25.11.1976
Sameinað þing: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með þeim hv. þm. sem hér hafa talað og talið að hér væri hreyft merku máli. En mér datt í hug þegar ég sá þessa till. og sá hverjir að henni standa og ekki síður undir ræðum þeirra hv. flm., þá datt mér í hug heiti á leikriti sem ég sá ekki alls fyrir löngu og bar nafnið „Glataðir snillingar“. Mér datt það í hug vegna þess, að þessir hv, tveir þm. eru báðir stjórnarþm. og hafa staðið að því hér sem slíkir að skerða framkvæmdir í vegamálum um milli 40 og 50% á tiltölulega skömmum tíma, en geysast nú fram með þáltill.-flutningi, eins og hér ber raun vitni, um framkvæmdir í þessum málaflokki upp á marga milljarða nú á næstu árum, á sama tíma og þeir haga sér með þeim hætti sem þeir hafa gert á undanförnum tveimur árum. Ég er viss um að þessum hv. þm. tekst ekki, þó að leikurinn sé til þess gerður, að sannfæra almenning í landinu um að þeir séu hér miklir áhugamenn og raunsæismenn um framkvæmdir af þessu tagi, ef almenningur færi að skoða það sem gerst hefur í tíð þessara hv. þm. sem stjórnarliða í sambandi við vegaframkvæmdir, þannig að snilldin glatast hjá þeim í þessu tilfelli.

Ég vil ekki segja að þetta mál sé nein sýndarmennska. En mér þykir gæta allmikillar sýndarmennsku hjá þessum tveimur hv. þm, sem flytja málið, með tilliti til þeirrar reynslu, sem þeir hafa sýnt, og þeirra verka, sem þeir hafa að staðið í sambandi við vegaframkvæmdir sem ráðandi þm. innan stjórnarliðsins, að hafa hér lagt blessun sína yfir stórkostlegan niðurskurð í vegaframkvæmdum á stjórnartímabilinu. Það er sýndarmennska, nema þá því aðeins — og það er rétt að bæta því við strax — nema þá því aðeins að þeir ætli sér nú að söðla um, ef til þess vinnst tími að við þm. fáum að sjá væntanlega vegáætlun næstu fjögurra ára sem boðuð var hér í vor og átti að afgreiða nú fyrir n.k. áramót, en hefur ekki séð dagsins ljós enn, nema þeir ætli við afgreiðslu þeirrar vegáætlunar að bæta fyrir syndirnar með því að bæta um í sambandi við fjárútvegun og fjárveitingar til vegaframkvæmda í landinn. Ef þeir gera það, þá er rétt að hafa þann fyrirvara á um sýndarmennskuna, að þá má vera að það verði hægt að sannfæra einhverja um að þeir meini heilt í þessum efnum. (ÓE: Hvað með stuðning þm.?) Við till.? (ÓE: Já.) Ég er ekki alveg búinn enn, ég kannske kem að því síðar. Það er nægur tími til þess. En ég heyri að hv. þm. ólafi G. Einarssyni er farið að leiðast þetta umtal. Væntanlega verður það ekki til þess að ég fái glansmynd af mér í Mogganum fyrir þetta tal. þó að hann hafi fengið slíka mynd vegna tillöguflutningsins. En ég skal koma að því síðar, hvað er með stuðninginn við till. (Gripið fram í: Á þm. glansmynd?) Hæstv. fjmrh. sá fyrir því á sínum tíma að ég eignaðist þá mynd einmitt úr Mogganum, svo að það er eitt afrekið af mörgum sem hann hefur stuðlað að.

Ég skal segja hv. þm. Ólafi G. Einarssyni það strax, og ég sagði það raunar í byrjun, að hér væri gott mál á ferðinni, og ég hef alla tíð staðið að góðum málum, hver sem þau hefur flutt, og ég hygg að svo muni verða enn. En það þarf ýmislegt að upplýsast til þess að sá stuðningur sé falur, því að ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé frambærilegt að leggja framslíka þáltill. eins og þessa, þó um gott mál sé, nema því aðeins að það fylgi eitthvað raunhæft á eftir og það sé sýnt fram á að það sé vilji fyrir því og verði hægt að framkvæma það.

