30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í sambandi við þessa fsp. og þá þál., sem hér er vitnað til, verður að minna á það, að þau verkefni, sem hér um ræðir, falla undir verksvið þriggja rn. og fellur meginhluti þeirra verkefna utan við verksvið heilbr.- og trmrn. Þannig fer félmrn. með endurhæfingarmál öll svo og Styrktarsjóð vangefinna, og menntmrn. fer með öll kennslumál og skóla svo og starfsemi á sviði menningarmála, sbr. lög um vernd barna og ungmenna. Þau málefni, sem falla undir verksvið heilbr.- og trmrn. hér að lútandi, eru þeir þættir þess sem koma undir almenn heilbrigðismál, heilsugæslu og heilsuvernd, svo og sá hluti þeirra sem fellur undir sjúkrahús, heilsuhæli og hjúkrunarheimili.

Í lögum nr. 43 frá 1958, um aðstoð við vangefið fólk, má segja að meginnýmælið væri stofnun Styrktarsjóðs vangefinna sem er í vörslu félmrn., en fénu er varið að fengnum till. Styrktarfélags vangefinna. Það var gífurlega mikil framför þegar Styrktarsjóður vangefinna var stofnaður, og til ársloka 1975 hafa verið veittar úr honum til byggingar heimila fyrir vangefna 262 millj. kr.

Lög um aðstoð við vangefið fólk voru afnumin með l. nr. 97/1971, um vörugjald, en í 12. gr. þeirra laga voru Styrktarsjóði vangefinna tryggðar tekjur með gjaldi af gosdrykkjum og öli til júníloka 1976 og skyldi þetta gjald nema 1.95 kr, af hverjum lítra, þannig að nú er framlag til Styrktarsjóðs vangefinna háð ákvörðun Alþ. hverju sinni.

Í lögum nr. 63 frá 1974, um grunnskóla, er gert ráð fyrir að sérkennsla sé á stofnunum, í sérskóla og innan hins almenna skólakerfis. Í Reykjavík er nú starfandi vanvitaskóli, skóli fyrir fjölfötluð börn og hjálparbekkir í almennum skólum, og í Kennaraháskóla Íslands er starfandi sérkennaradeild. Í reglugerð nr. 199 frá 1972, um kennslu á fávitastofnunum, er ákvæði um kennslu vistfólks á slíkum stofnunum, og hefur verið reynt að koma þessari reglugerð í framkvæmd á stofnunum fyrir vangefna eftir því sem starfslið hefur fengist.

þáltill., sem hér er vitnað til, var samþ. vorið 1975 og við undirbúning fjárlaga 1976 skrifaði heilbr.- og trmrn. félmrn. bréf þar sem sérstaklega var rætt um fjárveitingar til Styrktarsjóðs vangefinna og bent á þau fjölmörgu verkefni sem væru óleyst á þessu sviði. Þá var bent á, að síðan hinn sérstaki afmarkaði tekjustofn var felldur niður hefðu framlög til Styrktarsjóðsins lækkað verulega, þannig að þau væru nú nær hin sömu í krónutölu og á árunum 1974 og 1975. Þrátt fyrir þessar ábendingar tókst ekki að fá hækkaðar fjárveitingar til Styrktarsjóðs vangefinna á yfirstandandi ári, og virtust flestir þm. hafa gleymt þeirri þál., sem hér er vitnað til, þegar þeir afgr, fjárveitingu til Styrktarsjóðs vangefinna fyrir þetta ár.

Fjárskortur Styrktarsjóðs vangefinna hefur valdið því, að fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir við Kópavogshælið hafa nær stöðvast. Byggingarnefnd hafði gert till. um byggingu eldhúss, mötuneytis, fyrir félags- og íþróttastarfsemi o.fl., en ekkert af þessu hefur getað gengið fram enda þótt verulegum hluta hönnunarvinnu hafi verið lokið fyrir alllöngu.

Nú er í smiðum viðbygging við vistheimilið Sólborg á Akureyri. Skv. áætlun þurfti til þeirrar byggingar 44 millj. kr. á þessu ári og svipaða upphæð á næsta ári, eða alls á þessum tveimur árum meira fé en alls hefur verið áætlað til Styrktarsjóðs vangefinna. Það er því auðsætt að byggingarframkvæmdir á Sólborg munu dragast, eins og átt hefur sér stað með Kópavogshælið.

Þá ber að geta þess, að ráðgert hefur verið að byggja dvalarheimili fyrir vangefna á Egilsstöðum. Enn þá hefur einungis verið hægt að vinna að undirbúningi þessa verks.

