttina.“

Ég tel mjög mikinn mun á því, hvort tvær till. ganga hvor í sína áttina eða ganga hvor gegn annarri. Það er alger grundvallarmunur á þessu. Ég sé ekki að það þjóni neinum tilgangi í sjálfu sér að fara að reyna að vekja hér upp þá skoðun í sölum Alþingis, að það sé einhver geysilegur ágreiningur um hvort það sé heppilegt að leggja bundið slitlag á vegi eða ekki.

Vegna þess sem fram kom í ræðu sama hv. ræðumanns, Ólafs G. Einarssonar, — ég gat ekki betur skilið hann en að ég væri að mæla á móti því að lagt væri bundið slitlag á vegi, — vil ég — með leyfi hæstv. forseta — endurtaka annan smákafla úr ræðu minni sem var á þessa lund:

„Meðan svo er ástatt í hinum almennu samgöngumálum okkar á landi, í vegamálunum, þá finnst mér ekki aðeins eðlilegt, heldur sjálfsagt að höfuðáhersla sé lögð á að bæta ástandið þar sem það er lakast.“

Þetta þýðir ekki að við eigum að hætta að leggja bundið slitlag á vegi, og ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt, að það er stórkostlegt framtíðarmál að svo sé gert. Enn fremur lét ég þess getið að það, sem þarna væri um að ræða, væri að mínum dómi fyrst og fremst á hvað bæri að leggja aðaláherslu eins og nú standa sakir. Og ég er óbreytt þeirrar skoðunar, að meðan jafnmargir búa við jafnófullkomið vegasamband og raun ber vitni, þá beri okkur fyrst og fremst skylda til þess að leysa vanda þeirra manna, — fyrst og fremst skylda til þess, svo fremi sem við höfum hug á því að halda áfram að byggja landið allt.

Hv. 5. þm. Reykn. sagði líka eitthvað á þá leið, að hann hefði skilið mál mitt þannig og kannske fleiri hv. alþm., að hann ætti ekki að vera að skipta sér af vegamálum í þeirra heimahéruðum, heldur væru þeir menn til þess að gera það sjálfir. Ég vil ekki meina að ég hafi gefið tilefni til þessara orða. Og í öðru lagi vil ég gjarnan taka það fram, að í þeim tölum, sem ég nefndi hér í sambandi við það hvar væru lökustu vegirnir á landinu, nefndi ég enga röksemdafærslu. Ég sagði aðeins frá ákveðnum staðreyndum og dró ekki ályktanir þar af. Þess vegna eru það hugmyndir hv. þm. sjálfs sem ráða því, hvað hann álítur að hafi búið að baki þessara orða. Þau voru raunar aðeins sögð eða hugsuð til sönnunar því, — vegna þess að till., sem hér hefur verið vitnað til og ekki hefur enn þá verið talað fyrir, fjallar um uppbyggingu vega í snjóþyngri héruðum landsins, — að það er ekki að ástæðulausu að miðað er við þau héruð, því að það er ekki einungis að þar valdi snjór mestum erfiðleikum, heldur eru þar langlengstir vegarkaflar sem eru þannig úr garði gerðir að þeir verða illfærir hvort heldur sem er í snjóum eða aurbleytu. Þess vegna, í samræmi við það sem ég sagði áðan, finnst mér eðlilegt að það sé tekið með mestum myndarskap á verkefnunum þar sem þau eru stærst og að vísu kannske stundum erfiðast að leysa þau.

Þá kom það einnig fram hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, að hann sagði að ég hygg orðrétt: „Vegur með meiri umferð hlýtur því að ganga fyrir þeim vegi sem hefur litla umferð“. Það er auðvitað auðvelt að finna viss rök sem mæla með því að menn taki sér svona orð í munn. Og ég get fullkomlega fallist á það, að ef við erum að byggja tvo 10 km kafla af allgóðum vegi, þá sé eðlilegt að sá vegarhlutinn sitji fyrir sem hefur meiri umferð. Það er skiljanlegt. En það þarf ekki að vera að sama skapi eðlilegt, að það skuli byggja veg af bestu gerð fyrir þann, sem hefur meiri umferðina, og láta veginn ógerðan hjá hinum, sem hefur minni umferð, eða næstum ógerðan, eins og mikill hluti af íslensku vegakerfi er í dag ef miðað er við vetrarumferð. Í þessu finnst mér vera raunar grundvallarskoðanamunur á milli okkar Ólafs G. Einarssonar. Ég er þeirrar skoðunar að við séum komnir nógu langt í vegagerð til þess að við hljótum að leggja aðaláherslu á það nú um sinn að bæta úr undirstöðuþörfunum, koma til móts við það fólk í landinu sem gerir einfaldlega þá kröfu til þjóðfélagsins að það séu lagðir vegir sem séu nokkurn veginn færir ökutækjum allan ársins hring. Það, sem við erum að reyna að segja, er aðeins það, að meðan svo mikið er ógert til þess að leysa þennan þátt verkefnisins, þá þurfi að leggja höfuðáherslu á þann þáttinn. En mér dettur ekki í hug að halda því fram að það eigi að leggja hinn þáttinn niður. Og áreiðanlegt er að við, sem búum í stórum, mjög viðáttumiklum kjördæmum með geysilöngu vegakerfi, hlökkum sannarlega ekki síður til þess að fá malbik eða steinsteypu undir hjólin á bílunum okkar heldur en þeir sem flesta daga þurfa ekki að fara nema tiltölulega mjög skamman veg um þjóðvegi. Það er síður en svo. Og ég vil ekki gera lítið úr því að þetta er nauðsynlegt framtíðarverkefni. Hér er þess vegna í reynd þegar við ræðum um þessi mál, þó að till. gefi ekki sams konar tilefni til þess báðar, þá er hér í reynd verið að tala um mismunandi röðun verkefna.

