29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

78. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar frv. eru flutt hér á þingi um merk málefni, þá er það tíðast að flm. mæli með þeim frv. með rökum og skýringum á frv. Hitt er sem betur fer harla fátitt, að málflutningur sé með þeim hætti sem nú hefur gerst hjá hv. flm.. þessa frv., hv. 3. þm. Reykv., því að framsöguræða hans um þetta mál er fyrst og fremst hól um sjálfan hann og níð um þann sem við tók sem iðnrh. Þessi mengun hugarfarsins hjá hv. þm. er að vísu ekki ókunn þeim sem þekkja feril Austra á undanförnum árum og áratugum, en þessi mengun hugarfarsins hefur sýnilega magnast mjög enn.

Ég vil, áður en ég vík að frv. sjálfu, aðeins minnast á það, að þessi hv. þm. hefur tíðkað það að undanförnu að bera mig alls konar ósannindum eða bregða brigslum um alls konar vanrækslu í starfi, sem að mestu leyti er hans eigin hugarburður og á enga stoð í raunveruleikanum. Það er t.d. eitt sem mjög hefur einkennt tal og skrif þessa hv. þm. Það er að ég hafi yfirleitt lagt til hliðar og stöðvað — eins og hann orðaði það nú — af pólitísku ofstæki flest hin mikilvægu verkefni sem þessi hv. þm. hafði unnið að og undirbúið sem iðnrh. Það verkefni eða það mál, sem honum hefur orðið tíðræddast um, er nýting innlendra orkugjafa eða rannsóknir og framkvæmdir í sambandi við hitaveitur. Þennan óhróður hefur hv. þm. þulið yfir landslýðnum og alveg sérstaklega notað þá aðferð að skrifa slíkt í forustugreinum Þjóðviljans hvað eftir annað, vitandi að forustugreinar dagblaðanna njóta þeirra forréttinda að vera lesnar í útvarp, og hefur hann því sérstaklega notað sér þessa aðstöðu. Það er gott að hann kemur þó einu sinni fram hér á Alþ. með nokkuð af þessum ádeilum. En ég vil sérstaklega nefna þetta atriði sem hv. þm. hefur orðið tíðræddast um, þ.e. nýtingu hinna innlendu orkugjafa, af því að það er dæmi um hversu gersamlega þessi hv. þm. leyfir sér í hverju málinu eftir annað að rangsnúa staðreyndum, snúa hlutunum gersamlega við, fullyrða ýmislegt sem er ekki nokkur stoð fyrir í raunveruleikanum. Hann hefur varðandi nýtingu innlendra orkugjafa sagt að hann hafi látið gera mikla áætlun um það í sinni ráðherratíð hvernig ætti að nýta innlenda orkugjafa, en að ég hafi stöðvað allar þær framkvæmdir samkv. þessari áætlun. Hver er sannleikurinn?

Sannleikurinn er sá, að snemma á árinu 1974 það þessi hv. þm. sem iðnrh. eitt verkfræðifyrirtæki hér í bæ um að gera áætlun, sem síðan var sýnd Alþ., um nýtingu innlendra orkugjafa, þ.e.a.s. hversu mætti útrýma húshitun með erlendum orkugjöfum og nota jarðvarma og rafmagn í staðinn. Þessi skýrsla, sem var yfirlitsskýrsla, í raun og veru er ekki hægt að kalla hana neina áætlun, hvað þá framkvæmdaáætlun, var sýnd Alþ. og það mun hafa verið á vordögum 1974. Þessi hv. þm., sem eftir ræðu sinni nú hefur verið einstakur framtaksmaður í sinni ráðherratíð um öll þessi mál sem undir hann heyrðu, hreyfði ekki, að því er virtist, hönd eða fót til þess að fá þetta samþykkt eða gerðar einhverjar samþykktir hér á Alþ. um það, hvernig að þessum málum yrði unnið. Þetta dagaði uppi eins og fjöldamörg af hans málum. Sjálfur sat hann á ráðherrastóli marga mánuði, ég ætla 5 mánuði, eftir að hann lagði þessa skýrslu fram án þess að gera nokkurn skapaðan hlut til framkvæmda í þeim efnum.

