30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Sigurðsson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég bið um orðið utan dagskrár, er sú, að þau tíðindi berast nú frá virkjunarframkvæmdum við Kröflu að ekki sé útlit fyrir að næg gufuorka verði fyrir hendi úr borholum, er þegar hafa verið boraðar, til þess að Kröfluvirkjun geti hafið orkuframleiðslu á þeim tíma er til stóð.

Ástand á Kröflusvæðinu hefur oft á undanförnum mánuðum verið talið ískyggilegt og virðist nú ástandið vera enn alvarlegra en áður, ekki síst jarðfræðilega.

Axel Björnsson eðlisfræðingur, en hann stjórnar jarðskjálftarannsóknum við Kröflu, segir í viðtali við eitt af dagblöðum borgarinnar í gær, með leyfi forseta: „Ef land heldur áfram að rísa við Kröflu má búast við skjálftavirkni nálægt áramótum samkv. fyrri reynslu. Skjálfti þarf þó ekki að boða eldgos, þótt hættan á því aukist, en í raun og veru geta skjálftarnir haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á jarðhitasvæðið.“

Ég bendi á að hér er um að ræða eðlisfræðing sem stjórnar jarðskjálftarannsóknum við Kröflu. Við þekkjum öll hvernig ástandið hefur verið. Orðið hefur að flytja starfsmenn Kröfluvirkjunar frá staðnum oftar en einu sinni vegna goss og jarðhræringa, sem er staðfesting á því ástandi sem þarna ríkir. Það staðfestist nú aftur og aftur að staðsetning virkjunarinnar við Kröflu hefur verið meira en lítið vafasöm í jarðfræðilegu tilliti, og þó svo að Kröfluvirkjun komist í gagnið getur hvenær sem er orðið svo virkur jarðskjálfti, þetta er svo virkt jarðskjálftasvæði, að jarðhræringar, sem stöðva alla gufuöflun og þar með orkuframleiðslu, geta valdið virkjuninni vandræðum þegar hún kemst í gagnið.

Kröfunefnd gaf út bækling um Kröfluvirkjun í sumar og ritstýrði honum Júlíus Sólnes verkfræðingur. Í honum stendur m.a., með leyfi forseta:

„Krafla og Námafjall eru bæði á hinu eldvirka gosbelti sem nær þvert yfir landið frá suðvestri til norðurs. Frá því í lok síðasta jökulskeiðs fyrir um 10 þús. árum hafa orðið 20 sprungugos á þessu svæði. Siðast gaus á Námafjallssvæðinu í Mývatnseldum 1728 og rann þá smáhraun sem Kísiliðjan stendur á. Gos á Námafjallssvæðinu hafa ávallt verið hraungos, ef undan er skilið Hverfjall, en þar gaus miklu sprengigosi undir vatni fyrir 3000 árum. Við Kröflu hafa orðið 10 hraungos á þessu sama tímabili. Þar hafa hraunin aðallega komið í sprungusveignum sem liggur gegnum jarðhitasvæðið vestanvert og breiðst til vesturs eins og landinu hallar.“

Ég vitnaði hér í nokkur orð í þessum bæklingi Kröflunefndar sem staðfesta að mínu mati ástand svæðisins sem Krafla er á. Það, sem þó fyrst og fremst veldur því að ég bið um orðið utan dagskrár, er frétt sem kom í Fréttabréfi Verkfræðingafélagsins núna fyrir helgina og er rituð af Ísleifi Jónssyni, yfirmanni jarðboranadeildar ríkisins Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Á yfirborðinu má sjá sprungur sem hæglega geta verið vegna gliðnunar sem gæti stafað af lyftingu svæðisins. Enginn veit hve langt niður þessar sprungur ná.

Sé svæðið orðið lítið vatnsleiðandi af ummyndun og samþjöppun er til lítils að vinna að bora fleiri holur á þessu ummyndaða svæði. Það liggur nærri að álita að þetta sé svona eftir að hola KJ-7 brást eins og raun bar vitni.

Samkv. almennri reynslu var ástæða til að ætla að sú hola mundi gefa næga gufu fyrir 7–8 mw. Hún gerði það líka í byrjun, en svo minnkaði aflið niður í ca. 3 mw. á einum sólarhring. Það er ekki fullsannað að hér sé um að ræða lokun vatnsæða við hitun, en það er þó nærtækasta skýringin.

Mjög fáar vatnsæðar hafa fundist í borun í sumar.

