29.11.1976
Efri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma það, að umr. skyldi verða frestað þegar þetta mál kom hér fyrst á dagskrá, frv. til laga á þskj. 93 um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum. Ég var miklu betur upplagður þá heldur en ég er nú til þess að taka þátt í þessum umr. Ég ætla samt að reyna að rifja upp það sem ég hefði helst viljað segja um þetta mál. En til þess að vera ekki að fara í neinar grafgötur um minn hug, þá vil ég segja það strax í byrjun, að hér er um slíka þjóðnýtingu að ræða, að ég kalla það ógrímuklæddan kommúnisma sem hér er verið að kynna í von um að koma honum á. Það er ekki lengur gert í smáskömmtum. Nú halda þessir svokölluðu vinstri menn, sem ég lít á í sumum tilfellum sem hreina kommúnista, að nú sé jarðvegur fyrir að fara að gefa þjóðinni kommúnisma inn í stærri skömmtum en hingað til hefur verið gert.

Ég vil þá drepa á hinar ýmsu greinar af handahófi, um leið og ég vil mótmæla því að þeir breyttu tímar séu þegar komnir, eins og hv. 1. flm. gat um í sinni ræðu, að þeir tímar séu komnir að hægt sé að gefa þjóðinni eða Alþingi þessa stærri skammta af kommúnisma.

Í 3. gr. segir: „Þrátt fyrir 1. gr. laga þessara skal bændum frjálst, ef og meðan svo kjósa, að eiga jarðir sinar til eigin búrekstrar.“ Sem sagt, þeir geta, ef þeir vilja þrátt fyrir þvinganir, haldið áfram að leggja vinnu og starfsævi sina í að rækta land og hlúa að því sem þeim hefur hingað til þótt vænt um, þrátt fyrir það að þeir viti að ríkið muni erfa afraksturinn, en ekki þeir sem þeir hafa verið að byggja fyrir til frambúðar. Á ég þar við að sjálfsögðu ættmenn sem venjulega taka við hver á fætur öðrum.

Hv. síðasti ræðumaður, 6. þm. Suðurl., gerði 1. gr. góð skil svo ég hleyp yfir hana. En í 5. gr. segir: „Ár og vötn eru sameign þjóðarinnar svo sem önnur gögn og gæði landsins, þar með talinn virkjunarréttur og veiðiréttur. Frjálst er þó jarðeiganda að virkja fallvatn fyrir landi sínu til eigin nota.“ En síðan heldur áfram: „Við gildistöku laga þessara skal ríkið láta kanna, hver veiðihagur hefur verið talinn fram af hverri jörð s.l. 20 ár, og greiða eiganda hennar bætur samkvæmt því fyrir veiðiréttinn. Frjálst skal þó veiðiréttareiganda, þegar lög þessi öðlast gildi, að velja á milli framangreindra bóta eða halda veiðiréttinum í allt að 20 ár eða uns sala viðkomandi veiðijarðar eða jarðhluta fer fram, ef fyrr verður og lækkar þá bótaskylda ríkisins um 1/20 við hvert ár sem liður og fellur niður eftir 20 ái:“ Það á og að taka eign viðkomandi aðila á lengri tíma, ef hann ekki vill selja hana strax, þá á hann að fá að búa við sömu skilyrði í 20 ár, en taka af honum samkvæmt matsverði upphæð sem ríkið ákveður sjálft í hlutfalli við þann tíma sem hann eyðir af þessum 20 árum. En eftir 20 ár fellur eignin til ríkisins. Ef þetta er ekki eignarupptaka, þá veit ég ekki hvað er eignarupptaka. Hvað er þá langt þangað til ríkið segir við íbúðareigendur í Reykjavík: íbúðin þín er svona mikils virði. Við álítum það vera 10 ára leigu. Eftir 10 ár, ef þú vilt ekki fara úr íbúðinni fyrr, ert þú leigjandi hjá okkur eða þú ert á götunni. — Svona langt er nú kommúnisminn ekki kominn á Íslandi, að það sé hægt að gefa þjóðinni svona stóra skammta án þess að hún geri athugasemdir við það.

Síðan kemur í 7. gr.: „Enginn getur átt né eignast óbyggðir né afréttir utan heima landa nema ríkið sjálft. Geti einhver við gildistöku laga þessara sannað eign sína á slíku landi, skal það eigi að síður verða ríkiseign“ o.s.frv. Þeir hefðu áreiðanlega haft eitthvað þarfara að gera heima fyrir, þessir fulltrúar í Kanada, heldur en að koma sér saman um svona ákvæði, þrátt fyrir það að línan hafi komið frá Alþfl. á Íslandi.

Síðan er í 8. gr. talað um að taka bújarðir eignarnámi vegna sumarbústaðahverfa. Það er alveg sama hvar maður drýpur niður í þessa grein, það er sami kommúnisminn sem brýst þar í gegn, en þó ekki meir en svo, að maður getur ætlað að einhver alþfl.- maður eigi jarðhita eða einhver verðmæti í jörðu fyrir ofan 200 m dýpi. Ég get ekki ímyndað mér annað en Alþfl. sé að gæta hagsmuna einhverra sinna flokksbræðra þá. Ég skil ekkert í að þeir skuli nokkuð vera að taka til dýpi í jörðu — eða þá að Alþb. skyldi lækka það í 100 m, — er einhver alþb.- maður sem er vitað um að eigi verðmæti í jörðu fyrir ofan 100 m?