Mig langar til að endurtaka það sem ég sagði hér áðan, af því að hæstv. samgrh. er nú staddur hér, — ég held að hann hafi ekki heyrt mál mitt áðan. Ég gat þess að ég teldi ekki rétt með mín orð farið áðan í ræðu hv. 1. flm. þáltill., þar sem hann sagði að till. okkar gengju hvor gegn annarri að mínum dómi. Ég sagði það alls ekki, heldur að þær gengju nokkuð hvor í sina áttina, og þetta er hægt að lesa í síðasta hefti þingtíðinda. Og það vil ég fyllilega standa við, þær ganga nokkuð hvor í sina áttina. Þær ganga alls ekki, eins og líka samgrh. tók fram, hvor gegn annarri.

Þá langar mig að lokum til þess að taka undir það sem kom fram hjá hæstv. samgrh., að við þurfum meira fjármagn í vegina. Það er okkur ákaflega brýn nauðsyn. Og ég efast um að önnur fjárfesting sé nú hagkvæmari í landinu heldur en skynsamleg fjárfesting í vegagerð. Ég get fullkomlega efast um það. Ég vil raunar taka fram, af því að það kom fram í umr. um daginn og raunar nú líka að hæpið væri að taka erlend lán til vegagerðar, að ég hygg að einmitt vegagerð sé meðal þeirra framkvæmda sem verjandi sé að taka erlend lán til, m.a. vegna þess að vegagerð, sé rétt á haldið, er mjög gjaldeyrissparandi. Og eftir þeim upplýsingum, sem komu fram hjá hæstv. samgrh. um að það væri 20% ódýrara að aka á malbikuðum vegi heldur en malarvegi, þá segir þetta í sjálfu sér allmikla sögu. Þetta er þó ekki miðað við það að vegirnir séu með 30 eða 50 eða 70 cm þykku snjólagi ofan á sér eða þeir séu svo sundurgrafnir af malarleysi að venjulegar jeppabifreiðar dragi kúluna sem kallað er, heldur að þetta séu sómasamlega sléttir malarvegir. Ég hef ekki reiknað þetta dæmi út. En ef þetta munar rúmum 6 kr. á km, 6.40, þá sjáum við að það munar um 64 þús. kr. á ári hjá manni sem ekur bílnum sínum 10 þús. km og það þykir ekki sérstaklega mikill akstur.

Við erum stundum að tala um aðstöðumun í þessu þjóðfélagi, og hann er margvíslegur. Það er mikill aðstöðumunur þeirra, sem hafa lágar tekjur, og þeirra, sem hafa háar, og aðstöðumunur er margvíslegur. En einn stærsti aðstöðumunurinn kemur einmitt fram í sambandi við aðganginn að þjóðvegakerfi landsins, hvernig menn geta notað sér það til almennra samgangna. Og ég held, að það sé ákaflega vandalítið fyrir hvern mann að reikna það út hversu gífurlega miklu það munar mennina tvo, annan, sem hefur slétt malbikið undir hjólunum, og hinn, sem hefur mölina, ef það munar milli 60 og 70 þús. kr. að lágmarki, miðað við litla keyrslu á ári. En þó er það ekki þetta sem þeir, sem í dreifbýlinu búa, biðja fyrst um. Þeir biðja um að vera losaðir við þá erfiðleika og öryggisleysi og þann gífurlega kostnað sem stafar af því að vegirnir eru hálfófærir eða alófærir tímunum saman. Þetta vil ég að endingu leggja áherslu á. En jafnframt finnst mér rétt að geta þess, að það miðar mjög verulega áfram í þá átt að byggja vegina upp svo að þeir verði sæmilega vetrarfærir. Það munar mjög verulega áfram í þá átt og hefur gert það á undanförnum árum. Og eitt af því, sem veldur því að menn tala um nauðsynina á að byggja vegina upp og láta það verkefni sitja í fyrirrúmi fyrir því að leggja malbik á vegina, það er einfaldlega að það er hægt að komast svo miklu lengra fyrir sömu 100 millj. Í venjulegum uppbyggðum malarvegi heldur en í vandlega undirbyggðri hraðbraut með slitlagi. Og það er þetta sem við þurfum á að halda úti um hinar dreifðu byggðir, að vetrarfæru vegirnir verði lengdir og þeir nái til þess fólks sem þarf að nota þá á hverjum stað og hverjum tíma.