Mikill munur er á þrýstingi í borholu, sem er full af köldu vatni, og þrýstingnum í vatnsæðunum í berginu, sem er fullt af heitu vatni. T.d. er þessi munur á 1500 m dýpi orðinn 33 kg á cm2. Ef komið er í góða vatns- eða gufuæð í þessu dýpi tapast allt skolvatnið út í bergið og vatnsborðið í holunni lækkar niður í 330 m.

Þetta hefur ekki skeð við Kröflu, allar æðarnar neðan 600–800 m hafa lokast af borsvarfinu, en það bendir til að opnar vatnsæðar séu orðnar mjög fáar. Nú hefur komið í ljós að hola KG-5, sem átti að dýpka, hefur skekkst svo á 40–80 m dýpi, að ekki er hægt að koma niður 41/2 tommu borstöngum í gegnum 9 tommu rör.

Fjallshlíðin hefur skríðið niður og styður það þessa hugmynd um afleiðingar ummyndunarinnar, að bergið hafi misst burðarþol sitt og hagi sér eins og plastískur massi, en ekki eins og hart hraun. Skekkingu á holu á þennan hátt hefur aðeins orðið vart áður, þegar borað var í nýja hraunið í Vestmannaeyjum á meðan það var enn á hreyfingu.“

Svo mörg voru þau orð Ísleifs Jónssonar, sem er yfirmaður jarðborunardeildar ríkisins, sem sagt staðfesting hans á því, að ástandið við Kröflu sé mjög alvarlegt og alls ekki sé útséð um það, hvort gufa fæst yfir höfuð á svæðinu til þess að næg orka fáist fyrir þær framkvæmdir og þá rafstöð sem þegar er að verða til til framleiðslu á orku fyrir norðlendinga sem svo lengi hefur verið beðið eftir.

Ég hringdi í morgun til skrifstofustjóra Orkustofnunar til að fá staðfest hversu mikið hafi verið notað af fjármagni til borunar og borunartilrauna á þessu svæði, og hann tjáði mér að 1975 hefðu verið notaðar 300 millj., en á þessu ári, 1916, um 1 milljarður. En eins og menn vita, þá eru áætlaðar nákvæmlega þessar tölur til borunarframkvæmda við Kröflu á þessum tveimur árum. En það, sem hefur komið í ljós í framhaldi af þessum borunum, er að engin gufa er fyrir hendi þrátt fyrir 1300 millj. kr. í þessar framkvæmdir.

Það er athyglisvert fyrir almenning í þessu landi að horfa upp ó það að slíkir fjármunir skuli notaðir á þessu svæði í tilraunaskyni um það bil sem stöðin sjálf er að verða tilbúin, en átti að framkvæma í upphafi, áður en stöðin var byggð. Það er athyglisvert fyrir almenning, þegar verið er að ræða um að fólk skuli herða sultarólina á erfiðum tímum, að horfa á stóra fjármuni hverfa þarna út í buskann einfaldlega fyrir það að rannsóknir voru ekki nægar í upphafi.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa mál mitt öllu lengra. En í lokin vil ég aðeins lesa hér upp nokkur orð úr leiðara dagblaðsins Vísis sem kom út í gær og hingað til hefur ekki verið talið málgagn míns flokks, en málgagn hæstv. iðnrh., og er það staðfesting á því hvernig ástandið er orðið meðal hans manna og speglar að vissu leyti skoðanir fólksins í landinu, sem það gerir nú ekki of oft, þetta ágæta blað, en þessi orð eru svo hljóðandi:

„Það er hrikaleg staðreynd, að nýtanleg gufa hefur enn ekki fengist á virkjunarsvæðinu þegar bið er að reisa stöðvarhúsið og kæliturnana og aflvélarnar eru komnar á sinn stað. Hér hefur milljarða fjárfestingu verið verið teflt í tvísýnu. Segja m.í að nú, þegar öll mannvirki eru til, séu rannsóknir á gufuöflunarmöguleikum fyrst að hefjast fyrir alvöru.

Byrjað var á því að festa kaup á aflvélum fyrir Kröfluvirkjun, síðan var hafist handa um byggingarframkvæmdir, og loks fóru menn að huga að undirstöðu alls þessa, gufuöfluninni.“

Svo segir í Vísi. Þar segir ýmislegt fleira, en tíminn gefur ekki tilefni til þess að rekja það þó að menn hefðu vafalaust gaman af að hlusta á hvað málgagn iðnrh. hefur að segja um þessa hluti. En ég óska eftir því við hæstv. iðnrh. að hann segi okkur frá því, hvernig ástandið er við Kröflu og hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða framkvæmdir þar með tilliti til nýrra — og reyndar um nokkurn tíma — frétta um það alvarlega ástand sem ríkir á því svæði.