30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

68. mál, kennaraskortur á grunnskólastigi

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 74 hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. menntmrh.:

„1. Hefur menntmrn. látið framkvæma könnun á því, hverjar orsakir liggja til þess að svo erfiðlega gengur að fá fullmenntaða kennara úr grunnskólastiginu?

2. Eru uppi einhverjar áætlanir hjá rn. í þá átt að bæta úr því ástandi, er nú ríkir og hlýtur að teljast óviðunandi?“

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, hver ólga hefur ríkt undanfarið hjá kennarastéttinni og hefur margt komið til, launakjörin þó fyrst og fremst. Ég þykist fullviss þess að menntmrn. og hæstv. ráðh. muni hafa haft þessi mál mjög til umfjöllunar, og þá er spurningin hversu föstum tökum þetta vandamál hefur verið tekið. Eflaust er hér um að ræða eitt alvarlegasta mál sem snertir menntunarhliðina í þjóðlífinu, því lengi býr að fyrstu gerð og grunnmenntunin hlýtur ævinlega að skipa háan sess í menntakerfinu.

Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning skal það skýrt tekið fram, að með fullmenntuðum kennurum er ekki átt við góða kennara og hins vegar um þá réttindalausu sem vonda kennara. Í starfi mínu að kennslumálum hef ég mörg ágæt dæmi um hæfa starfskrafta þó ekki hafi verið með full réttindi, og þannig dreg ég kennara ekki í neina dilka og er reyndar lítt hrifinn af vissum fyrirlitningartóni hjá starfsbræðrum mínum ýmsum í garð þessara réttindalausu manna. Á hitt hlýt ég jafnframt að leggja áherslu, að ekkert skólastig er eins viðkvæmt og vandasamt í raun og grunnskólastigið og þar þurfa starfskraftar sannarlega að vera vel hæfir og byggja á góðri undirstöðumenntun, ekki síst í hinu uppeldislega hlutverki, þeim þætti er lýtur að því einlæga sambandi sem á að ríkja milli kennara og nemenda. Að því hlutverki að gera kennara þar sem hæfasta hefur e.t.v. ekki verið unnið sem skyldi, heldur síaukin áhersla lögð á aukið bóknám æðri gráðu, því háskóli verður það að heita og vera sem útskrifar nú okkar kennslukrafta á grunnskólastigi — og skyldi jafnvel ekki ein ástæðan til kennaraskortsins nú vera þessu tengd? A.m.k. hef ég aldrei dregið neina dul á það, að Kennaraháskólinn hefur verið vafasamur greiði við íslenska kennarastétt og íslenska nemendur um leið, þó að ég hafi mætavel skilið nauðsyn á eflingu kennaranámsins á sínum tíma og nauðsynlega viðbót þar fyrir þá sem lengra vildu halda. Þegar svo þessu 7 ára námi með lokaprófi úr Kennaraháskólanum lýkur, þá koma menn til starfa við þau launakjör sem eru með öllu óviðunandi og enn miðuð, að því er virðist, við gömlu kenninguna um hið langa sumarfrí kennaranna og menntunarleysi þeirra um leið, — sumarfrí sem að frátöldum námskeiðum ýmiss konar er orðið áþekkt og í flestum öðrum starfsgreinum eða a.m.k. litlu lengra.

En launakjörin eru þó, þrátt fyrir allt, ekki eina orsökin þó að launaþróunin síðustu árin hjá hinum ýmsu stéttum opinberra starfsmanna sé náttúrlega hrikaleg og ógnvekjandi. Hér hlýtur fleira til að koma, og rn. menntamála hlýtur að fylgjast vel með því, hvernig á þessum mikla skorti stendur. Löggjöfin batnar, skólarnir verða betri og vistlegri, nemendurnir hvorki verri né betri en áður, en í starfið er hreinlega ekki sótt. Það hlýtur að vera eitthvað meira en lítið að, og það er skylda okkar að komast fyrir orsakirnar og tryggja þannig framtíð þeirrar menntunar sem er undirstaðan um margt sem mestu varðar, grunnskólamenntunarinnar.

Þróun síðustu ára er uggvænleg einmitt í ljósi þess, að kennaramenntunin er alfarið komin á háskólastig, að kröfur til kennara hafa aldrei verið meiri hvað menntun snertir, en þó fækkar þeim stöðugt sem í starf fara af þeim sem til þess læra. Um skýringarnar má eflaust deila. En rn. menntamála hlýtur hér að verða að taka svo á málum að verði hrein stökkbreyting, ef hvort tveggja á ekki af að hljótast: tilgangsleysi langskólabrautar fyrir kennara, sem aldrei kenna, og stórhætta fyrir skólastigið sjálft.