29.11.1976
Efri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir ákveðinni aðferð til að koma í veg fyrir að eignarréttur yfir landi sé misnotaður einstaklingum til ávinnings sem jafnframt sé þjóðfélaginu í heild ekki ávinningur. Það er eðlilegt að menn greini á um það, hvernig eignarrétti á landi skuli varið, og það er sömuleiðis eðlilegt að mínum dómi, að umr. sé vakin um þessi mál og henni haldið vakandi. Menn muna það vel hér, að á síðasta ári voru samþ. jarðalög sem höfðu það að aðalmarkmiði að umráðaréttur yfir landi væri í höndum þeirra sem nytjuðu landið. Þessum jarðlögum var ætlað það hlutverk að koma í veg fyrir að eignarrétturinn yfir landi því, sem notað er til landbúnaðar, verði misnotaður. Ég er þeirrar skoðunar, að ekki sé tímabært að breyta þessum jarðalögum enn eða setja önnur þau sem gerðu jarðalögin óþörf að einhverju leyti meðan ekki hefur fengist meiri reynsla af þeim.

Hugmynd mín var raunar ekki sú að taka á þessu stigi verulegan þátt í umr. um frv. til laga um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum. En það voru orð í ræðu hv. þm. Braga Sigurjónssonar sem urðu þess valdandi að ég kvaddi mér hljóðs, og þessi orð voru á þá lund, að þess fyndust dæmi að hagurinn af veiðiréttindum og afréttarlandinu væri ekki talinn fram til skatts. Sjálfsagt er hægt að finna þess dæmi að undan hafi gengið tekjur af veiðirétti. Um það vil ég ekki deila, þó að rétt sé að minna á það, að eins og nú er hlýtur það að vera ákaflega tvíeggjað, svo ekki sé meira sagt, fyrir veiðiréttarbónda að gleyma að telja fram tekjur af veiði sinni. Ég veit ekki betur en arðskrár séu yfirleitt samdar með hliðsjón af framtölum, hliðsjón af því hvaða tekjur menn hafa haft og hafa af veiðiréttinum. En það var ekki sérstaklega þetta sem ég ætlaði að tala nm, heldur það sem minnst var á afréttarlandið, og mig langar í því sambandi að minna á eitt ákveðið atriði sem mér finnst að oft sé lítill gaumur gefinn að. En það er hvernig afréttarlandið í reynd nýtist þjóðinni.

Það ætti raunar ekki að þurfa að hafa um það mörg orð hér, að landbúnaðarvörur eru verðlagðar samkv. sérstökum lögum og í þessum lögum er gert ráð fyrir því að bændur skuli hafa sambærilegar tekjur við aðrar tilgreindar vinnandi stéttir í landinu. Þegar landbúnaðarvörur eru verðlagðar, þá er reynt að mynda sér skoðanir á því eftir bestu fáanlegum heimildum hver sé framleiðslukostnaður varanna við aðstæður hverju sinni. Þessi framleiðslukostnaður er vitanlega sú vinna sem lögð er í framleiðslu varanna, sá kostnaður sem er af því að kaupa rekstrarvörur og sá fjárfestingarkostnaður sem fylgir framkvæmdum á jörðum og búvélaeign. Hvergi er á það minnst að bóndinn skuli hafa tekjur af afnotum af landinu sem slíku. Þess vegna er það svo í reynd, að verðlag landbúnaðarvara byggist að engu leyti á óræktuðu landi, á því óræktaða landi sem búsmalinn nýtir, heldur einungis á ræktuðu landi og þeim kostnaði sem er við ræktun. Þess vegna má með miklum sanni segja að afrakstur af afréttarlöndunum og raunar öllu óræktuðu landi, sem nytjað er til landbúnaðarframleiðslu, gangi jafnt til allra þeirra landsmanna sem kaupa og neyta landbúnaðarvara.

Þetta langaði mig til að kæmi fram og að það væri mönnum algjörlega ljóst, að sá hagnaður, sem bændur hafa af umráðarétti yfir afréttarlandi, byggist eingöngu á því, að landið er notað til framleiðslu búvara sem síðar eru verðlagðar án þess að til komi nokkur sérstök greiðsla fyrir afnotin af þessu landi.