Bæði hv. þm. Ólafur G. Einarsson og hv. þm. Jón Helgason hafa lagt mikla áherslu á að það sé síður en svo þeirra meining með flutningi þessarar þáltill. að draga á nokkurn hátt úr öðrum framkvæmdum við vegi á tímabilinu. Þetta hafa þeir undirstrikað margoft. En burt séð frá því, þó að þessi till. hefði ekki komið fram og þó að ekkert fjármagn hefði farið til þessara hluta, þá er það eigi að síður staðreynd að samdráttur upp á milli 40 og 50% í vegaframkvæmdum hefur átt sér stað. Til þess að standa sig og halda áfram framkvæmdum í vegamálum í hinni gömlu mynd þarf að koma til aukið fjármagn til þeirra hluta, auk þess sem þarf þá að koma fé til þess að framkvæma það sem er áformað í þessari þáltill.

Ég var satt að segja að vona að hæstv. samgrh. legði nú eitthvað til mála í sambandi við það, að hv. þm. gætu gert sér grein fyrir því hvað yrði um framkvæmdir í vegamálum í framtíðinni. Og ég var satt að segja að vona að hann kæmi eitthvað inn á vegáætlunina, af því að hún á að afgreiðast fyrir jólaleyfi. En hann er einn af þeim sem eru sniðugir í því að komast fram hjá hlutunum í orðum — ég má kannske bæta við í gjörðum líka, og honum tókst í þessari ræðu sinni að víkja varla einu orði að vegáætlun, þó að það hefði í raun og veru verið það mál sem við hefðum átt að vera að ræða hér, en ekki þessi þáltill. eða einhver önnur í sambandi við vegamálin.

Það mun nú liggja fyrir að hæstv. ríkisstj. með hæstv. samgrh. í broddi fylkingar mun ekki ætla sér að afgreiða vegáætlun fyrir áramót, það mun vera ljóst, þannig að það verður vegáætlunarlaust frá og með áramótum ef fram heldur sem horfir, en þó er skylda að hafa í gildi fjögurra ára vegáætlun, eins og verið hefur á undanförnum árum, að undanskildu því sem gerðist í ár.

Ég vil segja það, eins og ég gat raunar um í upphafi, að þetta er gott málefni. En það er í mínum huga eins og líklega fleiri hv. þm. að hér er spurning um röðun framkvæmda, og ég er þeirrar skoðunar að ef ekki er hægt að afla fjármagns til þessa hvors tveggja í senn, þá eigi skilyrðislaust að láta ganga fyrir að koma upp vegakerfinu úti um landið þannig að það sé fært lengur en verið hefur og er, þ.e.a.s. með uppbyggðum vegum, þannig að það sé losnað við að þeir lokist lengri eða skemmri tíma yfir veturinn. Það eru til landshlutar sem eru lokaðir frá aðalþjóðvegakerfinu 7–8 mánuði á ári, eins og t.d. Vestfirðir. Og ég tel að það eigi fremur að leggja áherslu á að flýta framkvæmdum við þessa vegi, án þess að ég vilji hafa á móti því ef hæstv. ríkisstj. og hv. flm. þessarar þáltill. hafa á hendi og geta bent á leið til fjármögnunar til þess að framkvæma þetta sem hér er lagt til. Ég er alveg sömu skoðunar og hv. þm. Páll Pétursson, ég tel meira liggja við að koma vegamálunum úti um landið í það horf, að malarvegir séu þó færir lengri tíma úr árinu heldur en nú er, heldur en koma á þá bundnu slitlagi hvort sem það er olíumöl eða eitthvað annað.

