30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég tek undir það, sem fram hefur komið hjá hv. ræðumönnum, að það er nauðsynlegt að samræma þessa löggjöf og þessi mál heyri eins og hægt er undir eitt og sama rn. Það verður sennilega ekki að öllu leyti hægt. Og það væri að mínum dómi langeðlilegast, sem hefur fram komið áður í máli sem flutt var, og málefni vangefinna heyra eðli sínu skv. undir heilbrrn. Hér er eins og fyrri daginn spurning um fjármagnið. Það hafa verið uppi tvær stefnur sérstaklega innan fjvn.: Annars vegar að afnema markaða tekjustofna með öllu, stefna að því, og sú stefna átti sér allmikið fylgi á sínum tíma. Ég var fyrir allmörgum árum nokkuð hlynntur því að gera þetta, en ég hvarf frá því við nánari athugun. Ég tel að það sé æskilegra að tiltekin verkefni og tilteknir málaflokkar á þessu sviði fái til umráða tekjustofn. Þegar búið er að vinna upp þann málaflokk og talið að hann sé vel settur, þá er sjálfsagt að breyta lögum og taka upp annan sem hefur verið verr settur. En ég held að þessir mörkuðu tekjustofnar séu að mörgu leyti mjög skynsamlegir vegna ríkissjóðs.

Í sambandi við það sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að ég kenndi um áhugaleysi þm., þá er það nú ekki beint ætlun mín að deila á þm. fyrir það. En hins vegar má segja að þm. — og þá er alveg sama úr hvaða flokki þeir eru — þeim er oft mikið í mun að fá þáltill. sínar samþ., en kannske ekki að sama skapi hugsað fyrir fjármagni nægilega fljótt. Ég er ekki að tala hér um neina einstaka eða nokkrar einstakar þáltill., heldur mjög margar. Á því tímabili öllu sem ég hef átt sæti hér á Alþ. hefur slíkt átt sér stað, alveg sama hvaða ríkisstj. hefur farið með völd.

En út af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þá lögðum við í heilbr.- og trmrn. til að 30 millj. yrðu teknar inn í fjárlagafrv. til áframhaldandi uppbyggingar á Hátúni 10 og til taka þar viðbótarhúsnæði á leigu, sem hv. þm. þekkir betur en allir aðrir hér inni, og koma þar í lok þessa árs upp dagdeild og göngudeild í tengslum við þá hjúkrunar- og endurhæfingardeild sem þar er á þremur hæðum. Ég hef rætt þetta mál alveg sérstaklega við fjmrh., að ég telji það ekki mega ske að ekki verði tekið tillit til þessara óska því hér er um það brýnt verkefni að ræða í heilbrigðisþjónustunni. Hann hefur tekið í þeim samtölum á þessu máli af miklum velvilja og skilningi, og ég vona að hv. fjvn. geri það einnig. Það er eins um þetta og margt annað. Það þarf að laka ákvarðanir um það í hvaða röð á að ganga til framkvæmda í hinum einstöku verkefnum. Við lögðum hliðstæða till. fram við gerð síðustu fjárlaga, en þá var líka búið að taka miklar fjárveitingar til breytinga á þessu húsnæði og vegna leigusamnings. En nú finnst mér vera komin röðin að því, þó að það hafi ekki gengið í fyrra, að þá megi það ekki ske aftur að fram hjá þessari till. verði gengið.