30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

61. mál, tölvubanki rannsóknarlögreglunnar

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Alþm. og aðrir landsmenn fá nú tækifæri til að skoða þetta mál í ljósi fenginna upplýsinga, og hér í fyrirspurnatíma á Alþ. er ekki tími til rökræðna um þetta mál. En svörin sýna að enn hefur ekki verið mótuð endanleg stefna hvað þennan tölvubanka rannsóknarlögreglunnar snertir, enn virðast einungis hafa verið teknar bráðabirgðaákvarðanir.

Við höfum flutt, nokkrir þm., á þskj. 70 till. til þál. um tölvutækni við söfnun upplýsinga um skoðanir manna og persónulega hagi, og þegar hún kemur til umr. gefst tækifæri til að taka þessi mál til nánari umr.

Ég fagna því að hæstv. ráðh. hefur skipað n. til undirbúnings að samningu frv. um þetta efni, það kom að vísu ekki fram í máli ráðh. hvenær þessi n. hefði verið skipuð, og hefði verið gott að fá upplýst í þessu sambandi hvort hún hefur starfað lengi eða skamman tíma. En aðalatriðið er að sem fyrst verði tekið á þessu máli með afgreiðslu löggjafar hér á Alþingi.