Einnig má minna á að ríkissjóður hefur tekið við rekstri og eignum Tjaldanesheimilisins snemma á þessu ári.

Á þessi atriði hefur þótt rétt að benda þar eð verulegt ósamræmi er milli þeirra þál., sem alþm. samþ., annars vegar og þeirra fjárveitinga, sem þeir samþ. til þeirra verkefna sem þeir gera ályktanir um, hins vegar, þannig að það verður dregið í efa að verulegur hugur fylgi máli þegar þál. eins og sú, sem hér hefur verið vitnað til, eru samþ.

Eins og fyrr sagði eru það fyrst og fremst rekstrarmálefni stofnana sem heyra undir heilbr. og trmrn. og Þroskaþjálfaskólinn. Reglugerð var sett fyrir Þroskaþjálfaskólann í okt. 1971, og á þessu ári hefur verið unnið að því að gera gagngerðar breytingar á kennslufyrirkomulagi skólans. Þannig fékkst heimild til að ráða tvo kennara að skólanum á þessu hausti til eins árs, og skólinn hefur fengið eigið húsnæði í gamla Kópavogshælinu. Þá er í undirbúningi af hálfu rn. breyting á reglugerð skólans til þess að sníða námið meira að nútímakröfum en verið hefur.

Á s.l. hausti tilnefndi stjórnarnefnd ríkisspítalanna nefnd sem fékk það verkefni að gera till. um endurskipulagningu og breytingar á rekstri Kópavogshælisins, m.a. með það fyrir augum að koma þar á fót göngudeild og dagdeildum og gera till. um tengsl hælisins við aðrar stofnanir, einkum þó geðdeild barna. Form. þessarar n. er Páll Ásgeirsson yfirlæknir, og er þess að vænta að þessi n. skili till. sínum til stjórnarnefndarinnar fyrir lok þessa árs.

Þá vil ég geta þess, að á vegum heilbrrn. er nú starfandi n. sem sérstaklega á að fjalla um tannlæknisþjónustu fyrir vangefna, og er n. skipuð í samráði við Tannlæknafélag Íslands og Styrktarfélag vangefinna. Tilgangurinn er að koma upp aðstöðu fyrir sérstaka tannlæknaþjónustu fyrir vangefna annaðhvort í tengslum við Kópavogshælið eða á öðrum stað á Reykjavíkursvæðinu og reyna þannig að koma þessum þætti heilbrigðisþjónustu vangefinna í gott horf.

Hvað snertir aukningu vistunarrýma fyrir vangefna, þá hef ég þegar rakið hve torveldlega hefur gengið að fá fé til viðbótarbygginga við stofnanir fyrir vangefna. En í þál, var einnig rætt um fjölfatlaða og þar er um að ræða stóran hóp bæði ungra og gamalla.

Með því að taka á leigu húsnæði að Hátúni 10 og setja þar upp hjúkrunardeild á vegum ríkisspítalanna var reynt að gera stórt átak til þess að auka hjúkrunarrými fyrir þennan hóp fólks, en því miður hefur gengið mjög illa að koma þeirri starfsemi áfram vegna skorts á hjúkrunarstarfsliði.

Það er fyrst nú á þessu hausti að deildin öll verður komin í not og verður þar þá starfandi hjúkrunareining fyrir 66 sjúklinga í tengslum við Landsspítalann. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir að þessi deild verði fyrir aldraða, en eins og kunnugt er eru í þeim aldursflokki mjög margir fjölfatlaðir sem þurfa sérstakrar og mikillar hjúkrunar og umönnunar við.

Ég vænti þess að umr. um þessa fsp. og þá þál., sem Alþ. gerði í maí 1975, verði til þess að þm. almennt og fjvn. sérstaklega taki þau málefni, sem hér hafa verið rædd, til gaumgæfilegrar athugunar. Og það er þá fyrst og fremst tvennt sem ég vil benda á í því sambandi: annars vegar að auka þarf verulega framlög í Styrktarsjóð vangefinna frá því sem áætlað er í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir, og hins vegar að teknar verði upp í fjárl. næsta árs þær till. heilbr.- og trmrn. um fjárveitingar til áframhaldandi uppbyggingar að Hátúni 10 sem lagðar voru fyrir fjárlaga- og hagsýslustofnun fyrir gerð fjárlaga ársins 1977, en þar er gert ráð fyrir að í Hátúni 10 sé bæði komið á fót dagdeild og göngudeild í tengslum við þá hjúkrunar- og endurhæfingardeild sem þegar hefur komið í not.