30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Eftirleikur þeirra umr., sem síðast fóru fram hér í Reykjavík milli íslenskra stjórnvalda og fulltrúa Efnahagsbandalagsins, hefur verið næsta skrýtinn. Í blöðum ríkisstj. hér heima og ræðum, sem við höfum m.a. heyrt hér í dag, er fyrst og fremst talað um fiskvernd, sem er allt að því heilagt hugtak í hugum íslendinga, a.m.k. nú orðið, og það sé ómögulegt annað en að við ræðum við hvern sem vill við okkur tala um fiskvernd og reynum að koma ár okkar eins vel fyrir borð á því sviði og við getum.

En hinn aðilinn virðist líta allt öðruvísi á það, sem hefur gerst. Yfirlýsingar Gundelachs og ummæli Croslands eru fyrst og fremst um það, hvers vegna þeim hafi ekki tekist að ná samningum um frekari veiðar. Og blaðaskrif og vangaveltur í blöðum á meginlandinu og þá sérstaklega í Bretlandi snúast eingöngu um þetta. Þar er Crundelach gagnrýndur fyrir aumingjaskap, en þó gefið undir fótinn með að þetta muni e.t.v. ganga eitthvað betur hjá þeim um eða upp úr áramótum.

Nú skal ég ekkert segja um það, að íslenskir aðilar eða erlendir séu visvítandi að mistúlka það sem gerðist. Það getur vel verið að báðir hafi rétt fyrir sér, það sem þeir tala um, hafi borið á góma. En a.m.k. liggur fyrir tilkynning þar sem talað er annars vegar um fiskvernd og hins vegar um hugsanlegar gagnkvæmar fiskveiðiheimildir. Og það veit hver einasti heilvita maður, að þetta mál snýst fyrst og fremst um fiskveiðiheimildir. Það sérkennilega og að mörgu leyti það ógeðslega við þessa þróun málsins er, að það læðist að manni sá sterki grunur að það eigi að nota fiskverndina til að blekkja okkur íslendinga til að veita fiskveiðiheimildir. Ég segi: Það læðist að okkur sá grunur. Hann styrkist við það að lesa vangaveltur og ummæli hinna erlendu aðila að þessu máli.

Nú er það svo, að það er gömul saga um verndun fiskstofnanna. Þegar fyrstu fundir til undirbúnings Hafréttarráðstefnunni hófust lögðu kanadamenn fram víðtækar og vel undirbúnar till. um að varðveita fiskstofnana, en vera ekkert að hugsa um landhelgi eða neitt slíkt, því að fiskurinn skildi ekki þessar landhelgislínur okkar. Þetta var kölluð tegundaleiðin og byggðist að verulegu leyti á því sem hæstv. forsrh. kallaði flökkufiskstofna. Þessi till. var rædd á undirbúningsfundum Hafréttarráðstefnunnar. En henni var hafnað. Hún var talin óframkvæmanleg. Ráðstefnan snerist inn á hina leiðina, útfærsluleiðina. Það varð almennt samkomulag um útfærsluleiðina, að hún væri framkvæmanleg og með henni ætti að ná verndunartakmarkinu vegna þess að það væru hagsmunir hvers strandríkis að vernda sína fiskstofna. Síðan færðist útfærsluhugtakið alla leið í 200 mílur. Þá er ekki orðið svo afskaplega mikið af nytjafiskum sem flakka á milli, að það sé stórkostlegt vandamál sem ekki má leysa ef hver hugsar vel um sína landhelgi.

