30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

68. mál, kennaraskortur á grunnskólastigi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er ágætt að fá fram fsp. um þetta efni og þar með tækifæri til að gera nokkru nánari grein fyrir áður fram komnum upplýsingum um starfsundirbúning þeirra kennara sem nú eru að störfum. Ég vil hafa lítinn formála að því að svara þessum tveimur spurningum sem hv. fyrirspyrjandi hefur þegar gert grein fyrir.

Þegar rætt er um kennaraskort og réttindaleysi kennara verður að gera sér grein fyrir við hvað er átt. Í allar kennarastöður, sem lausar voru haustið 1976, hefur nú verið ráðið nema eina, og það er eina farkennarastaðan sem nú er til í landinu, í Fells- og Óspakseyrarskólahverfi í Strandasýslu.

Hitt er svo, hvern starfsundirbúning þeir hafa sem þessi störf hafa tekist á hendur.

Af 2336 kennurum í grunnskólum eru 1814 brautskráðir með fullgildu kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands, eða 77.7%. Hinir, þ.e. 522, eða 22.3%, hafa ýmiss konar menntun sem hér segir:

87 eða 3.7% hafa háskólapróf án uppeldis- og kennslufræði, t.d. B. A.- prófsmenn, viðskiptafræðingar o.fl. sem kenna flestir sérgreinar sinar. 249 eða 10.7% hafa lokið stúdentsprófi og 88 þeirra hafa lokið hluta af háskólanámi eða eru í slíku námi. 21 eða 1.3% hafa verslunar- eða samvinnuskólapróf og kenna flestir sinar sérgreinar, svo sem bókfærslu, vélritun o.s.frv. 51 eða 2.2% hafa lokið iðn- eða tækninámi, búfræði- eða garðyrkjunámi, tón- eða myndlistarnámi og kenna flestir sinar sérgreinar. 13 eða 0.6% hafa lokið fóstrunámi og kenna yngstu árgöngum grunnskólanemenda. 91 eða 3.9% hafa flestir einungis lokið miðskóla- eða gagnfræðaprófi, en í þeim hópi eru þó nokkrir sem hafa stundað annars konar framhaldsnám en að framan greinir. Auk þess hafa margir þessara kennara langa starfsreynslu að baki.

Ég vil geta þess, eftir að hafa greint frá þessum tölum, að ég skal innan tíðar — ég vona á morgun — láta hv. þm. í té töflu þar sem þessar upplýsingar koma fram, ljósrit af slíkri töflu.

Eins og af þessari upptalningu sést er margt manna við kennslu sem hlotið hafa ýmiss konar sérmenntun, en hafa ekki stundað nám í uppeldis- og kennslufræðum. Þeir eru því taldir meðal „réttindalausra“ kennara enda þótt þeir kenni flestir námsgreinar á sínu sérsviði. Í þessum hópi eru t.d. viðskiptafræðingar sem kenna viðskiptagreinar, guðfræðingar sem kenna kristinfræði, auk margra B.A.- og B.S.-prófsmanna sem kenna sínar sérgreinar. Sama gildir um ýmsa kennara í list- og verkgreinum, eins og ég áðan vék að.

Að sjálfsögðu er æskilegt og til þess ætlast að þeir, sem við kennslu fást, hafi lokið námi í uppeldis- og kennslufræðum. En þó verður að telja mikinn mun á því, þegar rætt er um „réttindaleysi“, hvort kennarann skortir bæði þann undirbúning uppeldisfræðinnar og sérmenntun í kennslugrein sinni eða einungis annan þáttinn.

Á árabilinu frá 1967–1976 útskrifuðust frá Kennaraskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1299 kennarar með kennaraprófi. Af þeim kenna í grunnskóla á skólaárinu 1976–1977 721 eða 55.5% af þeim sem útskrifuðust á nefndu árabili. Ljóst er því, að ef allir þessir kennaramenntuðu menn hefðu skilað sér til kennslustarfa, þá væru allar kennarastöður á grunnskólastigi skipaðar mönnum með fullum kennsluréttindum.