Við stjórnarandstæðingar höfum verið gagnrýndir fyrir að flytja hér bæði þáltill. og frv. um útgjöld úr ríkissjóði, en benda ekki jafnframt á eða sjá fyrir tekjustofni til þess að mæta þessum útgjöldum. Hv. 9. landsk. þm., Sigurlaug Bjarnadóttir, veitti þeim tiltal, hv. flm. þessarar þáltill. þegar hún var hér síðast til umr., og sagðist ekki fella sig við að stjórnarþm. væru að flytja till. um auknar lántökur eða útgjöld án þess að séð væri fyrir tekjustofnum. Í grg. með þessari till. er bent á að vísu að lántökur, innlendar eða erlendar, yrði hugsanlega hér um að ræða til fjármögnunar. Það kemur jafnframt fram í grg. að ekki er vitað hversu miklar fjárhæðir hér er um að ræða í raun og veru, hvað þetta mundi í heild kosta. En er það meining hv. flm, þessarar till. að það beri skilyrðislaust að auka svo lántökur á vegum ríkisins að þessu eigi að hrinda í framkvæmd þó að ekki verði hægt að fjármagna það með öðrum hætti en lántökum, auk þess að fjármagna svo Vegasjóð til annarra framkvæmda sem þeir undirstrika sjálfir að alls ekki sé meiningin að draga úr? Er það meiningin? Eða hvaða raunhæf leið er það sem hv. flm. þessarar þáltill. vilja fara í sambandi við fjármögnunina? Það er full ástæða til þess að gera aths. við þau orð hv. þm. Ólafs G. Einarssonar sem hann sagði hér áðan. Við meinum það sem við erum að segja, sagði hann. En vinnubrögð þeirra og ákvarðanir að undanförnu hafa svo sannarlega ekki borið vitni um að þeir hafi meint það sem þeir eru hér að flytja inn í þáltill.-formi, eins og ég hef áður vikið að.

Og hæstv. samgrh. dró ekki úr lofinu á þessa till., og ekkert er við það að athuga. En það er eins með hann, og kannske ber hann nú miklu meiri ábyrgð á því heldur en hv. flm. þessarar till. hversu illa og hörmulega hefur verið staðið að í sambandi við vegaframkvæmdir í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Hann sem samgrh. hefði auðvitað átt að standa upp úr og bera höfuð og herðar yfir hina liðsmennina. En mér er nær að halda að hann hafi fallið í sömu gryfjuna. Þó er ég ekki að eigna honum það að hann hafi ekki viljað gera betur. Máske er það vegna þess að samstarfsmennirnir hafa borið hann ofurliði? En um það er hann sjálfur fær að greina frá ef svo er. En það er eins með hæstv. samgrh. og flm. með dásömun á þessari þáltill. Hvar ætlar hann að taka fjármagnið til þess? Ef það á ekki að vera á kostnað annarrar vegagerðar, hvar á þá að fá fjármagnið, þegar hæstv. samgrh. hefur ekki eimt sinni treyst sér til þess að halda í horfinu í sambandi við vegaframkvæmdir að raungildi þá tíð sem hann hefur gegnt ráðherraembætti samgrh.? Þetta eru allt spurningar sem æskilegt væri að fá svör við hvernig eigi að leysa.

Mér þykir ánægjulegt að sjá það í grg. með þessari þáltill., ekki síst þar sem ég þykist vita að hann á a.m.k. helminginn í þessari grg. hv. þm. Ólafur G. Einarsson, aðalsveitarforingi þess að vera í andstöðu við að taka upp veggjald á vegum með bundið slitlag, en það segir í þessari grg.: „Í þriðja lagi eru vegaframkvæmdir sem þessar hinar arðbærustu. Þar vegur mest að ending bifreiðanna, sem um vegina fara, margfaldast og hefur þannig í för með sér beinan peningalegan sparnað fyrir eigendur þeirra og fyrir þjóðfélagið. Það er þetta sem við höfum verið að halda fram að réttlætti að þeir, sem búa við það að geta ekið á vegum með bundnu slitlagi, þeir séu ekkert of góðir til þess að borga eitthvað fyrir það, vegna þess að það sparast það mikið við það að þjóðfélagið hefur lagt í það fjármuni að koma þessu bætta vegakerfi á. En hv. þm. Ólafur G. Einarsson hefur verið í forsvari fyrir því að berjast með öllum tiltækum ráðum gegn því að þetta sjálfsagða réttlætismál næði fram að ganga. En hér undirstrikar hann að það er rétt, sem við höfum haldið fram, að framkvæmdir í vegamálum af þessu tagi eru til þess fallnar að spara svo mikið fyrir þá bifreiðaeigendur, sem um vegina fara, að það er réttlætanlegt að þeir greiði einhvern lítinn hluta til baka til þess að hægt sé að halda áfram fyrir aðra landsmenn framkvæmdum við bundið slitlag á vegi.

