29.11.1976
Efri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Suðurl. hefur í sinni greinagóðu ræðu tekið fyrir flest það er ég vildi sagt hafa, og mun ég því ekki vera langorður. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að ég tel það mjög skiljanlegt að þeir menn, sem aðhyllast sósíalískt þjóðskipulag, leggi fram frv. sem þetta hér. Það eru talin tvö grundvallarskilyrði fyrir því að hægt sé að koma á sósíalísku þjóðskipulagi, og það er í fyrsta lagi að ná eignarráðum á landinu og í öðru lagi að ná eignarráðum á aðalatvinnutækjunum. Því er það að yrði þetta frv. samþ. hér og gefið út sem lög frá Alþingi, þá væri þetta hinn mesti áfangasigur sem unnist hefði í átt til sósíalisma. Er það þá það sem við óskum eftir og við teljum okkur nauðsynlegast nú í dag?

Ég geri mér grein fyrir því, að við lifum í þjóðfélagi sem er eins konar millistig á milli sósíalisma og kapítalisma, þar sem frelsi ræður ríkjum og þar sem ýmislegt er tekið úr hvoru hagkerfinu um síg, en almennt talað, þá tel ég að við lifum í óvenjufrjálsu og heilbrigðu þjóðfélagi. Þetta byggi ég m.a. á því, að atvinnuháttum okkar er drepið á dreif og meiri fjöldi landsmanna mun taka þátt í atvinnurekstri heldur en gerist og gengur annars staðar. Og þau stóru atvinnufyrirtæki, sem hér eru rekin, eru langsamlega flest í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stórra félagasamtaka, svo sem Sambandsins. Í öðru lagi er bankavaldið og aðalfjármálavaldið fyrst og fremst í höndum ríkis eða félagasamtaka. Í þriðja lagi eru öll heilbrigðis- og félagsmál í höndum ríkisins, skólamál sömuleiðis. Því tel ég að við höfum á undanförnum árum hagnýtt okkur mjög þróun og lærdóma 20. aldarinnar og tekið tillit til þess sem nauðsynlegt var þegar við hreyttumst úr bændaþjóðfélagi að verulegu leyti yfir í þéttbýlisþjóðfélag. En það, sem greinir okkur fyrst og fremst frá því sósíalíska þjóðfélagi og slíkum þjóðfélögum, hvort sem þau eru nærri 60 ára gömul eða þau eru nærri 30 ára gömul, það er að við höfum getað breytt því án þess að takmarka okkar frelsi til þess að stunda listir eins og okkur þóknast og láta þær sjá dagsins ljós, við höfum frelsi til þess að ferðast land úr landi án þess að það sé takmörkunum stjórnvalda háð og á ýmsan hátt njótum við meira einstaklingsfrelsis en gerist í þessum löndum.

Ef þessi lönd, sem þetta frv. mundi færa okkur nær, byggju yfir því sæluríki sem margir telja að þau geri, er það þá eðlilegt að árum saman þurfi að hafa og viðhalda múrveggjum og járntjaldi til þess að fyrirbyggja að fólk leiti úr þessum ríkjum og yfir til hins bölvaða kapítalisma, eins og þeir segja? Ég held ekki, og ég held að þetta sé eitt táknrænasta dæmið um að þarna er ekki allt með felldu. Afstaða mín til þessa frv. mótast að langmestu leyti af þessu. Það er stór áfangi á leiðinni til sósíalisma ef samþ. væri. Enda þótt styðjendur þessa frv. kosti nú kapps um að sannfæra okkur um að bændur eigi að halda öllu sinn nema bara að missa afréttina, þá má nærri geta hvernig fara mundi ef forráðamenn Alþfl. ættu að skammta bændum aðgang að afrétti og ýmsu öðru í sambandi við þeirra búskap, þegar við höfum í huga skrif þeirra og umtal um framleiðni og framlag bænda til þessa þjóðfélags, — þau skrif sem átt hafa sér stað úr þeim herbúðum á undanförnum árum.