30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

251. mál, vandi landshlutasamtakanna við að fjármagna rekstur fræðsluskrifstofa

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Áður en ég svara beint spurningunni vil ég leyfa mér að rifja upp örfá atriði almennt varðandi stofnun, hlutverk og starfsemi fræðsluskrifstofanna.

Með grunnskólalögunum er landinu skipt í 8 fræðsluumdæmi, eins og fyrirspyrjandi kom að. Mörk þeirra eru hin sömu og mörk kjördæmanna. Í hverju þessara fræðsluumdæma skal vera fræðsluráð, fræðsluskrifstofa og fræðslustjóri. Sett eða skipað hefur verið í öll fræðslustjórastörfin. Landshlutasamtök sveitarfélaga ákveða fræðsluskrifstofunum stað, en háð er sú ákvörðun samþykki menntmrn. Samkv. till. landshlutasamtakanna var fræðsluskrifstofunum ákveðinn staður sem hér segir: Á Selfossi, Reyðarfirði, Ísafirði, í Borgarnesi, á Blönduósi, Akureyri, Garðabæ og Reykjavík. Samkv. grunnskólalögunum er fræðslustjóri fulltrúi bæði menntmrn. og sveitarfélaga, sem hlut eiga að máli, um fræðslumál í umdæminu og framkvæmdastjóri fræðsluráðs. Meðal verkefna fræðslustjóra er og ég vil sérstaklega rifja það upp — að fylgjast með því að gildandi fyrirmælum um fræðslumál sé fylgt í grunnskólum umdæmisins, bæði varðandi kennslu- og stjórnunarmál, og í öðrum skólum sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, — að hafa umsjón með gerð árlegra rekstraráætlana fyrir grunnskóla umdæmisins og endurskoða þær, — að hafa í umboði menntmrn. og sveitarstjórna umdæmisins umsjón með eignum og rekstri þeirra skóla sem grunnskólalög taka til, — að hafa með höndum almenna námsstjórn í grunnskólum umdæmisins og fylgjast með árangri nemenda, kynna sér starfsskilyrði skóla, þ.e. aðstöðu til kennslu og náms, svo og aðbúnað nemenda, — að úrskurða ágreiningsefni sem upp kunna að koma milli skólastjóra og kennararáðs og skólastjóra og kennarafundar, — að gera í sambandi við meint brot kennara eða skólastjóra í starfi þær ráðstafanir er hann telur þörf, — að hafa umsjón með ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í grunnskóla, og loks að kanna í samvinnu við skólastjóra, skólalækni og sálfræðideild, hvort í fræðsluumdæminu séu nemendur sem ekki eiga samleið með öðrum nemendum af ýmsum sökum, og hlutast þá til um að þeir fái kennslu við sitt hæfi. — Enn fremur fer fræðslustjóri með önnur mál er grunnskólalög kveða á um svo og þau sem menntmrn. eða fræðsluráð kunna sérstaklega að fela honum.

Þess má geta, að samkv. 17. gr. grunnskólalaga er skólanefndum heimilt að ráða sér starfsmann, skólafulltrúa, en kostnaður við störf hans greiðist úr sveitarsjóði.

Eins og hér er rakið, sumpart með beinum tilvitnunum í lögin og sumpart á annan hátt, þá er ljóst að fræðslustjórum og fræðsluskrifstofum er ætlað þýðingarmikið hlutverk við framkvæmd laganna. Eiga fræðsluskrifstofurnar m.a. að gera mögulegt að færa ýmis verkefni úr menntmrn. til afgreiðslu heima í héraði og auka þjónustu við skólana víðs vegar. Í lögunum er gert ráð fyrir að á vegum fræðsluskrifstofa verði starfrækt ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir skóla dreifbýlisins til þess að jafna aðstöðuna við þéttbýlisskólana. Gert er ráð fyrir því í grunnskólalögum, að ríkissjóður og landshlutasamtök sveitarfélaga beri saman kostnaðinn af fræðsluskrifstofunum, þannig að ríkissjóður greiði annars vegar föst laun fræðslustjóra og hins vegar árlegt framlag eftir nánari ákvæðum í lögunum, sem í raun þýðir það að ríkissjóður og sveitarfélög skipta með sér til helminga hinum almenna rekstrarkostnaði við fræðsluskrifstofurnar. Í framlagi ríkissjóðs til fræðsluskrifstofa felst m.a. sá hluti er ríkissjóður greiðir í sérfræðilegri skipulagningu skólabókasafna og eftirliti með þeim. Og það eru ákvæði í lögunum um að kostnaður við fræðsluskrifstofur greiðist af báðum aðilum mánaðarlega samkv. áætlun sem gera skal árlega, og svo er gert upp við árslokin.