Ég vil sem sagt að lokum láta það koma fram aftur að hér er um gott og mikið nauðsynjamál að ræða. En það er um tómt mál að tala að ætla að fara út í slíkar framkvæmdir sem þessar ef það á að vera á kostnað annarrar vegagerðar. það verður að vera tryggt að svo verði ekki. Og ef hv. flm. geta sannfært mig um að slíku verði ekki til að dreifa, þá skal ekki standa á stuðningi mínum við þetta mál.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, taka undir með hv. þm. Páli Péturssyni þegar hann var að tala um þau ummæli hv. þm. Ólafs G. Einarssonar að það væri úr sögunni það vandamál að það væri ekki óhætt að leggja bundið slitlag, olíumöl eða malbik, á alla vegi, hvaða fjallvegi sem í raun og veru væri. Ég held að langvarandi dvöl hv. þm. Ólafs G. Einarssonar á þessu svæði hafi orðið til þess að hann þefur gleymt þeim staðreyndum að það er ótrúlega mikið til af fjallvegum hér á landi sem a.m.k. ég held að sé alveg tómt mál að tala um öryggisins vegna að hafa með bundnu slitlagi. Ég held að flestir dreifbýlisþm. kannist við vegi á sínum svæðum sem þannig eru, þannig að það er ekki út í hött að vara við því að leggja bundið slitlag á hvaða fjallveg sem er.

Ég veit ekki hvort hæstv. samgrh. ætlar að tala hér frekar í þessu máli, en ég vil nú beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvort þess sé að vænta að við þm. fáum að sjá vegáætlun nú áður en þinghlé verður gert, og í áframhaldi af því, hvort meiningin sé að afgreiða vegáætlun áður en jólaleyfi þm. hefst. Eins og ég sagði áðan, þá efast ég mjög um að það sé meiningin. En þá er það ljóst, að ef það verður ekki, þá er engin vegáætlun í gildi og við það geta auðvitað skapast ýmiss konar vandamál.

Hv. þm. Jón Helgason sagði áðan að að sínu mati væri með of miklum samdrætti í framkvæmdum verið að varpa byrðinni n framtíðina. og hetta er auðvitað alveg rétt. Og það er mikil sú byrði sem núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar hefur varpað á framtíðina með því hvernig þeir hafa staðið að afgreiðslu í sambandi við framkvæmdir í vegamálum á sinni valdatíð. Þó að það hafi ekki hitnað á næsta nágrenni þess staðar sem við nú erum á. þá er alveg öruggt að íbúar víða úti um landið hafa orðið þess varir hversu mikill samdráttur hefur orðið í sambandi við vegaframkvæmdir á undanförnum 2–3 árum Og það er ærin ábyrgð fyrir hendi hjá hv. stjórnarsinnum á því sem gert hefur verið þó að þeir taki ekki á sig enn aukna ábyrgð með því að slá enn á frest og draga úr þeim framkvæmdum sem nauðsynlega þarf að vinna að.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri. Ég bið með að tjá mig frekar um þetta mál þangað til ég hef heyrt bæði hv. fim. og samgrh., sem hefur lýst eindregnum stuðningi við málið, gera frekari grein fyrir því, með hvaða hætti þeir ætla sér að fjármagna þessar sérframkvæmdir, sem hér er verið að tala um, umfram hinar venjulegu framkvæmdir í vegamálum sem hafa verið með hinum hefðbundna hætti á undanförnum árum.