18.10.1976
Neðri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Skaftason:

Herra forseti. Umr. um að breyta til um starfsháttu Alþingis í þá áttina, að Alþ. verði í framtíðinni í einni málstofu í stað tveggja, eru ekki nýjar af nálinni hér. Ég vil við þessa umr. lýsa fylgi mínu við þá meginhugsun sem kemur fram í frv. um að unnið verði að því að í framtíðinni, og það sem fyrst, skipi Alþ. aðeins eina málstofu í stað tveggja. Ég hef haft m.a. tækifæri til þess á undanförnum árum að kynna mér nokkuð reynslu Svía sem breyttu frá því að hafa þjóðþing sitt í tveim deildum yfir í eina deild, þeir gerðu það fyrir nokkrum árum, mig minnir að það hafi verið 1971 eða um það leyti, og ég get fullyrt það af viðtölum við þó nokkuð marga sænska þm. og aðra þá embættismenn, er vinna á vegum sænska þingsins, að ekki hefur komið fram ein einasta rödd í mín eyru sem hefur talið breytinguna frá tveim deildum yfir í eina til hins verra. Þeir hafa allir þvert á móti lagt á það áherslu, að starfshættir þingsins hafi á margan hátt orðið skilvirkari en áður var, og hafa sem sagt mælt mjög með þessari breytingu.

En þetta var ekki aðalástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs til þess að segja nokkur orð við þessa umr., heldur hitt, að það kom fram í ræðu hv. 1. flm, frv., að ég tel, hér áðan, að það mætti ekki skoða það, sem hann sagði um frv., sem neina gagnrýni á störf stjskrn. Ég er þveröfugrar skoðunar. Ég tel að það sé tímabært að það komi fram á hv. Alþ. hugur manna, hugur þm. til þeirra starfshátta sem mér virðast vera ráðandi hjá þessari n. Hv. síðasti ræðumaður sagði að hún hefði verið skipuð fyrir 4–5 árum. Þó hygg ég það staðreynd, að um marga aðalþáttu þess vandamáls, sem henni er ætlað að athuga, hafi hún ekki komist að niðurstöðu. Þetta á við um aðalþáttinn og þann viðkvæmasta sem hún á að fjalla um, þ.e. um sjálfa kjördæmaskipunina. Því máli hefur hún slegið á frest og raunar vísað frá sér, að því er ég best veit. Þetta er að mínu viti algerlega óviðunandi fyrir Alþingi íslendinga, að þannig sé starfað áfram. Ég bendi á það, að kjördæmaskipunin er eitt viðkvæmasta pólitíska vandamálið sem uppi er á Íslandi og hefur verið um mörg ár. Ég ætla ekki að lýsa því hér úr þessum stól, af því að hv. þm. þekkja það allir vel, hversu okkur hefur gengið erfiðlega að skipa þeim málum með lagasetningu. Þar hefur í flestum tilfellum verið um að ræða breytingar, skyndibreytingar, sem flokkar af flokkspólitískum, tímabundnum hagkvæmnisástæðum hafa getað komið sér saman um, en ekki skapað þann eðlilega og þann réttláta grundvöll til áhrifa kjósenda á skipun Alþ. og skapað kjósendum nokkurn veginn jafnrétti hvar svo sem þeir búa á landinu.

Ég held að kjördæmaskipunin sé svo stórt mál og sé svo mikill grundvöllur að lýðræðis- og þingræðisfyrirkomulagi í landinu, að um það megi ekki fjalla af neinni léttúð. Þar verða menn að ganga til verks með því hugarfari að þeir séu að finna reglur sem geti gilt um langa framtíð og svarað til þess sem langmestur hluti kjósenda í þessu landi telur réttlátt og eðlilegt. Ég tel að meðan stjskrn: starfar af þeim hraða sem hún hefur gert til þessa, þá komi hún í veg fyrir að um þessi mál sé fjallað á eðlilegan hátt og af alvöru á Alþ. Því er þessi seinagangur hjá n. ekki vitalaus og ekki skaðlaus, því að hann kemur í veg fyrir að þetta mikla mál fái þá umr. og þá athugun á hv. Alþ. sem það þarf að fá. Þessi var aðalástæðan sem leiddi til þess að ég vildi fá að segja nokkur orð við þessa umr. Ég tel að sá hægagangur, sem verið hefur á störfum í stjskrn., sé ákaflega óviðunandi.