Eftir stjórnarskiptin var ráðist í það að auka stórlega jarðhitarannsóknir í landinu og að bæta tækjakost Orkustofnunar, m.a. með því að þá var keyptur jarðborinn Jötunn, sem er langstórvirkasta tæki sem við höfum eignast sinnar tegundar og getur borað 31/2 km röskan niður í jörðina, enn fremur jarðborinn Narfi, en það er sá bor sem eftirsóttastur er nú af sveitarfélögum víðs vegar um land. Með þessum hætti, með stórauknum tækjakosti og með auknum rannsóknum, jarðhitarannsóknum og borunum, hefur líka á þessum tveimur árum orðið gerbreyting í þessum efnum. Í þessari skýrslu, sem hv. þm. Magnús Kjartansson sem iðnrh. lagði fyrir Alþ., var gert ráð fyrir að 65% landsmanna eða um 2/3 hlutar landsmanna mundu í náinni framtíð geta fengið hitaveitu, þetta var hámarkið, aðrir yrðu að nota rafmagn til upphitunar ef ætti að útrýma hinum erlendu orkugjöfum. Við þær framkvæmdir og rannsóknir, sem hafa orðið á tveim árum síðan þessi hv. þm. lét af ráðherradómi, hefur það gerst, að nú eru það um eða yfir 80% landsmanna, en ekki 65%, sem munu á næstunni geta notið hitaveitna.

Þegar þessar staðreyndir liggja fyrir, þá er það svo, furðulegt, að menn hlýtur að reka í rogastans, að þessi hv. þm. skuli telja sjálfan sig þessu umkominn eftir feril sinn að ráðast á eftirmann sinn fyrir að hann hafi lagt til hliðar allar fyrirætlanir og áætlanir um nýtingu jarðhita til þess að útrýma erlendum orkugjöfum. Ég nefni þetta dæmi vegna þess að um þetta hefur hv. þm. orðið tíðræddast.

En bætir hann gráu ofan á svart. Það er nýmæli af hans hendi að segja að ég hafi stöðvað stofnun Iðntæknistofnunar Íslands af pólitísku ofstæki og ekki staðið við einhver fyrirheit sem ég hafi gefið honum haustið 1974. Hver er sannleikurinn í þessu máli?

Í sambandi við þjónustu og tæknivinnu fyrir iðnaðinn beitti Jóhann Hafstein iðnrh. sér á sínum tíma fyrir stofnun Iðnþróunarstofunnar Íslands, sem var merkilegt átak og framfaraspor á sinni tíð. Hv. þm. Magnús Kjartansson lét í sinni ráðherratíð undirbúa frv. um Iðntæknistofnun, og vinnuhraðinn og ákafinn var svo mikilli við þetta að það tók hann víst 2 1/2 ár að koma þessu frv. á það stig að hægt væri að leggja það fyrir Alþ. Það var um mánaðamótin mars-apríl 1974, eftir að hv. hafði 21/2 ár verið iðnrh., sem þetta frv. leit dagsins ljós og með hverjum hætti? Ekki sem stjfrv. Vegna hvers? Ef hann vildi leggja áherslu á málið og reyna að tryggja því framgang á þessu þingi, þá hefði auðvitað verið sterkast fyrir hann að leggja það fram sem stjfrv. Ástæðuna fyrir því veit ég ekki. Hann bað n. í þinginu um að flytja málið fyrir sig. N. flutti það með sínum venjulegu fyrirvörum þegar svo er ástatt. Síðan var málinu ekki fylgt eftir. Það var tekið til 1. umr. snemma í aprílmánuði, síðan var því eftir ósk þáv. iðnrh. frestað og ekki haldið áfram umr. fyrr en seinni hluta aprílmánaðar, eftir því sem segir í þingtíðindum, og málið dagaði síðan uppi. Það er ekki hægt að kenna þingrofinu í maímánuði um að þetta mál hafi ekki fengið framgang. Hv. þm., þáv. ráðh., fylgdi því ekki eftir.