Nú gerist það allt í einu eftir þá þróun, sem orðið hefur, með nokkurra ára millibili, — það eru 4–5 ár síðan kanadamenn voru með þessar hugmyndir og urðu að hverfa frá þeim, — að Guadelach kemur með þessar hugmyndir á ný. Menn heyra nú að ef Efnahagsbandalagið yrði svo indælt að vernda þorskstofninn við Grænland, þá væri eðlilegt vegna Grænlandsþorsksins, sem syndir upp að Vestur-Íslandi, að íslendingar borguðu fyrir það með því að lofa breskum togurum að veiða hér. Þessi hugmynd, sem er byggð á þessari gömlu tegundaleið kanadamanna sem var hafnað snemma í þróun þessa máls, er sýnilega nýtt bragð upphugsað til þess að reyna að finna einhverja leið til þess að ná samningum við íslendinga. Þessir menn gera sér grein fyrir því, að það muni verða erfitt að ganga beint framan að okkur og heimta framlengingu á bresku samningunum. Þess vegna er fundin upp þessi krókaleið, að reyna að nota fiskverndarhugtakið, fiskverndartilfinningarnar, til þess að lokka okkur til að veita Efnahagsbandalaginu veiðiheimildir eða réttara væri að segja: frekari veiðiheimildir en það þegar hefur í íslenskri landhelgi.

Það er sama hvernig á þetta er lítið. Dettur nokkrum manni í hug að settur utanrrh. alls Efnahagsbandalagsins eigi að fara hverja ferðina á eftir annarri í einkaþotu sinni hingað til Íslands bara til að tala um það hvernig eigi að vernda þorskinn við Grænland? Nei, alls ekki. menn af þessum stigum skipta sér ekki af málum nema þau séu víðkvæm milliríkjadeilumál. Þess vegna er óhugsandi annað en kjarninn í málinu sé að Efnahagsbandalagið ætli sér að reyna, ef þess er nokkur kostur, að fá íslensku ríkisstj. eða meiri hl. hennar hér á Alþ. til að samþykkja frekari veiðiheimildir fyrir breta.

Nú er það svo, eins og ég sagði rétt áðan, að við höfum samninga við Efnahagsbandalagslönd. Efnahagsbandalagið hefur veiðiheimildir hér í a.m.k. eitt ár enn þá. Þar á ég við samningana við þjóðverja og belga, við skulum sleppa færeyingum. Ef bresku togararnir eru aðframkomnir út af því að þurfa að hætta núna 1. des. því semja þeir þá ekki við þjóðverjana innan bandalagsins? Eitt er víst, að þjóðverjar hefðu vel ráð á því ef þeir vildu. Og í öðru lagi ættu það ekki að vera mjög erfiðir samningar, af því að hverjir eiga flesta þýsku togarana? Meiri hlutinn af þýska togaraflotanum er í eigu Unilever, breskhollenska auðhringsins sem við þekkjum vel, a.m.k. menn sem muna það þegar við þurftum að semja við þann hring ár eftir ár um sölu á lýsi. Þeir eru eigendur að meiri hlutanum af þýska togaraflotanum. Það voru til togarafyrirtæki í Þýskalandi sem voru eign landsmanna og samvinnuhreyfingarinnar, en þau hafa fyrir löngu gefist upp við þann rekstur.

Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að í opinberum skiptum íslenska lýðveldisins verðum við að fylgja gildandi rétti, jafnvel þó að hann sé okkur ógeðfelldur, þegar ekki verður hjá því komist að gera einhverjar aðgerðir. En viðhorf okkar til málsatvika geta verið nægileg til þess að við sleppum frekar slíku samkomulagi. Þegar við tölum um það sem ósköp eðlilegt mál að Efnahagsbandalagið í Brüssel geti úthlutað okkur auðlindum grænlendinga sem borgun fyrir það að breskir togarar fái að veiða hér áfram, þá er það ógeðfellt, að ekki sé meira sagt, og það minnir okkur óþægilega á þá tíð þegar síðasta einvaldsstjórnin danska samdi við Bretaveldi um þriggja mílna landhelgi við Ísland, samkomulag sem við vorum ekki spurðir um, en við máttum þó búa við í 50 ár. Mér finnst eðli þessa máls nokkurn veginn eins, og það situr síst á okkur að gerast aðilar að slíkum samningum fyrir þjóðir sem eru skemmra komnar en við í sinni frelsisbaráttu.

