30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég tel ástæðulaust af hálfu hv. 2. þm. Austurl. að kvarta yfir því, að ekki fáist umr. um landhelgismálið hér á Alþ. Það eru ekki margar vikur síðan við ræddum hér samninginn við breta, og í þeim umr. var allítarlega rætt um landhelgismálið. Það var í fyrsta lagi rætt um það, hvort þessi samningur hefði í sér fólgna viðurkenningu breta á 200 mílna útfærslu okkar. Það var í öðru lagi fjallað um gildi fyrirvara breta varðandi gildistíma tollaívilnana samkv. bókun 6. Og það var í þriðja lagi varið mjög löngum tíma í það að fjalla um, hvort rétt væri að taka upp víðræður við aðrar þjóðir um hvað skyldi við taka að samningstímabili loknu. Um þetta voru menn ekki á eitt sáttir að vísu. En engu að síður var um allt þetta rætt ítarlega, þannig að það hefur ekki verið farið fram hjá Alþ. Utanrmn. hefur verið skýrt frá viðræðunum, landhelgisnefndarfundur er boðaður á mánudaginn kemur og það er ekki ætlun ríkisstj. að ganga fram hjá Alþ. að einu eða neinu leyti.

Það kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að hér væri Alþingi óvirðing sýnd. Ég held að það sé mjög mikill misskilningur hjá hv. þm. og er viss um að hann viðurkennir það fyrir sjálfum sér þegar hann hugsar betur um málið.

Í þeirri sameiginlegu yfirlýsingu, sem gefin var út eftir síðustu viðræður við fulltrúa Efnahagsbandalagsins, er í fyrsta lagi talað um að Ísland og Efnahagsbandalag Evrópu hafi komið sér saman um að halda áfram viðræðum sín á milli er miði að samkomulagi til lengri tíma, þar sem kveðið verði á um samvinnu á sviði fiskverndar og stjórnunar á veiðum tiltekinna fiskstofna. Þarna er talað um viðræður er miði að samkomulagi um samvinnu á sviði fiskverndar og stjórnunar á veiðum tiltekinna fiskstofna. Ég hefði nú haldið það svo skýrt orðað að ekki þyrfti frekari skýringa við og veit að hv. 2. þm. Austurl. er svo vel heima í sjávarútvegsmálum og fiskveiðamálum að hann skilur þetta orðalag. Ég held að hvorki hann né aðrir þurfi að vera hræddir um það, að við munum í slíkum viðræðum afsala okkur einhverju sjálfsforræði um hvaða fiskverndunarleiðir við kjósum að fara innan okkar 200 mílna fiskveiðilögsögu. Ég hef í raun og veru litið þannig á málin, að enginn hv. alþm. léti sér detta í hug að nokkur þjóð mundi gera strangari kröfur til fiskverndar en við íslendingar. Þar af leiðandi hefði ég haldið að það væri einföld ályktun að skilja tilgang slíkra viðræðna sem svo, að við værum að fá Efnahagsbandalagið eða ríki Efnahagsbandalagsins til þess að gera samsvarandi fiskverndunarkröfur innan sinnar fiskveiðilögsögu. Það er staðreynd að innan fiskveiðilögsögu Grænlands eru t.d. svokallaðir flökkufiskstofnar sem fara bæði um fiskveiðilögsögu Grænlands og Íslands. Íslenskir fiskifræðingar hafa opinberlega lýst áhyggjum sínum yfir því, að veiðar rússa og annarra þjóða reyndar líka við Grænland stofni karfastofninum í hættu, þannig að við getum búist við minni karfagengd hér á íslenskum fiskimiðum. Væri t.d. ekki ástæða fyrir okkur að ganga úr skugga um hvaða stjórnun á fiskveiðum Efnahagsbandalagið ætlar að hafa innan fiskveiðilögsögu sinna landa? Ég kem síðar að því, hvort Grænland telst til Efnahagsbandalagsins eða ekki að þessu leyti. Og væri ekki ástæða fyrir okkur íslendinga t.d. að ganga úr skugga um það, hvort móðurskipum og verksmiðjuskipum verði heimilaðar veiðar innan fiskveiðilögsögu Efnahagsbandalagsríkjanna? Slík skip eru bæði að verki innan fiskveiðilögsögu Grænlands og innan fiskveiðilögsögu Bretlands og valda geig hjá fiskimönnum margra ríkja og geta haft áhrif á fiskgengd á Íslandsmiðum. Er ekki sjálfsagt að ganga úr skugga um það með viðræðum, hvernig Efnahagsbandalagsríkin ætla að haga þessum málum hjá sér, og ef við getum fengið samvinnu við þau um að þau taki samsvarandi fiskverndunarráðstafanir upp hjá sér eins og við teljum eðlilegar hjá okkur, er þá ekki ávinningur í því?

