29.11.1976
Efri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Eignarréttur er hugtak sem búið er að deila mikið um á liðnum öldum, og vissulega hafa verið skiptar skoðanir um það, hvernig bæri að haga þjóðarlöggjöf hinna ýmsu landa hvað eignarrétt snertir. Sósíalistar hafa löngum verið þeirrar skoðunar, að réttast væri að ríkið ætti allt. Það er ekkert nýtt fyrir okkur að þeirri skoðun sé komið á framfæri. Hitt er aftur á móti nýtt, að þeirri skoðun sé komið á framfæri að nú skuli sósíalisminn ekki lengur ganga jafnt yfir stéttir landsins, nú skuli tekin um það ákvörðun að það skuli byrjað á einni stétt og ákveðið að hún skuli rola það að af henni séu eignir teknar.

Ég tel að hér sé mikill munur á sósíalisma, og ég verð að segja það, að ég ber stórum meiri virðingu fyrir reim manni sem segir: Ég er andvígur öllum eignarrétti — og vill standa við þá skoðun sina og þorir að verja hana hvar sem er án tillits til þess hvernig menn meta hann fyrir að halda þeirri skoðun á lofti. Aftur á móti ber ég litla virðingu fyrir þeirri skoðun, ef menn ætla að fara að haga boðskap sínum eða eignarréttarkenningu eftir því hvernig þeir telja að kjörfylgi muni koma út miðað við bann boðskap sem þeir flytja. (Gripið fram í: Má ég aðeins grípa fram í? Það er talað um lóðir og lönd í þéttbýli líka, allt land.) Mér er það ljóst, — allt land. Hins vegar er það ekkert nýtt að sá, sem lítið hefur, vilji rugla reytum saman við þann sem mikið hefur og skipta svo jafnt og segja að með því móti sé réttlætinu fullnægt.

Við íslendingar höfum lifað við mikla landflutninga. Á þessari öld hefur stór hluti þjóðarinnar flutt úr sveitum til þéttbýlis. Sums staðar hefur þetta gerst þannig, að þeir, sem til þéttbýlisins fluttu, seldu eignir sínar í sveitinni. komu sér upp miklum eignum í þéttbýlinu og höfðu þar hag af þeirri breytingu sem þeir gerðu. En þeir eru líka til í þessu landi sem yfirgáfu bújarðir sínar á sínum tíma, yfirgáfu hús sin, yfirgáfu allt án þess að eiga þess nokkurn kost að geta selt einum eða neinum. Þannig er ástatt í því kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir. Þannig fór t.d. á Hornströndum þegar menn fluttu þaðan burt, og mér finnst að það sé dálitið mikil kaldhæðni örlaganna ef á Alþingi íslendinga er samþ. í dag að það, sem enginn vildi af þeim kaupa á sínum tíma og auðvelda þeim flutninga frá erfiðum stöðum,það skuli í dag tekið eignarnámi.

Það er fleira sem rétt er að hugleiða í þessu sambandi. Verðbólgan er búin að hækka eignir og valda tilfærslum í þessu landi á eignum svo verulega að það verður ekki hægt að bjarga því með neinni einfaldri lagasetningu. Húsnæði hefur hækkað misjafnlega mikið í verði eftir því hvar það er á landinu. Það eru engar hugmyndir sem liggja hér fyrir um leiðréttingar á slíku. Það eru dálitið barnalegar hugmyndir að mínu viti sem liggja fyrir og segja: Það á að selja öllum sem vilja aðstöðu fyrir sumarbústað. — Við skulum hugleiða örlítið hvað gerist ef þetta er gert. Landið er eftir sem áður land takmarkaðra gæða og takmarkaðs landsvæðis. Þeir menn, sem við mundum selja sumarbústaðaland á góðum stað, leigurétt yfir þessu landi fyrir engan pening, mundu eftir skamman tíma geta selt sumarbústað sinn að nafninu til aðeins, en jafnframt væri hann að selja leiguréttinn — að því landi, sem hann fékk fyrir lítið, á háu verði. Ég fæ ekki séð að þetta mundi á nokkurn hátt tryggja réttlæti hvað þetta snertir.

Svo er ein spurning enn sem rétt er að hugleiða í botn. Ísland er jafnt og þétt að þróast í átt til þess að verða borgríki þar sem meiri hluti þjóðarinnar er saman kominn í einni borg. Ég veit ekki hvort menn hafa hugleitt það, að það er ekkert sjálfgefið réttlæti í því að það skuli vera þjóðín öll. en ekki sveitarfélög hvers svæðis sem ættu þá að hafa þann rétt að ráðstafa þessu landi. Væri það óréttlæti t.d. að norðlendingar réðu Norðurlandi og sunnlendingar Suðurlandi? Hvort skyldu forfeður Braga þar norður frá hafa litið svo á að það væri rétt að Norðurland ætti einhvern tíma seinna meir að lúta meirihlutaákvörðun þess mannfjölda sem byggir þennan stað sem Alþingi íslendinga er staðsett á? Ég efa að þeir hefðu talið það sanngjarna skiptingu.

Ég ætla ekki að fara út í þær deilur sem ég tel þó hvað skoplegastar milli alþfl.- manna og Alþb.-manna, en það eru deilurnar um veiðiréttinn. Þær deilur virðast mér fyrst og fremst komnar til vegna þess, að þeir meta það innbyrðis hvað sé skynsamlegast gagnvart kjósendum til sveita eða kjósendum í þéttbýli. En ég vil vekja athygli á öðru sem dynur nú jafnt og þétt á landsmönnum, og það er að það eigi að fara að selja sjómönnum réttinn til að fiska við strendur landsins. Dagblaðið boðar þetta mjög ákveðið. Þeir eru meira að segja búnir að verðleggja þetta, og það eru engar smáupphæðir sem hugmyndin er að fá í staðinn. Það á sem sagt að fara að selja fiskimönnum réttinn til að veiða þorsk við strendur landsins. Það er talað um 5–10 milljarða í þessu sambandi. Og það er kannske dálítið skrýtið að það skuli vera fulltrúar Alþfl. og Alþb. á þingi íslendinga sem eyða tíma í að meta það, hvernig draga eigi úr kostnaði íslendinga — einstaklinga við að veiða lax í ám landsins.

Ég vona að þeir menn, sem hafa helgað krafta sina sósíalisma, beri gæfu til þess og hafi þann manndóm að þora að halda fram stefnunni allri í sölum Alþingis, en ekki lúta svo lágt að fara að meta það eftir því, hvernig þeir telji sig standa atkvæðalega séð á hinum ýmsu svæðum á landinu, hvað þeir telji að eigi að sýna af stefnunni á hverjum tíma. — Svo þakka ég fyrir.