Þetta, sem ég nú hef sagt, hef ég rifjað upp í tilefni af fyrirspurn hv. þm., og þá víl ég koma að hinu eiginlega beina svari og þó með örlitlum formála enn.

Þegar frv. til l. um grunnskóla var til meðferðar í síðari þingdeild vorið 1974 var frv. til l. um landshlutasamtök á svipuðu stigi í þinginu og hafði farið lítið breytt í gegnum að mig minnir fjórar umr. Þau ákvæði grunnskólalaga, er snerta landshlutasamtökin, voru við það miðuð að nefnt frv. um stöðu þeirra samtaka yrði lögfest, en af því varð ekki. Frv. varð ekki útrætt, eins og hv. þm. muna. Þá kom upp sú staða að landhlutasamtökin töldu sig ekki hafa aðstöðu til tekjuöflunar vegna kostnaðar við fræðsluskrifstofur.

Á fjárlögum 1975 var fyrst veitt fé til fræðsluskrifstofa, 18 millj. 797 þús. kr. Þá voru stöður nokkurra fræðslustjóra auglýstar og í þær ráðið síðla árs og fyrstu fræðsluskrifstofurnar tóku til starfa. Engin framlög fengust frá landshlutasamtökunum árið 1975, og var kostnaður áfallinn það ár greiddur úr ríkissjóði, en hann varð fremur lítill vegna þess hversu seint voru auglýst embætti fræðslustjóra og hversu seint skrifstofurnar tóku til starfa. Svo þegar rætt var um flutning verkefna frá ríkissjóði til sveitarfélaga síðla árs 1975 kom mjög til álita að gera um leið ráðstafanir vegna kostnaðar sveitarfélaga af fræðsluskrifstofunum, eins og hv. fyrirspyrjandi minntist á. Það var horfið frá því ráði þá og ákveðið að leita úrræða eftir áramót.

Nú hefur fyrir nokkru verið ráðið í allar fræðslustjórastöður, eins og fyrr sagði. Hafa allir fræðslustjórar hafið starfsemi, en eru flestir illa settir og sumir mjög illa með starfsaðstöðu og nauðsynlega aðstoð. Við fjárlagagerð 1976 gerði menntmrn. till. um rösklega 26 millj. kr. fjárveitingu til fræðsluskrifstofanna allra, þ.e. til ríkishlutans. Það voru veittar 19 millj. 452 þús. kr. Engin framlög hafa enn á þessu ári komið frá landshlutasamtökum, en það hefur verið fallist á 2 millj. kr. umframfjárveitingu úr ríkissjóði. Og það sem af er þessu ári, frá 1. jan. til 30. nóv., hefur ríkissjóður greitt 18 millj. kr. til launa og annars rekstrarkostnaðar fræðsluskrifstofa utan Reykjavíkur og eins og fyrr segir staðið einn straum af rekstri skrifstofanna annars staðar en í Reykjavík.

Þar sem rekstur fræðsluskrifstofanna og þar með auðvitað þjónusta þeirra hefur verið langt undir lágmarki. Það sem af er og þar á meðal á þessu ári vegna fjárskorts, þá má ætla að heildarkostnaður á þessu ári verði eitthvað nálægt því sem menntmrn, áætlaði hluta ríkissjóðs við undirbúning frv. að fjárl. þeim sem nú gilda. Ríkisstj. telur óumflýjanlegt að kostnaður við fræðsluskrifstofurnar á þessu ári greiðist úr ríkissjóði.

Eins og fram hefur komið í máli okkar beggja, hv. fyrirspyrjanda og mínu nú, telja landshlutasamtökin sig ekki geta greitt mótframlög til fræðsluskrifstofa, eins og grunnskólalög gera ráð fyrir, nema fá til þess nýja eða aukna tekjustofna. Svo að ég geri langa sögu stutta, þá vil ég bara geta þess, að í umræðum og tillögugerð um þetta mál að undanförnu, eða á þessu ári skulum við segja, hafa komið fram ýmsar hugmyndir um lausn fjárhagsvanda landshlutasamtakanna í sambandi við framlag þeirra til fræðsluskrifstofa. Ríkisstj. hefur ekki enn þá tekið afstöðu til þessara till., en hún mun gera það innan tíðar og lætur nú vinna að málinu.