Sannleikurinn er sá, að ég taldi um svo sjálfsagðan hlut að ræða sem þessi þáttur fréttatilkynningarinnar fjallar um, að mér datt sannast að segja ekki í hug annað en allir hv. þm. væru sammála þessu.

Hvað snertir framhaldið, þá er sagt að í viðræðum, sem ráðgerðar ern seinna í næsta mánuði, verði einnig fjallað um hugsanlegar gagnkvæmar veiðiheimildir á fiskimiðum hvors samningsaðila um sig. Það er talað um hugsanlegar gagnkvæmar veiðiheimildir. Og til frekari takmörkunar er sagt: „í samræmi við stefnu beggja aðila á sviði fiskverndar“. Sannleikurinn er sá, að við vitum að bretar og Efnahagsbandalagið fyrir þess hönd hafa áhuga á að afla sér fiskveiðiheimilda innan 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Það er ekkert leyndarmál og hefur aldrei verið neitt leyndarmál. Spurningin er hvort við viljum veita slíkar heimildir. Við höfum engu lofað um það og sagt að við tækjum upp víðræður um slíka ósk á grundvelli gagnkvæmra veiðiheimilda.

Nú er það svo, að Efnahagsbandalagið hefur ekki mótað sina fiskveiðistefnu og við vitum þess vegna ekki hvað Efnahagsbandalagið býður. Við teljum það óþarfa bráðlæti að svara einu eða öðru fyrr en við sjáum og staðreynum hvað er í boði af hálfu gagnaðila. Við treystum okkur vel til þess að halda svo á hagsmunum Íslands að þeim sé borgið og að viðræðurnar leiði til samnings um veiðiheimildir nema íslendingar fái það í staðinn sem þeir meta a.m.k. jafngilt og jafnmikilvægt og þeir e.t.v. láta í té. Um þetta hefur engin ákvörðun verið tekin og verður ekki tekin, enda ekki unnt að taka hana fyrr en vitað er hvað er í boði af hálfu gagnaðila.

Í máli hv. 2. þm. Austurl. kom fram enn á ný þessi minnimáttarkennd, að við íslendingar eigum ekki að taka upp viðræður við aðrar þjóðir um það, sem þær hafa áhuga á, jafnvel þótt það sé vafasamt og mikið matsatriði hvað miklar líkur eru til þess að slíkar viðræður leiði til samkomulags. Um það skal ég ekkert segja á þessi stigi málsins. Málið er ekki upplýst af hálfu gagnaðila nægilega til þess. En við eigum að muna það, að oft viljum við íslendingar óska eftir viðræðum við aðrar þjóðir um okkar eigin áhugamál og við viljum gjarnan fá tækifæri til þess að lýsa þeim, jafnvel þótt litlar líkur séu á því að við fáum þeim framgengt. Það er nauðsynlegt, þegar hagsmunir rekast á eða deilur rísa, að þjóðir hafi manndóm, þroska og þor að ræða saman. Hitt er svo allt annað mál, hvort slíkar viðræður leiða til samkomulags eða ekki.

Það er fjarri lagi hjá hv. þm. að halda því fram að við viljum ganga fram hjá Alþ. Og ég vil a.m.k. ekki standa þannig að málum sem hann gerði í sinni sjútvrh.-tíð, þegar hann var í rauninni búinn að ganga frá samningi við Sovétríkin um samvinnu á sviði fiskirannsókna, að því er mér jafnvel skilst með þeim hætti að ganga fram hjá utanrrh. og fara fram hjá réttum starfsreglum á því sviði, hvað þá að Alþ. væri gert kunnugt um slíkar fyrirætlanir eða innihald samkomulagsins eða samkomulagsuppkastsins gert kunnugt hér. Það getur vel verið ástæða að gera slíkan samning eða samkomulag við Sovétríkin og er á milli Sovétríkjanna og Noregs. En ég segi þetta sem dæmi um það, að hv. þm. gerir meiri kröfur til annarra en sjálfs sín.

