30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir eindregnum vilja mínum til að aðstoða hæstv. heilbrrh. í því að skapa honum möguleika til að bæta þjónustu við fjölfatlaða og vangefna.

Á þinginu 1971 var samþ. þáltill. um lagasetningu í þá átt að bæta menntunaraðstöðu fatlaðra, og þá kom fram í umr. um það mál að gerð hefur verið sérstök áætlun um sérkennslumiðstöð fyrir þetta fólk. Síðan eru mörg ár liðin, og vafalaust af fjárhagsástæðum hefur ekki verið mikið aðhafst í þeim tilgangi að bæta menntunaraðstöðu þeirra. En málið hefur verið rætt allmikið, og í grunnskólalögunum nýju er gert ráð fyrir eðlilegri menntunaraðstöðu fyrir vangefið og fjölfatlað fólk. Ég held að það sé framkvæmd menntmrn. sem muni ráða mestu um það, hvort fjölfatlaðir og vangefnir, eða þroskaheftir eins og það er nú nefnt, fá aðstöðu til þeirra bestu möguleika til menntunar sem völ er á. Sá fjöldi er þó ekki svo mikill að í því mikla flóði af fjármagni, sem þar er, ætti að verða örðugt að skapa þessum hópum aðstöðu til þess að njóta nýtískulegrar menntunar og þroskaþjálfunar.

Það, sem hæstv. ráðh. minntist á um bætta aðstöðu til hjúkrunarrýmis í Hátúni 10 og reyndar viðar, það er sannarlega aðkallandi mál og mál sem er raunar ekki sérstaklega fjárfrekt. Ég efast ekkert um að hann muni fá alla aðstoð okkar þm. til að leysa þessi vandamál. En e.t.v. verður honum erfiðara að berjast við hagsýslustofnun og fleiri slíkar í kerfinu.