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta eða ræða mjög miklu meira. En hv. 1. flm. gat þess í framsöguræðu sinni, að þetta væri stefnumál Alþfl. og nú sett í frumvarpsform. Þjóðin hefur kynnt sér stefnumál Alþfl. og fylgið hefur hrunið af Alþfl. Ég get ekki ímyndað mér að það bæti fylgi flokksins þegar það er komið í frumvarpsform, nema síður sé. Það er kannske ágætt. Nema þeir slái sér saman um þá linu sem nú er komin fram á alþjóðaþingi eða Evrópuþingi — ég man ekki hvort það var — þar sem Willy Brandt talaði um hvað kommúnisminn væri allt í einu orðinn góður, og alþfl.-menn eigi að tileinka sér Evrópukommúnismann. Kannske að það sé líka lína héðan frá Alþfl., ég skal ekki segja um það. Hún nær þá bæði austur og vestur.

Allt, það, sem frjálst hugsandi fólk talar um sem frjáls víðskipti, það er kallað brask af þeim sem eru vinstrisinnaðir, en alls ekki minni eignamenn að einu eða neinu leyti heldur en aðrir. Það er talað um brask og tekið sem dæmi þegar Eimskipafélag Íslands greiðir, að mig minnir, 30 millj. kr. fyrir land sem það hafði keypt í Borgarfirði — ég held ég fari rétt með — og frsm. gat um að hefði átt að kosta 8 millj. á milli bænda. Þarna getur vel verið að ekki sé um neina erfingja að ræða sem mundu vilja halda áfram að búa á þessum stað. Það getur líka vel verið að það sé ekki eins vænlegt til búskapar og það var þegar upphaflega var sett bú á þessum stað. Ég skal ekki segja um það. En bundinn hefði átt að fá 8 millj. í staðinn fyrir þessar 30. Hann hefði sem sagt af æviafrakstri kannske ekki bara sínum, heldur forfeðra sinna, fengið 30 millj. kr. til þess að koma fjölskyldunni fyrir annars staðar í ellinni eftir erfiða lífdaga. Það átti að koma í veg fyrir að hann gæti átt sæmilega öruggt ævikvöld annars staðar á landinu og þá líklega í þéttbýli þar sem hann eftir erfiða ævi þarf a.m.k. nærveru betri læknaþjónustu heldur en venjulega er í dreifbýli. Það er gott að vita að Alþfl. metur starf viðkomandi ekki meira en þetta, að ekki skuli vera frjálst að selja á gangverði hverjum sem er. Og þessi er hugsunarhátturinn, að það eru alltaf vondir peningar sem koma frá þéttbýliskjörnum, ef menn þar vilja fjárfesta einhvers staðar annars staðar. Þá er talað um vonda peninga og braskpeninga. En svo eru hinir peningarnir. Ekkert gera þeir án peninga. Það eru þá góðir peningar. Það eru til í þjóðfélaginu vondir peningar og vondir menn sem eiga þá, og svo eru aðrir peningar sem eru í höndum annarra manna og það eru góðir peningar og góðir menn. Við þurfum að fá einhverja skilgreiningu á þessu tali.

Ég held það sé kominn tími til þess að stemma stigu við þeim miklu afskiptum sem opinberir aðilar eru farnir að hafa af högum einstaklingsins, snúa við blaðinu og snúa við þessum hugsunarhætti, sem verið er að læða yfir þjóðina, og gera sér þá grein fyrir því sjálf hver hættan er sem blasir við í æ ríkari mæli.

Ég trúi því ekki að nokkur þm. utan kommúnista og alþfl.-manna þá fylgi þessu frv, Hugmyndirnar, sem hér koma fram, eru um algjöra eignarupptöku á landi og hlunnindum, og ég verð að segja það, að þær eru andstæðar mínum lífsskoðunum. Ég mun því leggjast gegn samþykkt þessa frv. og vona að mikill meiri hl. hv. alþm. sé mér sammála. Ég lít á þetta sem eitt skref í algjörum kommúnisma, og það er komin tími til þess að þeir, sem standa utan við þennan hugsunarhátt, geri þjóðinni ljósa grein fyrir því að aðgerðaleysi meiri hl. þjóðarinnar hefur hleypt þessari stefnu allt of langt. Þegar svona frv. eru lögð fyrir hv. Alþ., frv. sem skerða athafnafrelsi einstaklingsins til að eignast land og landsins gæði, er lýðræðinu stefnt í voða. Og ég finn mig knúinn til þess að nota það gamla orðatiltæki, að þjóðin má alls ekki undir neinum kringumstæðum lengur fljóta sofandi að þeim feigðarósi sem blasir við.

Það fer ekkert á milli mála, það vita þessir vinstri menn eins og hver annar, að sjálfstæði þjóðarinnar er samtvinnað athafnafrelsi einstaklingsins. Sjálfstæði þjóðarinnar varir ekki lengur en sjálfstæði einstaklingsins er fyrir hendi. Ég trúi ekki öðru en Sjálfstfl. og þá aðrir þm. á hv. Alþ. geri sér þetta ljóst og standi sem einn maður gegn þessu frv. og öllum öðrum sem kunna að koma í þessum anda. Ég vil a.m.k. leyfa mér að hafa þá trú þangað til á annað reynir.