Ég átti að áliti hv. 2. þm. Austurl. að gefa margvíslegar yfirlýsingar. Ég vil segja um þá kröfu hv. 2. þm. Austurl., að honum getur ekki verið alvara að ég gefi slíkar yfirlýsingar. Ég hef þegar gefið yfirlýsingu um það, að á þessu stigi málsins er ekki unnt að segja hvort viðræður um samvinnu á sviði fiskverndar og stjórnunar á veiðum tiltekinna fiskstofna, viðræður um möguleika á slíku samkomulagi leiði til þess að samkomulag verði gert. Viðræðurnar einar leiða það í ljós. Það er hins vegar alveg sjálfsagt að gefa bæði utanrmn. og landhelgisnefnd skýrslur um slíkar viðræður eftir því sem þær fara fram.

Þá óskaði hv. 2. þm. Austurl. að í framhaldi af könnunarviðræðum verði málið tekið fyrir og stefna mörkuð hér á Alþ. Ég tel að í þessari yfirlýsingu minni um að samráð verði haft við utanrmn. og landhelgisnefnd felist það, að stefnan verði mörkuð innan veggja Alþingis.

Varðandi veiðiréttindi á Grænlandsmiðum vil ég aðeins láta þá skoðun í ljós, að veiðiréttindi á Grænlandsmiðum, samningsforræði hvað þau snertir, veltur væntanlega á þjóðarétti, á því hverjir fara með málefni grænlendinga. Við íslendingar getum haft okkar skoðanir á því, hver staða grænlendinga eigi að vera í heiminum, og meðal grænlendinga sjálfra skilst mér að sé ágreiningur að þessu leyti, ef marka má ummæli grænlensks stjórnmálamanns sem hér var á ferðinni nýlega. Það fer eftir því, hvernig þessu samningsforræði er varið á hverjum tíma, við hverja er að eiga. Áð við getum ekki verið þekktir fyrir að þiggja veiðiréttindi úr hendi þess aðila, sem að þjóðarétti hefur samningsforræðið, get ég ekki fallist á vegna þess að við erum þá ekki að taka neitt frá grænlendingum, heldur er sennilega þar verið að bjóða fram veiðiréttindi sem ella mundu falla t.d. rússum eða öðrum þjóðum sem nú stunda veiðar á þessum miðum, ef og að því tilskildu að einhvers konar fiskverndarsjónarmiða sé gætt á Grænlandsmiðum, sem við skulum vona að Efnahagsbandalagið taki okkur til fyrirmyndar um.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa ræðu mína frekar, en vil þó aðeins, áður en ég lýk máli mínu, láta þá skoðun í ljós að nú um þessi mánaðamót muni það koma í ljós, að bresk fiskiskip hverfi af Íslandsmiðum samkv. samkomulaginu, sem gert var í Osló, og þar með sé staðfestur sá skilningur okkar, sem að samningsgerðinni stóðum og samninginn samþykktum hér á Alþ., að í samningnum fælist viðurkenning á 200 mílna útfærslu okkar. Upplýst er að annað atriðið, sem rætt var um og umdeildast var í sambandi við samninginn, þ.e.a.s. fyrirvari breta varðandi gildistíma tollaívilnana, hefur ekki borið á góma í þeim könnunarviðræðum sem hingað til hafa farið fram, og því munu þær tollaívilnanir halda gildu sínu. Hér er um tvö mjög mikilvæg atriði að ræða, og á þeim atriðum m.a. byggist það sem við höfum alltaf sagt, sem samþykktum Oslósamninginn, að við erum nú í þeirri stöðu að geta metið framvindu málsins og tekið ákvarðanir okkar á grundvelli okkar eigin hagsmuna að einu og öllu leyti. Þetta var loks staðfest í leiðara blaðs hv. 2. þm. Austurl. núna um daginn, og það er gott að skilningur stjórnarandstöðunnar hefur vaxið á gildi þess samkomulags sem þeir töldu vera óviðunandi þegar það var gert, á gildi þeirra viðræðna sem fóru á undan því samkomulagi og þeir töldu óráð að hefja. Eins og þær viðræður leiddu til ávinnings fyrir okkur, þá tel ég að þær viðræður, sem ráðgerðar eru seinni hluta des., geti aldrei orðið annað en okkur til ávinnings, hvort heldur þær leiða til samkomulags eða ekki. Við höfum þar tækifæri til að skýra okkar sjónarmið, aðstæður okkar og tíunda það skilmerkilega hvað við teljum nauðsynlegt að fá ef við veitum eitthvað, og ef við veitum ekki neitt, þá höfum við tækifæri til þess að gefa á því skýringu og rökstyðja það þannig að gagnaðilinn skilji.