Eftir að ég tók við þessu starfi tók ég þetta mál að sjálfsögðu til meðferðar, eins og ég sagði hv. þm., og setti í gang gagngera endurskoðun á þessu máli. Það kom að sjálfsögðu í ljós, eins og honum hafði raunar verið kunnugt um, að um þetta frv., sem hann hafði ekki flutt sjálfur, heldur beðið n. að flytja, varð töluvert mikill ágreiningur. Ég held að það hafi komið fram líka við 1. umr. málsins á þingi, að það voru mjög skiptar skoðanir um ýmis atriði málsins. Þess vegna hefur þurft að kanna þetta mál og semja um það nýtt frv. Það frv. liggur fyrir, eins og ég hef lýst yfir, bæði í ræðu sem ég flutti ekki alls fyrir löngu á degi iðnaðarins á Akureyri, þar sem ég rakti nokkur þau atriði sem gera þyrfti í iðnaðarmálum, og auk þess er tekið fram í því fskj. sem fylgdi stefnuræðu forsrh. að þetta frv. um Tæknistofnun Íslands væri eitt þeirra frv. sem áformað væri að flytja á þessu þingi. Vinnubrögð í sambandi við þetta mál hafa því verið mjög eðlileg. Frv. er tilbúið nú og er til umr. í ríkisstj., og ég vænti þess að það verði flutt á þessu þingi.

Tæknistofnun Íslands í samræmi við teknologisk institut, sem starfa í okkar nágrannalöndum, er mikið nauðsynjafyrirtæki, og ég held að sé óhætt að fullyrða að samtök iðnaðarins hafa mikinn áhuga á að af því geti orðið. En ferill Magnúsar Kjartanssonar fyrrv. ráðh. í þessu máli er ekki slíkur að ástæða sé til að státa af því, vegna þess að hann tók hálft þriðja ár til að undirbúa málið, treysti sér svo ekki til að leggja það fram sem stjfrv. og fylgdi því ekki betur eftir en nú hefur verið lýst.

Þriðja atriðið, sem hv. þm. kom hér að og taldi að framferði mitt í því efni væri eitt hið mesta hneyksli af því tagi um margra ára skeið var, að ég hefði lagt niður iðnþróunarnefndina. Hvernig er þessum málum nú varið? Hv. þm. skipaði n. manna til þess að gera till. um iðnþróun á Íslandi, það er rétt. Sú n. fékk til meðferðar ýmis þau verkefni sem Iðnþróunarstofnun Íslands átti að vinna samkv. lögum sem þá voru tiltölulega nýsett. Hv. þm. taldi eðlilegt samt sem áður að ganga fram hjá þeirri stofnun og taka ýmis verkefni, sem undir hana áttu að heyra, og fela þau þessari nefnd, um leið og hann notaði þetta svo sem tækifæri og tilefni til þess að svelta Iðnþróunarstofnun Íslands sem fékk miklu minna fjármagn til starfsemi sinnar á stjórnarárum þessa hv. þm. heldur en til hafði verið stofnað í upphafi og hefði þurft að vera. Það gerist svo á s.l. ári, að iðnþróunarnefndin skilar ítarlegri grg. og tillögum. Hún hafði þar með lokið störfum sínum. Hún hafði skilað því verkefni sem henni hafði verið falið. Nú telur hv. þm. hneyksli að leggja niður n. sem hefur lokið störfum, lokið því verkefni sem henni var falið. Ég skil ekki þennan hugsanagang.

Varðandi hins vegar till. iðnþróunarnefndar, þá voru þær að sjálfsögðu kannaðar rækilega í iðnrn. og Iðnþróunarstofnun var sérstaklega falið að taka allar þessar till. iðnþróunarnefndar til meðferðar og vinna að þeim eftir því sem frekast væru möguleikar á og tilefni til. M.ö.o.: það sem hv. þm. segir hér um iðnþróunarnefndina og það hneyksli að leggja hana niður, það er eintómur hugarburður. N. hafði lokið störfum og var þess vegna lögð niður. Till. hennar voru faldar Iðnþróunarstofnuninni til framkvæmda.