Hæstv. forsrh. talar mikið um að það sé ekki búið að móta fiskveiðistefnu Efnahagsbandalagsins og við vitum ekki hvað sé í boði. Vitum við það ekki? Ætli okkar útgerðarmenn og sjómenn viti ekki nokkurn veginn hvað er veitt við norðanverða Evrópu, hvaða fisk er um að ræða? Ætli það sé ekki fjöldi starfsmanna við útgerð í opinberum stofnunum, eins og í Fiskifélaginu og í rn., sem hafa nákvæmar skýrslur um það hvaða stofna er yfirleitt um að ræða? Ég tel að það sé allt að því barnalegt að láta eins og við vitum ekki hvað okkur verður boðið? Við vitum hvað er hugsanlegt að okkur verði boðið, og við þurfum því ekki að tala nm þessi mál á þann hátt að þetta sé dularfullt atriði. Á hinn bóginn vitum við enn þá betur að við höfum ekkert sjálfir til að bjóða, og það er kjarni málsins.

Hæstv. forsrh. sagði að viðræðurnar mundu leiða í ljós hvort samið verði eða ekki. Í þessu orðalagi felst viðurkenning á því, að það sé mögulegt að það verði samið, og í opinberu tilkynningunni var bæði talað um fiskvernd og gagnkvæmar fiskveiðiheimildir. Í þessu orðalagi felst að ríkisstj. telur mögulegt að það verði samið um fiskveiðiheimildir. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi. Úr því að forsrh. viðurkennir á þennan hátt að sá möguleiki sé fyrir hendi, vill hann þá hliðra sér hjá því að segja okkur hvaða fisk hann telur að við höfum til að semja um og veita öðrum.

Hæstv. ráðh. talar um að menn þurfi að vera óhræddir um að ræða við aðrar þjóðir og sýna manndóm, þroska og þor. En þegar menn semja eða standa í samningum við aðrar þjóðir um lífshagsmunamál. Þá má líka segja að það þurfi manndóm, þroska og þor til að segja sinni eigin þjóð hvaða grundvallarstefnu ríkisstj. hefur varðandi þessa samninga. Ég skil vel að það er ekki hægt að segja fyrir fram hvert orð, sem fer á milli. En það hlýtur að styrkja samningsaðstöðu okkar ef það kemur opinberlega fram að við teljum okkur ekki hafa neitt að láta, og það er alveg eins gott að viðmælendur okkar fái að heyra það strax. Úr því að ríkisstj. telur að það fari eftir viðræðunum hvort samið verður eða ekki, þá hlýtur hún að hafa gert sér grein fyrir hvað það er sem hún getur hugsað sér að láta, af því að úr samningum verður ekki með öðru móti en því að báðir aðilar láti eitthvað af hendi rakna. Jafnvel þótt ráðh. hafi ekki kynnt sér hvað líklegt er eða í sumum tilfellum víst að Efnahagsbandalagið muni reyna að bjóða okkur, þá hlýtur hann að hafa gert sér grein fyrir hvað hann telur að við getum boðið því. Ég vil því ítreka þær áskoranir, sem fram hafa komið á hann um að segja þjóðinni a.m.k. viðhorf sitt hvað það snertir.

Ef dæma má af tali manna og því sem við heyrum, sem hér lifum og hrærumst, þá er ég sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti, ef ekki nálega öll íslenska þjóðin telur að við höfum ekkert að láta. Við stöndum nú þegar andspænis því að við eigum fiskiflota sem gæti afkastað miklu meiru en hann fær að afla, að við höfum fiskiðnað í landi sem gæti afkastað miklu neitt. Við stöndum þegar andspænis því að misskipting á þessum skipum á milli byggðarlaga er farin að verða alvarlegt vandamál. Og það hlýtur að vera á næsta leiti að íslensk stjórnvöld verða allt að því að skammta aflann á milli byggðanna. Ég get ekki séð að þróunin leiði til annars. Og þá er ekki von að menn séu hrifnir af loðnu tali um að það fari eftir víðræðunum hvort við látum útlendinga fá frekari fiskveiðiheimildir á næstunni en þeir hafa þegar.