Fyrri líður fsp. beinist að því, hvort menntmrn. hafi látið framkvæma könnun á því hverjar orsakir liggja til þess að svo erfiðlega gengur að fá fullmenntaða kennara á grunnskólastiginu.

Slík félagsfræðileg rannsókn hefur ekki verið gerð .i vegum rn., en hins vegar má benda á nokkur atriði sem líklegt er að geti haft áhrif í þessu sambandi. Má þá fyrst nefna að kennaramenntun er mjög góður undirbúningur undir mörg störf og kennarar því eftirsóttir af ýmsum aðilum, auk þess sem ýmsir þeirra finna vafalaust að kennarastarf hentar þeim ekki er þeir fara að fást við kennslu þótt þeir hafi lokið kennaranámi.

Það er alkunna að örðugleikar þeir, sem fsp, fjallar um, eru mestir utan helstu þéttbýlissvæðanna, og kemur fram nánari skilgreining á því í töflunni sem ég mun láta þm. í té. Að því leyti er um að ræða sams konar örðugleika og á ýmsum öðrum starfssviðum. Að því er kennara varðar mun ekki síst vera um að kenna húsnæðisskorti á mörgum stöðum, og kemur þetta mjög fram við kennararáðningar þar sem mikið er upp úr því lagt ef hægt er að láta í té viðunandi húsnæði. Skemmri starfstími skóla í dreifbýli en í þéttbýli veldur því að árslaun kennara skerðast sem styttingunni nemur, þ.e. um 1/12 í átta mánaða skólanum og 2/12 í sjö mánaða skólum. Þetta getur dregið úr möguleikum á að fá kennara á þessa staði.

Loks má minna á að sú óánægja með launakjör, sem gætt hefur meðal margra hópa ríkisstarfsmanna, hefur ekki síður áhrif í kennarastétt en annars staðar. En það er erfitt að meta nákvæmlega hvaða áhrif það atriði út af fyrir sig kann að hafa á einstakar starfsgreinar og í þessu tilvíki kennsluna.

Áður en skilið er við fyrri lið fsp. er rétt að geta þess, að mikil fækkun varð um skeið í brautskráningu kennara við þá breytingu sem gerð var á skipan kennaranáms með lögum nr. 38 1971, um Kennaraháskóla Íslands. Þannig fækkaði brautskráðum kennurum úr 224 árið 1973 í 7 árið 1976, sem var fyrsta brautskráningarár Kennaraháskólans. Árið 1975 útskrifuðust 22 og 14 árið 1976. Hins vegar er fram undan hröð aukning, sem sést á því að á þriðja námsári, þ.e. lokanámsári, í Kennaraháskólanum eru nú 53, á öðru ári 86 og á fyrsta námsári 100.

Að því er varðar síðari lið fsp., um það, hvort uppi séu „einhverjar áætlanir hjá rn. í þá átt að bæta úr því ástandi er nú ríkir,“ sem segir í fsp., þá skal í fyrsta lagi minnt á þær tölur, sem síðast voru nefndar, um væntanlega fjölgun brautskráðra kennara frá Kennaraháskóla Íslands. Gert er ráð fyrir, eins og áður hefur verið greint frá, að lagt verði fram á þessu þingi frv. til nýrra laga um Kennaraháskóla Íslands sem á að styrkja stöðu hans sem miðstöðvar uppeldis- og kennslufræði í landinu. Unnið hefur verið að hönnun næsta byggingaráfanga Kennaraháskóla Íslands, en engin ákvörðun tekin um fjárveitingu, eins og hv. þm. vita, en gífurleg þrengsli hafa háð mjög starfsemi skólans um langan tíma. Þá er gert ráð fyrir að leggja fyrir yfirstandandi þing frv. til l. um skilyrði sem uppfylla þarf til þess að verða settur eða skipaður kennari við grunnskóla og framhaldsskóla.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri. Ég ætla að fyrirspyrjandi verði nokkru nær um víðhorfið í þessum málum.